Fréttir

Birt þann 31. maí, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

0

Varað við lukkupökkum í tölvuleikjum

Neytendasamtökin fjalla um nýja skýrslu frá norsku neytendasamtökunum (Forbrukerrådet) sem var birt í dag. Meginefni skýrslunnar er gagnrýni á svokallaða lukkupakka (eða loot boxes) í tölvuleikjum sem að sögn sérfræðinga geta ýtt undir spilafíkn meðal tölvuleikjaspilara.

Lukkupakkar virka þannig að spilarar hafa aðgang að stafrænni verslun innan leiksins þar sem hægt er að kaupa lukkupakka fyrir raun- og/eða sýndarfé. Þessir lukkupakkar innihalda ýmiskonar aukahluti eða viðbætur fyrir leikinn en misjafnt er eftir leikjum hvaða aukahlutir eru á boðstólnum. Til dæmis bjóða sumir leikir upp á aukahluti sem geta styrkt spilarann í leiknum og gert hann sigurstrangari með keyptum uppfærslum, þegar slíkar viðbætur eru í boði er yfirleitt talað um að leikurinn bjóði upp á sigur gegn seðlum, eða pay to win. Aðrir leikir bjóða upp á aukahluti sem hafa engin bein áhrif á leikinn eins og til dæmis útlits uppfærslur, búninga eða sigurdansa.

Hvað er verið að kaupa?

Samtökin gagnrýna meðal annars að kaupendur fái ekki að sjá hvaða hluti lukkupakkinn inniheldur fyrr en kaupin hafa átt sér stað. Spilarinn fær þar af leiðandi ekki nákvæmar upplýsingar um hvaða hluti hann er að kaupa.

Samtökin gagnrýna meðal annars að kaupendur fái ekki að sjá hvaða hluti lukkupakkinn inniheldur fyrr en kaupin hafa átt sér stað. Spilarinn fær þar af leiðandi ekki nákvæmar upplýsingar um hvaða hluti hann er að kaupa. Ef markmiðið er að kaupa ákveðinn hlut sem er að finna í lukkupakka getur spilarinn endað á því að kaupa fjölda pakka og kostnaðurinn hlaupið á tugum og jafnvel hundruðum þúsunda króna. Aukahlutirnir í lukkupökkum eru yfirleitt flokkaðir eftir því hve algengir eða sjaldgæfir þeir eru og verða margir sjaldgæfir hlutir þar af leiðandi eftirsóknarverðir. Ef viðkomandi er á höttunum eftir sjaldgæfum hlut sem þykir mjög verðmætur í leiknum gæti kostnaðurinn orðið enn hærri. Til að bæta gráu ofan á svart beita mörg leikjafyrirtæki sem styðjast við lukkupakkamódelið ýmsum brögðum til að reyna að fá spilarann til að kaupa fleiri lukkupakka, til dæmis með því að auglýsa nýja og sjaldgæfa hluti sem eru aðeins fáanlegir í stuttan tíma og vekja þannig upp tilfinningar að spilarinn sé mögulega að missa af einhverju mikilvægu ef hann kaupir ekki pakkana. Einnig er sjálf pakkaopnunin oftar en ekki spennandi þar sem flugeldar, fagnaðarlæti og tónlist eru notuð til að ýta undir spennuna.

Mbabbé á 1,8 milljónir

Í skýrslunni er tekið sláandi dæmi úr FIFA 22 fótboltaleiknum frá tölvuleikjafyrirtækinu EA þar sem reiknaðar eru út líkurnar á því að spilari nái að fá ákveðið fótboltakort í lukkupakka og hvað hann þyrfti að borga til að verða öruggur með eintak. Spjaldið í dæmi er Mbappe TOTY spjaldið. Í skýrslunni er tekið fram að dæmið byggi á líkindareikningi en ómögulegt sé að segja til um hvaða aðferðir tölvuleikjafyrirtækin nota þar sem líkurna geta breyst á milli kaupenda þar sem sum fyrirtæki nota að líkindum persónuupplýsingar til að skilja kaupvenjur spilara betur sem getur haft áhrif á innihald pakkanna sem þeir kaupa. Reikniaðferðirnar eru ógagnsæjar og þar af leiðandi er ómögulegt fyrir kaupendur eða aðra að átta sig almennilega á vinningslíkunum. Í umræddu dæmi var mat Forbrukerrådet að spilarinn þyrfti að borga 13.500 evrur fyrir þetta tiltekna Mbabbé spjald, eða um 1,8 milljónir íslenskra króna.

Neytendasamtök í Evrópu hafa kallað eftir strangara regluverki í kringum lukkupakka og kaup á öðrum aukahlutum í tölvuleikjum til að tryggja neytendarétt.

Neytendasamtök í Evrópu hafa kallað eftir strangara regluverki í kringum lukkupakka og kaup á öðrum aukahlutum í tölvuleikjum til að tryggja neytendarétt. Þess ber að geta að sala á lukkupökkum og sýndarfés í tölvuleikjum skiluðu leikjafyrirtækjum yfir 15 milljörðum Bandaríkjadölum í hagnaði árið 2020 og hefur gróðinn vaxið hratt undanfarin ár.

Eftirfarandi tillögur eru lagðar fram til stjórnvalda, eftirlitsstofnanna og löggjafa sem neytendasamtök telja að þurfi að lagfæra. Eftirfarandi atriði eru tekin orðrétt úr færslu Neytendasamtakanna þar sem einnig er að finna ítarlegri umfjöllun um innihald skýrslunnar:

  • Tölvuleikjaframleiðendum verði bannað að nota blekkjandi hönnun sem villir um fyrir neytendum.
  • Öll sala á aukahlutum ætti að vera í raunverulegri mynt. Í öllu falli ætti alltaf að gefa upp raunverulegt andvirði samhliði andvirði sýndarfés.
  • Leikir sem höfða til barna ætti ekki að bjóða upp á lukkubox eða annað efni sem borga þarf sérstaklega fyrir.
  • Meira gagnsæi er nauðsynlegt og ættu eftirlitsstjórnvöld og rannsakendur að hafa aðgang að þeim gögnum og algrímum sem notuð eru. Þá ættu neytendur að vera upplýstir um það ef ákvarðanir í leiknum byggja á algríma og hafa þann möguleika að spila leiki án þeirra.
  • Eftirlit með tölvuleikjaiðnaðinum verður að vera öflugra. Eftirlitsstofnanir verða að hafa nægilega þekkingu og úrræði til að geta gripið til aðgerða til verndar neytendum.
  • Ef þau úrræði sem upp eru talin hér að ofan duga ekki til verður hreinlega að íhuga bann við lukkuboxum.

Heimildir: Neytendasamtökin og Forbrukerrådet
Mynd: Úr skýrslu Forbrukerrådet

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑