Birt þann 31. janúar, 2018 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson
Leikjarýni: Shadow of the Colossus – Frábær leikur öðlast nýtt líf
Samantekt: Vel heppnuð endurgerð sem nær að gera góðan leik enn betri. Klassískur leikur hefur öðlast nýtt líf.
4.5
Mjög góður!
Árið 2005 gaf Sony út Shadow of the Colossus á PlayStation 2 leikjatölvuna. Leikurinn var þróaður af japönsku leikjafyrirtækjunum SIE Japan Studio og Team Ico sem áður höfðu gert Ico (2001), leik sem náði ákveðnum költ vinsældum meðal spilara.
Shadow of the Colossus þykir einn af merkari leikjum tölvuleikjasögunnar og nýtur enn þann dag í dag vinsælda. Árið 2011 var leikurinn endurútgefinn með uppfærðri grafík í háskerpu (HD) fyrir PlayStation 3 leikjatölvuna og nú er komið að endurútgáfu leiksins. Árið 2018, 13 árum eftir útgáfu upprunalega leiksins, lítur endurgerð (remake) leiksins fyrir PlayStation 4 dagsins ljós. Þess má geta að bandaríska leikjafyrirtækið Bluepoint Games sá um endurútgáfu og endurgerð leiksins. Byrjum á því að fara almennt yfir leikinn og skoðum svo hvernig endurgerðin tókst til í seinni hluta leikjarýninnar.
Til að endurlífga Mono þarf Wander að ferðast um hið forboðna land í leit að 16 risum sem Wander þarf að drepa.
Spilarinn stjórnar ungum manni að nafni Wander sem gerir allt í sínu valdi til að bjarga Mono frá dauða. Spilaranum er hrint inn í miðja atburðarrás og fær í raun lítið að vita um baksögu persóna leiksins og veit til dæmis ekkert hvernig Mono og Wander tengjast. Við vitum þó að Wander er staddur í hinu forboðna landi og að dularfullur andi að nafni Dormin er sagður geta endurlífgað þá dauðu og sé tilbúinn að gera samning við Wander. Til að endurlífga Mono þarf Wander að ferðast um hið forboðna land í leit að 16 risum sem Wander þarf að drepa. Fátt fleira fær spilarinn að vita í upphafi leiks sem skilur söguna eftir í ákveðinni óvissu og bætir dulúð og spennu við söguþráð leiksins.
Shadow of the Colossus inniheldur stóran leikjaheim sem Wander getur frjálslega ferðast um á tveimur jafnfljótum eða á hestinum sínum Agro, sem fylgir honum hvert fótspor. Wander er vopnaður máttugu sverði sem vísar honum veginn að risunum 16 og þarf að ferðast milli ólíkra landsvæða í hinu forboðna landi til að finna þá og sigra. Í hinu forboðna landi er að finna fjölbreytt og fallegt landslag sem inniheldur meðal annars fagurgræna dali, eyðimörk, skóga, hella, rústir, fjalllendi, vötn, og votlendi.
Hápunktar leiksins eru klárlega bardagarnir við risana. Risarnir eru hver öðrum ólíkari, hver og einn með sín sérkenni og sína veiku bletti…
Risarnir eru einu óvinirnir í leiknum – sem gefur leiknum skemmtilegt sérkenni og gerir hann ólíkan mörgum öðrum. Á milli bardaga er fátt annað að gera en að njóta landslagsins áhyggjulaus og skoða sig um á leið sinni í næsta bardaga. Hápunktar leiksins eru klárlega bardagarnir við risana. Risarnir eru hver öðrum ólíkari, hver og einn með sín sérkenni og sína veiku bletti og er það hlutverk spilarans að finna þá. Þannig það má segja að hver risi sé í raun ákveðin þraut sem spilarinn þarf að leysa, sem getur stundum verið ákveðin þolinmæðisvinna. En að sjá risana falla niður eftir langa og hetjulega bardaga er hreint út sagt ótrúleg tilfinning. Þar sem risarnir eru einu óvinirnir í leiknum og hver bardagi tekur dágóða stund myndast ákveðin tengsl við risana og stangast verkefnið um að drepa þá stundum á við siðferðiskenndina. Það ert þú sem ræðst á þá að fyrra bragði. Þú leitar þá uppi. Þú vekur þá. Þú drepur þá.
Leikurinn býður upp á skemmtilegar andstæður; annars vegar erum við með fallega og hættulausa náttúru og hins vegar ógurlega risa sem vilja drepa þig. Þessar tvær andstæður ná vel saman og skapa áhugavert andrúmsloft í leiknum, einskonar lognið-á-undan-storminum-stemningu.
Shadow of the Colossus er ótrúlega fallegur og áhrifaríkur leikur. Þeir sem höfðu gaman af Ico eða The Last Guardian ættu klárlega að prófa þennan. Andrúmsloft leikjanna er á svipuðum nótum enda eru þeir allir komnir frá sama eða svipuðu teymi þar sem japanski leikjahönnuðurinn Fumito Ueda er í forrystu sem leikstjóri og yfirleikjahönnuður (lead designer) þessara þriggja leikja, en hann er þekktur fyrir sterkan höfundastíl.
Þó svo að tímarnir hafa breyst nær endurgerðin að lífga það vel upp á leikinn að hann á hiklaust erindi í nútímann.
Shadow of the Colossus endurgerðin er ótrúlega vel heppnuð og nær að gera góðan leik enn betri. Leikurinn er ekki ýkja langur í spilun en hægt er að spila leikinn í mismunandi erfiðleikastillingum og keppa við tímann. Við skulum þó ekki gleyma því að upprunalegi leikurinn þótti nýstárlegur og öðruvísi á sínum tíma þegar leikjaheimurinn var allt annar. Þó svo að tímarnir hafa breyst nær endurgerðin að lífga það vel upp á leikinn að hann á hiklaust erindi í nútímann.
Í myndbandinu hér fyrir notað er grafíkin í upprunalega Shadow of the Colossus borin saman við HD endurútgáfuna og svo endurgerðina 2018. Eins sést að leikurinn hefur gjörsamlega verið tekinn í gegn í endurgerðinni og grafíkin allt önnur en í upprunalega leiknum, en þó um leið er þess gætt að halda vel í upprunalegan stíl leiksins.
Shadow of the Colossus er alveg sér á báti og býður upp á ólíka upplifun en flestir aðrir leikir. Hann sker sig úr. Leikurinn kallar á þolinmæði í spilun og yfirvegaða nálgun.
Shadow of the Colossus er alveg sér á báti og býður upp á ólíka upplifun en flestir aðrir leikir. Hann sker sig úr. Leikurinn kallar á þolinmæði í spilun og yfirvegaða nálgun. Óvinir eru fáir og nálgun leiksins önnur en gengur og gerist. Ef þetta er eitthvað sem heillar þig og þig langar að prófa eitthvað annað en hasartuggu með miklu áreiti ættir þú klárlega að prófa þennan. Sömuleiðis er þetta leikur fyrir þá sem spiluðu eldri Shadow of the Colossus útgáfurnar og höfðu gaman af – þessi endurgerð mun ekki valda ykkur vonbrigðum.