Bækur og blöð

Birt þann 22. október, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ævintýri Tinna – Fyrsti hluti

Það styttist óðum í eina stærstu kvikmynd ársins The Adventures Of Tintin: The Secrets of the Unicorn. Ég ætla ekki að fjalla um myndina fyrr en rétt fyrir frumsýningu myndarinnar, en ég hef ákveðið að fara yfir bækurnar um hinn heitelskaða belgíska blaðamann sem flestir Evrópubúar kannast við úr æsku sinni (undirritaður þar með talinn). Ég vil samt sem áður benda ykkur á að spillar (spoilers) eru til staðar. Ég mun ekki fara mjög ítarlega í allar bækurnar- aðallega þær sem skiptu sköpum í sögu Tinna og Hergés.

 

Tinni Í Sovíetríkjunum

Tinni Í Sovíetríkjunum var fyrsta sagan af Tinna, en sú eina sem var ekki gefin út hérlendis fyrr en árið 2007, löngu eftir útgáfu hinna bókanna um Tinna. Hergé var 22 ára gamall þegar hann hóf að skrifa Tinna og hafði engan mikilvægan bakgrunn í list eða skrifum, en var þó ráðinn fyrir hluta belgíska-kaþólska fréttablaðsins Le Vingtième Siècle sem var ætlaður ungum lesendum. Hann sannaði hæfni sína fyrir starfið með ævintýri drenglega blaðamannsins í landi sovíeskra harðstjóra. Sagan var í gangi frá 10. janúar 1929 til 11. maí 1930 og var gefin út í bókaformi ári síðar í Belgíu.

Tinni er í þeirri sögu belgískur rannsóknarfréttamaður í Brussel sem er sendur til Sovíetríkjanna til að uppvísa unga lesendur um ástandið erlendis. Þó virðist sem blaðamenn eins og hann séu ekki velkomnir þar. Hann er hundeltur af bolsévikum og upplifir ýmis ævintýri eins og eltingaleik á hraðbátum, lestasprengingar og hættur í háloftunum. Í lokin tekst Tinna að flétta ofan af kúgun, prettum og áformum um hryðjuverk bolsévika og bjargar þar með Evrópu.

Það eru einungis þeir Tinni og trausti hundurinn hans Tobbi í þessu litla ævintýri. Persónuleiki Tinna er ýktari en hann er í seinni ævintýrum sínum en Hergé tekst vel að þróa hann út söguna. Við sjáum hann sýna mikla snilli og kænsku og er algjör skáti í sér. Tobbi þjónar hlutverki hjálparhellu Tinna og talar jafn mikið og Tinni (jafnvel með alveg eins talblöðrum), en engin skilur hann þó, því hann er.. tja, hundur. Tinni er þó ekki jafn indæll og hann virðist í fyrstu því hann tekur svo aldeilis í taumana og lætur hnefana tala þegar hann telur það réttast – Tinni er svo mikill harðjaxl að hann slæst jafnvel við sauðdrukkið bjarndýr. Hann er eins og harðsoðin blanda af prúðum skátadreng og harðsoðnum Macgyver í þessari bók. Það kemur á óvart hversu blóðugt ofbeldið endar stundum, sérstaklega fyrir barnabók.

 

Hergé sýnir mikla hæfileika sem höfundur og tekst jafnvel að spila með væntingar manns á súran máta (lykilorðið hér væri tígrisdýr). Þrátt fyrir að söguþráðurinn sé mjög þunnur tekst honum að vinna mikinn efnivið úr honum og færa okkur skemmtilega kynningu á Tinna út söguna. Hið sama er ekki hægt að segja um teikningar Hergé í fyrstu því þær gera mikið af byrjendamistökum og tekst illa að ná sjónarhorni og sviðsetningu rétt:

 

En hann þróast heilmikið sem teiknari á örstuttum tíma með sögunni eins og sést hér í einum af síðustu blaðsíðum bókarinnar:

 

Þetta er mjög góð kynning á Tinna og kemur á óvart hversu mikið tónn og persónur sögunnar eru líkar seinni ævintýrum blaðamannsins þrátt fyrir að hafa verið ýkta frumraunin hans og er auðveldara fyrir eldri aðdáendur Tinna að tengja sig við efnið en þá gæti grunað.  þetta er mjög fljótlesið ævintýri sem tekst að skemmta manni frá byrjun til enda og forðast mörg byrjendamistök varðandi upphafi persónu sem átti eftir að halda áfram lengi (slæm dæmi er hægt að finna í mörgum vefmyndasögum).

 

Tinni Í Kongó

Seinni bókin, Tinni Í Kongó, hefur ollið miklu fjaðrafoki í gegnum árin, og ekki af ástæðulausu. Efnið er meðhöndlað illa og með lítilli tillitsemi og málar mjög óviðeigandi myndir af því fólki og svæðum sem fram koma í bókinni. Hergé sjálfur skammaðist sín fyrir bókina og sagði hana vera barn síns tíma og mistök frá sínum yngri árum. Fyrir sakir smekkleika ætla ég ekki að birta teikningarnar af óviðeigandi stereótýpum úr sögunni. Sagan kom fyrst út árin 1929 og 1930 og var endurútgefin árið 1946 í lit og teiknuð á ný og voru hlutar af smekkleysinu lagfærðir, en ekki nógu vel.

Söguþráðurinn er ennþá þynnri í þessari bók þar sem Tinni er sendur til Kongó og lendir þar í manni sem hefur verið gefin sú skipun að þagga í unga blaðamanninum. Áform illmennisins eru ekki útskýrð fyrr en í lokin og erum við þá kynnt fyrir raunverulega höfuðpaurnum á bakvið plottið: Al Capone. Já, sá Al Capone vill Tinna feigan. Vá hvað þetta var skemmtilega fyndið… óvart.

Því miður er Tinni í Kongó ekki jafn spennandi og skemmtileg og forveri hennar og er það í fyrsta lagi vegna þess hversu óþægilegan þunga rasisminn leggur yfir söguna, í öðru lagi er það vegna þess að sagan er mjög stefnulaus meirihluta tímans. Sagan dregst á langinn mjög fljótt og býður ekki upp á sömu spennandi, kjánalegu ævintýrin og sú fyrsta.

 

Dýraofbeldið í sögunni er ekki sérlega heillandi heldur og málar Tinna sem hálfgerðan óþokka. Hann skýtur fimmtán antilópur þegar hann heldur að hann sé alltaf að hæfa þá sömu, hann drepur apa einungis til að geta klæðst honum sem dulargerfi og borar m.a. holu í nashyrning, stingur dínamítisrúllu í hana og sprengir hann í tætlur. Drengurinn kálar fáránlega mikið af dýrum í bókinni á marga sérkennilega vegu.
Hergé mældi ekki með þessari bók sinni og ég tek undir það.

 

Tinni í Ameríku

Nú erum við farin að bíta í seigara og bragðbetra kjöt. Tinni í Ameríku er vendipunktur sögubálksins þar sem tónn seríunnar hefur verið fundinn að mestu leyti, alvara bætist í leikinn og teikningarnar öðlast meira líf og nákvæmni. Það er engin smá léttir að fara úr Kongó yfir í þessa. Spennan úr fyrstu bókinni er til staðar á ný á jarðbundnari hátt og er betur farið með ákveðna þjóðernishópa en í Kongó. Tinni er einnig líkari sjálfum sér úr seinni bókunum hér en áður (og skringilega ódauðlegur miðað við hversu mikið hann lifir af).

Alvara færist í leikinn þar sem við hefjum söguna þaðan sem frá var horfið, þegar Al Capone (já, virkilega!) reynir að verða Tinna að bana þegar hann kemur til Chicago. Eftir að hafa slasast í einni tilrauninni hittir Tinni einn óvin Al Capones sem reynir að fá Tinna á sitt band. Honum tekst það ekki og gengur mest öll bókin út á eltingaleik milli hans og Tinna sem leiðir þá báða um Ameríku.

Mikið er um betrumbættar teikniaðferðir og hefur Hergé náð fullkomnu taki á umhverfinu hér (fyrir sinn stíl) – hvort sem það er náttúra Ameríku eða götur Chicago-borgar. Beiting ljóss og skugga gerir margar síðurnar eftirminnilegar og sjónarhorn Hergé á umhverfinu hafa þróast allsvakalega. Sumar teikningarnar eru einfaldlega gullfallegar og margar aðrar nýta spennuatriðin til fulls. Bætti stíllinn undirstrikar líka hætturnar mjög vel.

 

Efniviðurinn er betur unninn í þetta skipti og er sagan aðeins safaríkari en í fyrri ævintýrum blaðamannsins. Söguþráðurinn þjáist ennþá af stefnuleysi en er þó þróaðri þegar lengra er komið, ég vildi þó að hún væri hnitmiðaðri. Í þriðju bókinni sést einnig að Hergé er farinn að bæta rannsóknarvinnu sína (hafið það hugfast að hann hafði ekki ferðast út í heim fyrr en seinna á ævinni og lærði allt um umheiminn af því sem hann las og lærði af öðrum) og eru glæpagengi Chicago, þó klisjuleg, ógnandi fyrir söguhetjuna og starfsemi þeirra ekki ólík þeirri ímynd sem var ríkjandi á þeim tíma. Indjánarnir eru líka meðhöndlaðir með meiri virðingu en Kongó-búarnir- já, þeir eru blóðþyrstir en þó ekki alvitlausir villimenn og sést að Hergé hefur fundið til með því hvernig var svindlað á þeim þegar sýnt er hversu lítið þeir fá fyrir landið sitt þegar að olía finnst þar.

 

Vindlar Faraós

Fjórða bókin, Vindlar Faraós, endurtekur allt sem heppnaðist í Ameríku og magnar teikningarnar upp á aðeins hærra plan. Bakgrunnurinn er enn fínpússaðri en áður, persónurnar breytilegar og við kynnumst loksins Skafta og Skapta! Í sögunni eru þeir að eltast við Tinna þegar hann er ranglega ásakaður um eiturlyfjasmygl – hann hefur greinilega valdið nægum usla fyrir glæpamenn til þess að vinna sér inn enn eina lífshættuna. Við kynnumst einnig einu helsta illmenni í heimi Tinna: hinum kaldrifjaða Rassópúlos (sem er sýndur í næstu bók).

Því miður er þessi bók einnig barn síns tíma og sjást hinar ýmsu stereótýpur (já þær sömu og í Kongó skjóta upp kollinum) og þá sérstaklega miðausturlandabúarnir. Eins og hér er hægt að sjá… bíddu hægur! Er þetta bókin um tunglferð Tinna? Löngu fyrir tunglferðina? Þegar hann var bara nýbúinn að kynnast Skafta og Skapta?

 

 

Blái Lótusinn

Fimmta bókin markar mikilvægustu þróun Tinnabókanna og er einn áhrifamesti tímapuntkur í lífi Hergés sem höfundar. Það er nánast ómögulegt að undirstrika mikilvægi bókarinnar í heimi Tinna sem upp að þessum tímapunkti hafði endurspeglað viðhorf almennings Evrópu til umheimsins, en hafði nú tekist að bæta heimsmynd sína, innsæi, nákvæmni og smekk. Blái Lótusinn er verk sem hafði stórkostleg áhrif á líf Hergés sem myndu síðar verða til fjölmiðlaæðis í Belgíu á áttunda áratugnum (meira um það í seinni hlutum greinarinnar).

Í þetta sinn tengist bókin forvera sínum meira en fyrri sögur Tinna höfðu gert, og hefur Tinni heldur betur komið sér í krappann nú. Tinni neyðist til að ferðast til Sjanghæ þar sem hann er hundeltur á ný og lendir í pólitískri deilu milli Kínverja og Japana. Því lengra sem líður á söguna, því meira eykst hættan.

Sögulokin eru mjög sykursæt en í ljósi nýfundnar heimssýnar Hergés og nýju vináttu hans má segja að þetta sé við hæfi. Frá og með Bláa Lótusnum myndi Hergé leggja víðameiri rannsóknarvinnu í verk sín- þá sérstaklega varðandi staðina og menninguna sem Tinni átti leið um. Þegar Hergé hóf vinnuna að sögunni var hann beðinn um að fara með aðgátt gagnvart Kína til að mála ekki ranga mynd af Kínverjum og forðast það að móðga þá, hann félst á það og við ferlið kynntist hann Zhang Chongren. Þeir mynduðu sterka vináttu þegar Zhang kenndi Hergé um ástandið í Kína, kínverska list og sögu og tókst að víkka heimsýn Hergés heilmikið á sama tíma. Að því tilefni eftir að leiðir þeirra skyldu bætti Hergé persónunni Chang Chong-Chen í söguna sem þakkargjöf fyrir tímann með Zhang.

Sagan er þroskaðri en fyrri ævintýri Tinna og er eitt besta dæmið um það að Tinni og Chang Chong-Chen skiptast á stereótýpum sem þeir hafa heyrt um þjóðflokka hvors annars og hlægja síðan yfir þvælunni- þetta endurspeglar samskiptin milli Hérge og Zhangs. Hægt er að sjá asískan arkitektúr og hönnun, og raunveruleg vandamál milli þjóðfélaga í sambandi við heimsýn, tillit og pólitík. Sagan er einnig vandaðri og jarðbundnari, nú er söguþráðurinn ekki jafn tilviljunarkenndur og áður, og hefur betra samhengi.
Franska dagblaðið Le Monde tilnefndi Bláa Lótusinn sem átjándu bestu bók 20. aldarinnar.

>> Seinni hluti

– Axel Birgir Gústavsson

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑