Birt þann 31. janúar, 2018 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson
Hvernig læri ég ný spil? Sex ráð til þess að koma þér af stað
Það vefst stundum fyrir manni að læra ný spil. Sérstaklega ef maður er að stíga sín fyrstu skref í borðspilum. Manni langar strax að byrja spila nýja spilið sem maður var að fá í hendurnar en til þess að geta notið þess krefst smá undirbúnings. Mér langar að benda þér á nokkur gagnleg ráð sem ég nýti mér við að læra ný spil.
Fá einhvern til að kenna sér
Ef þú ert svo heppin(n) að þekkja einhvern sem þekkir spilið nú þegar þá er um að gera að bjóða þeim í heimsókn og fá hann til að kenna þér spilið. Maður lærir spil að sjálfsögðu best með því að spila þau og ef upp koma einhver vafaatriði er hægt að spyrja viðkomandi spurninga og vonandi hefur hann svörin á reiðum höndum. Fólk er þó misjafnlega fært í því að kenna spil rétt eins og reglubækur geta verið misvel skrifaðar.
Alla miðvikudaga eru opin spilakvöld í spilasal Nexus sem hefjast oftast í kringum sjöleytið. Hægt er að biðja um að fá lánuð spil úr verslun en langflestir mæta með sín eigin spil. Hér má finna Facebook-hóp tileinkuð þessum kvöldum.
Svo eru opin spilakvöld hjá Spilavinum annan hvern fimmtudag þar sem fólk getur mætt með sín eigin spil eða sest niður með öðrum og spilað. Þessir tveir vettvangar eru tilvaldir til þess að læra og uppgötva ný spil.
Horfa á kennslumyndband
Ég hef alltaf sagt við alla þá sem eru að versla nýtt spil að YouTube sé besti vinur þeirra í leit að regluútskýringum. Mig langar því að benda á nokkrar af mínum uppáhalds YouTube rásum sem einblína sérstaklega á reglu útskýringar.
- Watch it Played – Þessi rás er að mínu mati sú allra besta. Rodney Smith er með rúmlega 100 myndbönd þar sem hann fer yfir uppsetningu og reglur á fjölda spila.
- Gaming Rules – Paul Grogan hefur aðstoðað fjöldann allan af útgefendum við skrif á reglubókum svo hann á ekki í neinum vandræðum með að útskýra spil.
- Rules Girl – Hér á ferðinni ótrúlega stutt en hnitmiðuð myndbönd sem útskýra hin ýmsu spil, það besta er að þau er flest innan við 10mínútur.
Þetta eru mínar „go-to” rásir sem ég horfi á þegar ég læri ný spil. Ég byrja oftast á því að horfa á þessi myndbönd áður en ég les reglubókina vegna þess að ég á auðveldara með að tengja við hugtökin, táknin og leikmunina eftir að hafa séð þau í mynd.
Lesa reglubókina og stilla spilinu upp skv. leiðbeiningum
Að sjálfsögðu er svo nauðsynlegt að lesa reglubókina til að læra spilið almennilega. Ég byrja á því að stilla upp spilinu skv. leiðbeiningum. Tek alla stokka úr plastinu, poppa pappaspjöldin úr mótunum og sortera spilið eftir bestu getu. Svo les ég bara blaðsíðu eftir blaðsíðu, skoða leikmunina og leikborðið jafnóðum til að átta mig á hvar og hvernig hver aðgerð er framkvæmd.
Stundum þarf ég að lesa einstaka setningar eða kafla aftur yfir ef mér fannst ég ekki hafa meðtekið það sem ég var að lesa en þá skima ég frekar hratt yfir.
Spila 1-2 umferðir í tveggja manna leik
Eftir að ég er búinn að renna einu sinni í gegnum reglurnar þá stilli ég oft upp tveggja manna leik, eða einmennings ef spilið biður uppá slíkt, og spila hreinlega við sjálfan mig eða fæ kærustuna til að spila með mér. Það er oft best að byrja að læra spilið í tveggja manna leik til ná góðum tökum á því áður en þú ferð að kenna fleirum í einu. Ef þú reynir að kenna mörgum í einu án þess að vera með allt þitt á hreinu gætirðu átt von á spurningaflóði sem þú getur ekki svarað með fullri vissu, þarft að athuga í reglubókinni og með því ertu mögulega búinn að tapa athygli meðspilara þinna.
Leita að FAQ eða reglusamantekt á BGG
BGG eða Boardgamegeek er uppflettirit borðspilarans, svipað og IMDB fyrir kvikmyndir. Síðan er ekki sú fallegasta í viðmóti en efst er leitarstrengur þar þú getur slegið inn nafnið á spilinu sem þú ert að læra og þú færð lista af niðurstöðum. Smellir á spilið sem þú varst að leita að og þá endarðu á síðu sem inniheldur allar helstu upplýsingar um spilið.
Hér notast ég aðallega við Files flipann en oftar en ekki er einhver búinn að taka saman reglurnar og koma þeim fyrir á einni til tveimur A4 blaðsíðum. Oft má finna þarna regluleiðréttingar (e. Erratas) eða nánari útskýringar á reglum sem margir hafa spurt um, einnig þekkt sem FAQ. Til þess að geta náð í skjölin þurfa leikmenn þó að vera meðlimir að síðunni.
Undir Forums flipanum birtist lítill listi vinstra megin og þar má finna „Rules” eða reglur. Þarna er oft að finna tugi þráða um ýmis konar reglur sem fólki vantar svör við. Ef þú hefur nú þegar ekki fundið svar við einhverri reglu sem þú ert ekki alveg viss með þá er þetta staðurinn til þess að spyrja. Útgefendur og hönnuðir eru oft mjög virkir á þessum þráðum til að aðstoða og útskýra nánar það sem betur mátti fara í reglubókinni.
Kenna öðrum
Þegar þú hefur svo náð góðum tökum á spilinu þá er punkturinn yfir i-ið oftar en ekki að geta kennt öðrum spilið. Að geta útskýrt reglurnar á skýran og fljótlegan máta fyrir öðrum gefur þér innsýn hve vel þér hefur tekist upp með að læra spilið. Þeir sem þú kemur til með að kenna munu ábyggilega hafa einhverjar spurningar og þá er gott að hafa svörin á hreinu. Með fleiri spilurum eru meiri líkur á því að upp komi aðstæður þar sem þú ert ekki viss hvernig skal meðhöndla. Engan æsing, það er allt partur af lærdómnum, þú segist hreinlega flettir því upp í reglunum því líkur eru á að þú hafir gleymt einhverri smáreglu og finnir hana fljótlega enda búinn að lesa reglubókina. Nú ef það gengur ekki þá mæli ég með því að þið sem leikmenn gerið það sem ykkur finnst réttast í stöðunni og haldið áfram með spilið. Að spili loknu er hægt að fletta því upp og skoða betur hvernig best hefði verið að leysa úr þeirri reglu sem vafðist fyrir ykkur.
Að lokum vil ég benda á tvo Facebook-hópa; annars vegar Borðspilaspjallið en það er helsti umræðuvettvangur borðspila á Íslandi. Á mánudögum er reglulegur þráður þar sem fólk segir frá því hvað það hefur spilað undanfarna viku, sýnir myndir af spilasafninu sínu, talar um hlaðvörp tengd borðspilum sem það er að hlusta á og hvað svo sem því dettur í hug sem tengist borðspilum.
Hinn hópurinn er Borðspil Til sölu/skiptis – Hér má finna notuð borðspil sem fólk er að losa sig við. Hér er tilvalið tækifæri til að næla sér í nýtt spil á góðu verði án þess að borga fullt verð fyrir útúr búð.
Vonandi hafa þessi ráð gagnast þér og þú komir til með að nýta þér þau næst þegar þú færð nýtt spil í hendurnar.