Birt þann 12. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins
1Önnur besta vísindaskáldsaga allra tíma!
Jóhann Þórsson fjallar um FIMM BESTU VÍSINDASKÁLDSÖGUR ALLRA TÍMA.
1984
1984 er ein af þeim bókum sem ég var skikkaður til að lesa í skóla; settir voru fyrir einn og einn kafli sem síðan voru ræddir í þaula. Þetta er yfirleitt frábær leið til að tryggja það að nemendur fyrirlíti viðkomandi bók og geti ekki heyrt á hana minnst án þess að fá kjánahroll upp í hvirfil. Það átti þó ekki við um 1984, sem mér var sett fyrir þegar ég var 14 ára. Þegar ég var búinn með tvo kafla var ég viss um að einhver mistök hefðu átt sér stað. Bókin sem ég var með í höndunum, sem kennari minn hafði sett mér fyrir, var um mann í framtíðinni, eða því sem var framtíð höfundarins. Söguhetjan bjó í London sem var öll grá og ömurleg, Stóri Bróðir fylgdist með fólki öllum stundum í gegnum sjónvarp sem ekki mátti slökkva á, fólk sem var ósammála ráðandi öflum „hvarf“ og var strokað út með öllu. Þú máttir ekki svo mikið sem hugsa gegn ríkisstjórninni því þá kom Hugsanalögreglan (Thought Police) og handtók þig.
Mér fannst þetta svo kúl að þetta gat ekki mögulega verið skólabók, einhversstaðar hlaut einhver að hafa gert skelfileg mistök. En svo var ekki.
London bókarinnar er hluti af Airstrip One, sem aftur er hluti af stórveldinu Oceania, sem telur Norður- og Suður-Ameríku, Bretland, Ástralíu og Suður-Afríku. Heimurinn er þrískiptur; hin stórveldin eru Eastasía og Eurasía. Í upphafi bókarinnar á Oceania í stríði við Eurasiu. Seinna breytist þetta og Oceania gerist bandamaður Eurasíu en á nú í stríði við Eastasíu. Þá er öllu breytt, dagblöðum, bókum, fréttum og svo framvegis, til að sýna að Oceania hafi alltaf verið í stríði við Eastasíu. Að halda öðru fram, eða rifja upp að stríðið hafi verið öðruvísi var hugsanaglæpur. Ef einhver vakti máls á þessu, hvarf hann og varð „unperson“.
1984 er ein af merkilegustu bókum tuttugustu aldarinnar, snilldarlega vel skrifuð og sterk pólitísk ádeila. Hún er gjarnan sett í flokk bók sem kallast „dystopian fiction“. Bækur af þessu tagi, eins og til dæmis Brave New World og The Handmaid’s Tale. Þarna er verið að fást við framtíðarsýnir þar sem fátækt, mengun, stríð og annað eru í forgrunni heimsmyndarinnar. Orðtakið „Stóri Bróðir er að fylgjast með“ kemur úr 1984. Slagorð Ríkisins eru líka mörgum kunn:
STRÍÐ ER FRIÐUR
FRELSI ER ÁNAUÐ
FÁFRÆÐI ER STYRKUR
Sem merki um það hversu áhrifamikil bókin er, er e.t.v. best að benda á að „Orwellian“ er nú notað sem lýsingarorð yfir það þegar ríkisstjórnir þykja teygja sig of langt í eftirliti með þegnum, eða fyrirhyggju. Það eru hlutir sem, eftir lestur bókarinnar, er erfitt að taka alvarlega. Ráðuneyti ríkisstjórnar Oceaníu sem fæst við stríðsrekstur heitir Ministry of Peace. Ekki ósvipað hinni Bandarísku Ministry of Defence (sem fæst nær eingöngu við stríð), eða hvað? Margoft hafa verið gerðar tilraunir til að fá hana bannaða eða ritskoðaða þar sem hún telst ógna „vitsmunum almennings“ (intellectually dangerous to the public).
Ég ætlaði að velja hluta bókarinnar til að vitna í, en endaði með svo mikið að nær væri að setja bókina hingað inn í heild sinni, slík eru gæðin. Það vill svo skemmtilega til að 1984 er snilldarlega þýdd, þannig að þeir sem eru feimnir við að lesa á ensku geta fengið hana á íslensku.
1984 er, einfaldlega, besta bók sem ég hef lesið. Hún er spennandi, heimurinn sem höfundurinn skapar er flottur, hugtökin sem hann býr til fylgja manni það sem eftir er (bókin skemmdi til dæmis alveg fyrir mér alla pólitíkusa) og hún reynir á heilann, eitthvað sem alltof fáar bækur gera.
Í upphafi bókarinnar er Winston Smith óbeint að brjóta lögin með því að eiga og skrifa í bók. Látum það sem hann skrifar vera lokaorðin:
To the future or to the past, to a time when thought is free, when men are different from one another and do not live alone – to a time when truth exists and what is done cannot be undone:From the age of uniformity, from the age of solitude, from the age of Big Brother, from the age of doublethink – greetings!
P.s. 1984 er besta bók sem ég hef lesið. En til er bók sem er betri vísindaskáldsaga…
One Response to Önnur besta vísindaskáldsaga allra tíma!
Skildu eftir svar
Þú verður að skrá þig inn til þess að rita athugasemd.
Pingback: Vísindaskáldskapur « Jóhann Þórsson