Birt þann 24. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
5Topp 12 fyrir 2012 – Tölvuleikir
Árið 2011 var ansi gott leikjaár. Við fengum Skyrim, LittleBigPlanet 2, Portal 2, Mortal Kombat, LA Noire, FIFA 12, Batman: Arkham City, Saints Row: The Third í hendurnar og fleiri ekki-eins-góða titla á borð við Duke Nukem Forever… þvílík sóun á pixlum! En hvað býður leikjaárið 2012 upp á? Hér fyrir neðan fjalla ég um 12 mest spennandi tölvuleiki fyrir 2012 og í lokin lista ég hrúgu af leikjum sem er vert að nefna.
#12 LOLLIPOP CHAINSAW
Þrusuöflugur B-mynda fílingur með erótísku ívafi!
Spilarinn stjórnar sjóðheitu klappstýrunni Juliet Starling sem berst við hjörð uppvakninga í skólanum sem hún gengur í. Nafnið á leiknum er yndislegt og er stiklan enn betri. Ég meina, hver vill ekki spila körfubolta með því að hlaupa að uppvakningum skera höfuðið af með keðjusög og skjóta því að körfunni? Þessi leikur á eftir að verða virkilega steiktur, og vonandi á hann eftir að standast væntingarnar okkar. Vonandi fellur leikurinn ekki í sömu gryfju og Onechanbara: Bikini Samurai Squad sem kom út 2009 og fékk hræðilega dóma, vægast sagt.
Væntanlegur á PS3 og Xbox 360.
#11 THE SECRET WORLD
Hæ hæ skvísípæ! Dettí’ sleik?
The Secret World er MMORPG (Massive Multiplayer Online Role-Playing Game) þar sem spilarinn fer með hlutverk hetju sem hann býr sjálfur til. Það sem TSW hefur hinsvegar umfram aðra MMO leiki, eins og World of Warcraft, Runescape, Guild Wars og fleiri, er að spilarinn velur sér ekki hæfileika heldur eru allir þeir sem spila leikinn gæddir sömu kröftum og þarf að virkja þá í gegnum hæfileikatré. Auk þess er ekkert frammistöðukerfi (e. leveling system) svo að allir spilarar eru jafnir frá byrjun. Það eina sem brúar bilið á milli spilara, er reynslan. Útkoman er algjörlega frjáls spilun sem er alveg ókönnuð af flestum öðrum leikjum hingað til.
Væntanlegur í apríl á PC.
Lestu meira um The Secret World með því að smella hér.
# 10 FAR CRY 3
Ekki horfa á mig, drullusokkur! Lestu textann hér fyrir neðan.
Far Cry 3 er væntanlegt framhald af Far Cry 2 frá 2008. Far Cry leikirnir eru hvað helst þekktir fyrir gíííííífurlega stór landsvæði og opna spilunarmöguleika. Megin markmið leiksins er að flýja af eyjum (já, í fleirtölu!) og klikkaða eyskeggja sem þar búa.
Væntanlegur á árinu 2012 á PC, PS3 og Xbox 360.
#9 SYNDICATE
Þrátt fyrir að það sé visst svekkelsi að leikurinn sé FPS, þá lúkkar hann fáránlega vel!
Sænska leikjafyrirtækið Starbreeze Studios (Enclave, The Darkness) hefur fengið það verkefni að endurvekja Syndicate leikinn fyrir EA. Upprunalegi Syndicate leikurinn er frá Bullfrog Productions og er rauntímaleikur frá árinu 1993 þar sem spilarinn stjórnar fjórum sæborgum sem eru sendir til að leysa ýmis verkefni. Verkefnin eru af ýmsum stærðargráðum og eru allt frá því að ræna mikilvægum vísindamönnum og yfir í að myrða valda aðila. Spilarinn er með gott útsýni (bird’s-eye view) yfir borginni og stjórnar hvert sæborgarnir fara og hvað þeir gera.
Nýi Syndicate leikurinn, er fyrstu persónu skotleikur, og mun þar af leiðandi tækla gamlan leik frá nýju sjónarhorni. Það eru eflaust margir sem bíða spenntir eftir því að spila nýjan Syndicate leik, en um leið margir sem eru fyrir vonbrigðum að leiknum hafi verið breytt í fyrstu persónu skotleik. En það er þó óumdeilanlegt að stiklan fyrir leikinn er andskoti flott!
Væntanlegur 24. febrúar í Evrópu á PC, PS3 og Xbox 360.
#8 DIABLO III
Margir sem eru búnir að slefa lengi yfir þessum.
Liðin eru tæp 12 ár frá því að Diablo II kom út og loksins, loksins er þriðji leikurinn í seríunni að koma út. Í þessum fantasíu hlutverkaleik stjórnar spilarinn hetju sem fer á vit ævintýranna og slátrar djöflum, púkum og öðrum yfirnáttúrulegum verum.
Væntanlegur snemma árið 2012 í Evrópu á PC og Makka (og mögulega á leikjatölvurnar).
#7 MAX PAYNE 3
Max Payne 3 í boði Dan Houser.
Max Payne 3 er þriðju persónu skotleikur sem Rockstar Games gefur út. Ólíkt fyrri tveimur Max Payne leikjunum verður sá þriðji ekki framleiddur af finnska leikjafyrirtækinu Remedy Entertainment og ekki skrifaður af Sam Lake, höfundi seríunnar. Þetta eru vissulega vonbrigði þar sem fyrstu tveir leikirnir hafa þótt einstaklega vel heppnaðir, en örvæntið ekki, Dan Houser mun semja sögu leiksins en hann hefur meðal annars komið að gerð Grand Theft Auto leikjanna og Red Dead Redemption.
Væntanlegur í mars á PC, PS3 og Xbox 360.
#6 THE LAST GUARDIAN
Fyrst Ico, svo Shadow of the Colossus og nú The Last Guardian.
Við búumst við epískum leik frá Team Ico!
The Last Guardian eftir Team Ico mun eingöngu koma út fyrir PlayStation 3 leikjavélina. Leikurinn mun vera í svipuðum stíl og með svipuð þemu og Ico og Shadow of the Colossus, en það er þó ekki vitað hvort að saga leiksins muni tengjast þeim á nokkurn hátt. Þar sem Ico og Shadow of the Colossus voru epískir (vægast sagt!) að þá er ekki annað hægt en að hlakka til að sjá útkomuna á þessum.
Væntanlegur á árinu 2012 á PS3.
#5 MASS EFFECT 3
Vísindaskáldskaps- og hlutverkaleikurinn Mass Effect 3 verður þriðji Mass Effect leikurinn og mun hann vera síðasti kaflinn í sögu skipherrans Shepards. Það má búast við því að þriðji leikurinn verði enn öflugri en forverar hans – og þá er sko mikið sagt!
Væntanlegur 9. mars á PC, PS3 og Xbox 360.
#4 HALO 4
Halo leikirnir hafa náð gífurlegum vinsældum á Xbox 360.
Tökum vel á móti Master Chief! Fjórði Halo leikurinn er væntanlegur á þessu ári, eingöngu fyrir Xbox 360. Leikurinn markar upphaf nýs þríleik Halo seríunnar en Halo 4 mun ekki vera gerður af leikjafyrirtækinu Bungie líkt og áður, heldur af 343 Industries.
Væntanlegur í desember á Xbox 360.
#3 BIOSHOCK: INFINITE
Fyrstu persónu skotleikurinn BioShock: Infinite er þriðji leikurinn í BioShock seríunni en hann verður ekki beint framhald af fyrri leikjunum, en þemað verður þó svipað. Í BioShock: Infinite mun spilarinn stjórna fyrrverandi starfsmanni Pinkerton National Detective Agency árið 1912 sem reynir að bjarga konu að nafni Elizabeth, en hún er föst í skýjaborginni Columbia sem er við það að hrynja.
Væntanlegur á árinu 2012 á PC, PS3 og Xbox 360.
#2 GRAND THEFT AUTO V
Stiklan fyrir GTA V lítur fáránlega vel út!
Heilagar hamstratær! Nýr Grand Theft Auto leikur er væntanlegur frá leikjafyrirtækinu Rockstar!!! Leikurinn gerist í borginni Los Santos í San Andreas, sem er skálduð borg sem byggir á umhverfi og útliti Los Angeles, en Grand Theft Auto: San Andreas er líklega sá GTA leikur sem hvað flestir hafa fílað, og þess vegna má búast við stórleik! GTA serían hefur náð miklum vinsældum í gegnum árin, og á sama tíma verið afar umdeildur vegna grófs ofbeldis. Þessi leikur verður sandkassi fyrir fullorðna!
Væntanlegur (vonandi!) einhverntímann á árinu 2012.
#1 DUST 514
CCP fer ótroðnar slóðir í leikjaheiminum og stækkar sitt stafræna heimsveldi með tilkomu DUST 514.
Við eigum von á epískum stórleik frá íslenska leikjafyrirtækinu CCP! DUST 514 mun vera stærsti fjölspilunar fyrstu persónu skotleikurinn á markaðnum. Leikurinn flokkast sem MMOFPS (Massively Multiplayer First-person Shooter) og gerist í sama heimi og EVE Online. Leikirnir tveir munu tengjast og hafa áhrif í báðar áttir, þ.e.a.s. þegar eitthvað gerist í EVE Online getur það haft afleiðingar á atburði sem eiga sér stað í DUST 514, og öfugt. EVE heimurinn er gífurlega stór og verða mjög mörg bardagasvæði til að berjast á þar sem þeir eiga sér stað í heilum heimi á fjölda plánetna. Í dag spila um 350.000 manns víðsvegar um heiminn MMO (Massively Multiplayer Online) leikinn EVE Online.
Með tilkomu DUST 514 er CCP að taka stórt skref í tölvuleikjaiðnaðinum með því að láta leikina tvo vinna saman og hafa áhrif hvor á annan. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þróun mála en velgengni leiksins myndi klárlega hafa jákvæð áhrif á íslenska leikjaiðnaðinn og ryðja veginn fyrir sambærilegum hugmyndum um tengsl tölvuleikja.
Væntanlegur í sumar á PlayStation 3 (og mögulega PlayStation Vita).
Fleiri spennandi titlar fyrir 2012
Agent, Binary Domain, Borderlands 2, Darksiders II, Dota 2, Dragon Quest X, Final Fantasy XIII-2, Final Fantasy XIV 2.0, Guild Wars 2, Hitman: Absolution, Metal Gear Rising: Revengeance, Metal Gear Solid HD Collection, Metro: Last Light, Minecraft (Xbox útgáfan), NeverDead, Ninja Gaiden III, Prototype 2, Resident Evil 6, Sly Cooper: Thieves in Time, Soulcalibur V, SSX: Deadly Descents, Star Wars Kinect, StarCraft II: Heart of the Swarm, Street Fighter X Tekken, The Darkness II, Tom Clancy’s Ghost Recon: Future Soldier, Tomb Raider, Twisted Metal, Uncharted: Golden Abyss og World of Warcraft: Mists of Pandaria.
Einnig er möguleiki á að Fallout MMO og/eða Half-Life 2: Episode 3 komi út á þessu ári, en mikil óvissa hefur ríkt um hvort og hvenær þessir leikjatitlar muni koma út.
Þitt álit?
Ert þú spenntur fyrir einhverjum tölvuleik sem er ekki á þessum lista? Endilega bætið við athugasemdum og segið ykkar álit á listanum!
5 Responses to Topp 12 fyrir 2012 – Tölvuleikir