Greinar

Birt þann 8. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Hvað mun PS4 og Xbox One kosta á Íslandi?

Sony og Microsoft gáfu upp verðin á nýju leikjatölvunum sínum á E3 leikjasýningunni sem var haldin í síðasta mánuði  – en hvað ætli leikjatölvurnar muni kosta í íslenskum verslunum?

Ath: Íslenskt hefur verið staðfest

Skoðum þetta aðeins. Oftar en ekki býður vefverslunin Amazon upp á vörur á mjög hagstæðu verði. Ef við notum bresku Amazon verslunina sem viðmið og berum saman verð á leikjatölvum á bresku vefversluninni og algengu verði leikjatölva hér á landi kemur í ljós að þær eru iðulega í kringum 30-70% dýrari í verslunum hérlendis. Verðmuninn má vanalega útskýra með ýmsum gjöldum, s.s. sendingarkostnaði, tollum, gengi krónunnar, álagninu verslana og öðrum gjöldum.

Leikjatölvur - Verð

 * GBP breytt í ISK

PlayStation 4

PS4_tolvanUppgefið verð á PlayStation 4 er $399 í Bandaríkjunum, €399 í Evrópu og £349 í Bretlandi. Við skulum miða verðið við breska pundið og í dag gera 349 pund tæpar 66.000 íslenskar krónur.

Ef álagning milli leikjatölva er sérstaklega skoðuð kemur í ljós að núverandi leikjatölvur frá Sony, PS3 og PS Vita, eru með nokkuð lægri álagninu hérlendis en leikjatölvurnar frá Microsoft og Nintendo eða 35-55% dýrari í stað 60-70%. Sony leikjatölvurnar tvær eru að meðaltali 45% dýrari hér á landi en á breska Amazon versluninni. Ef við miðum við að PS4 fái sömu meðferð hér á landi má gera ráð fyrir því að hún muni kosta tæpar 96.000 kr. Á meðan tölvan er ný kæmi ekki á óvart að bætt yrði nokkrum þúsund köllum við verðið og giskum við á að hún muni kosta á bilinu 96.999 kr. og 103.999 kr. út í búð.

PS4 mun þó alls ekki kosta minna en 70.000 kr (sem er rétt yfir kostnaðarverði tölvunnar í Bretlandi) og ekki meira en 113.000 kr (miðað við hefðbundna álagningu í hérlendum verslunum).

Okkar ágiskun: 99.999 kr.

 

Xbox One

Xbox OneUppgefið verð Microsoft á Xbox One er $499 í Bandaríkjunum, €499 í Evrópu og £429 í Bretlandi. Við miðum verðið aftur við breska pundið og í dag gera 429 pund u.þ.b 81.000 íslenskar krónur, sem er 15.000 kr. hærra en verðið á PS4 í Bretlandi. Verðmunurinn segir þó ekki alla söguna þar sem Kinect skynjarinn fylgir með Xbox One á meðan PS4 kaupendur þurfa að kaupa slíka græju sérstaklega ef þeir vilja notast við sambærilega skynjara.

Íslenskar verslanir virðast leggja töluvert meira á Xbox 360 leikjatölvuna en Sony leikjatölvurnar þar sem leikjatölvan er 60-70% dýrari á Íslandi en uppgefið verið á breska Amazon.

Íslendingar hafa laðast meira að PlayStation leikjatölvunum en öðrum leikjavélum í gegnum tíðina, ástæðan fyrir þvi er trúlega sú að enginn sinnir Xbox umboðinu hérlendis á meðan Sena, umboðsaðili PlayStation, hefur sinnt sínu starfi vel. Svo má ekki gleyma því að íslenska leikjasamfélagið hefur myndað óbein tengsl við PlayStation tölvurnar. Bæði var Íslendingurinn Ólafur Jóhann Ólafsson áberandi hjá Sony þegar PlayStation var að taka sín fyrstu skref á hinum almenna markaði og svo gaf íslenska leikjafyrirtækið CCP út leikinn DUST 514 sem er eingöngu fáanlegur á PlayStation 3. Þessi þróun hefur undið upp á sig og í dag má segja að PlayStation sé markaðsráðandi hér á landi (það er í raun nóg að bera saman úrval PlayStation og Xbox leikja í íslenskum verslunum til að sjá hve mikill munur er á vinsældum tölvanna).

Þar sem engar fréttir eru af breyttu ástandi á íslenskum markaði gerum við ráð fyrir því að álagningin verði meiri á Xbox One en PS4. Xbox One mun mjög afar ólíklega kosta minna en 90.000 kr.  og fer trúlega ekki yfir 140.000 kr. múrinn. Óvíst er með álagningu vegna óvissunnar með Xbox á Íslandi. Til dæmis geta þeir sem hafa í huga að kaupa sér PS4 skráð sig á sérstakan pöntunarlista hjá Elko, en fyrirtækið hefur hingað til ekki boðið upp á sambærilegan lista fyrir væntanlega Xbox One kaupendur.

Líklega verður verðið á bilinu 50-70% dýrara en á Amazon, og ef við miðum við meðaltalið af því (60%) mun Xbox One kosta u.þ.b. 130.000 kr. Trúlegast mun tölvan þá kosta einhversstaðar á bilinu 120.999 og 134.999 kr. út í búð.

Okkar ágiskun: 129.999 kr.

 


Áður en þessi grein var birt heyrðum við í nokkrum af stærstu raftækjaverslunum á Íslandi varðandi nýju leikjatölvurnar. Flestar verslanirnar stefna að því að bjóða upp á báðar leikjatölvurnar á meðan örfáar verslanir segjast ætlað selja PlayStation 3, en sjá til með Xbox One.

Í lokin vil ég ítreka að engin verslun á Íslandi hefur gert verðið á PS4 eða Xbox One opinbert. Þessi grein byggir á ágiskunum út frá núverandi álagningu leikjatölva í íslenskum verslunum.

Einnig skal hafa í huga að verðin á bresku Amazon vefversluninni eru eingöngu notuð hér til viðmiðunnar. Ef vörur eru pantaðar frá Amazon UK til Íslands hækkar verðið yfirleitt þar sem sendingarkostnaður, tollar og mögulega önnur gjöld eiga eftir að bætast við uppgefna upphæð.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑