Menning

Birt þann 18. nóvember, 2016 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Tölvuleikir og spil á Nordic Game Day laugardaginn 19. nóvember

Á morgun, laugardagunn 19. nóvember, verður norræni leikjadagurinn Nordic Game Day haldinn hátíðlegur á Norðurlöndunum. Á deginum veita bókasöfn (og aðrar stofnanir) spilum og tölvuleikjum sérstaka athygli með því að bjóða upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Á Íslandi taka 10 bókasöfn þátt í Nordic Game Day í ár og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri.

Samtals hafa yfir 200 viðburðir verið skráðir í tengslum við Nordic Game Day og má finna yfirlitskort yfir alla viðburði hér á heimasíðu Nordic Game Day. Lista yfir íslensk söfn sem taka þátt í ár má finna neðst í þessari færslu.

Borgarbókasafnið verður með fjölbreytta dagskrá í boði á þremur stöðum. Í Grófinni verður hægt að spila spil og prófa leiki frá íslenskum leikjafyrirtækjum; Box Island frá Radiant Games, Gunjack sýndarveruleika frá CCP, Mussila tónlistarleikinn frá Rosamosi og kennsluleiki og öpp frá Gebo Kano auk þess sem Sigursteinn J. Gunnarsson leikjahönnuður kynnir leikinn Sumer frá Studio Wumpus. Einnig verður boðið upp á kynningu í forritun og Pokémon GO göngur í boði Íslenskra Pokémon Þjálfara á Facebook. Nánari dagskrá má finna hér á heimasíðu Borgarbókasafnsins.

1-pokemon_1_minnkad

Sérstök Nordic Game Day tölvuleikjakeppni verður haldin í ár þar sem keppt verður í ormaleiknum Slither.io þar sem spilarinn þarf að safna hlutum til að fá stig og stækka orminn sinn (minnir mikið á Snake í gömlu Nokia símunum). Stigahæsti spilari Norðurlandanna fær OnePlus 3 snjallsíma að gjöf auk þess sem stigahæsti spilarinn í hverju landi fyrir sig fær spil eða tölvuleik.

Borðspil spila einnig stóran þátt á Nordic Game Day og mun Amtssafnið á Akureyri meðal annars bjóða gestum uppá að spila Las Vegas, Splendor, Resistance, Dominion, Partners, Dixit, Jungle Speed og geta gestir mætt með sín eigin spil til að kynna þau fyrir öðrum. Safnið mun auk þess byrja að lána út spil líkt og bækur. Hægt er að lesa nánar um dagskrána á Akureyri hér.

Flest önnur söfn sem taka þátt í deginum munu einnig þess bjóða gestum að spila spil á staðnum.

Söfnin sem taka þátt í ár:

  • Borgarbókasafn, í Grófinni
  • Borgarbókasafn, Kringlunni
  • Borgarbókasafn, Gerðubergi
  • Amtsbókasafnið á Akyreyri
  • Bókasafn Akraness
  • Bókasafn Kópavogs
  • Bókasafn Hafnarfjarðar
  • Bókasafn Grindarvíkur
  • Bókasafn Árborgar
  • Bókasafnið í Hveragerði

Myndir: Nordic Game Day

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑