Leikjanördabloggið

Birt þann 21. október, 2011 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

2

Óvæntur glaðningur í Góða Hirðirnum

LNBanner

Í gær lagði ég leið mína, eins og svo oft áður, í Góða Hirðirinn. Félagi minn hafði lýst yfir áhuga að koma með mér eftir að ég sagði honum að stundum væri hægt að finna ágætis borðspil þarna í misgóðu ástandi, þannig að ég sótti hann og við rúntuðum upp í Fellsmúla. Eins og ég hef sagt áður í annari færslu fer ég aldrei í Góða Hirðirinn með neinar væntingar, enda hef ég hingað til aldrei fundið neitt markvert þar. Spennan við að finna mögulega eitthvað skemmtilegt og upplifunin af því að skoða gamalt drasl er venjulega nægileg fyrir mig. Eins og venjulega strunsaði ég beint í miðlunardeildina, sem var að venju yfirfull af gömlum vinylplötum og geisladiskum. Nokkrir PC tölvuleikir höfðu bæst í tölvuleikjakassann, og aldrei þessu vant ekki svo slæmir leikir, en þarna var meðal annars Alpha Centauri og nýjasti Alone in the Dark leikurinn. Eftir að hafa gramsað aðeins í kassanum hálf áhugalaus rak ég samt augun í eitthvað sem er ekki venjulega að finna í kassanum. Þetta var gamall, þýskur, skákleikur fyrir Sinclair Spectrum!

Er það bara ég eða hefur myndin á kassanum nasískan boðskap?

 

Sinclair Spectrum tölvurnar voru framleiddar í Bretlandi árið 1982, en þær höfðu svipaða tölvunargetu og NES tölvurnar og falla því undir 8-bit tölvur. Mér skilst að tölvurnar hafi aðallega verið markaðsettar sem heimilistölvur, en eins og með allar tölvur voru framleiddir leikir fyrir þær til að auka sölu á vélunum. En alla veganna, snúum okkur aftur að ferðinni í Góða Hirðirinn. Þarna var ég sem sagt, haldandi á fyrsta áhugaverða hlutnum sem ég hafði uppgvötað í Góða Hirðirnum frá upphafi. Ég opnaði kassann og viti menn, það var aðeins ein af tveimur kassettum í boxinu. Umrædd kassetta var hvít á litinn, en þá sagði félagi minn að það væri sennilega lítið varið í þennan leik því svörtu kassettuna vantaði og á henni væru eflaust svörtu taflmennirnir. Yngri lesendur gætu verið smá áttavilltir þegar hér kemur við sögu, enda ekki allir sem muna eftir þeim tímum þegar leikir voru ekki einungis á geisladiskum eða niðurhalað beint af netinu. Í gamla daga (í byrjun áttunda áratugarins) voru tölvugögn mest megnis á gagnakassettum (og floppy diskum, en tölum um það síðar). Þessar kassettur eru nákvæmlega eins og tónlistarkassettur (ef þú veist ekki hvað það er þá ættiru kannski að vera að lesa eitthvað annað blogg), nema að gagnakassettur geymdu tölvugögn, til dæmis tölvuleiki, og gat hvor hlið haldið um það bil 660 kílóbæt. Tölvur á borð við Amstrad, Amiga, Commodore 64 og Sinclair Spectrum notuðust við svona kassettur. Gallinn við gagnakassettur er að sjálfsögðu sá að til að komast í gögnin þarf tölvan að spóla kassettunni fram og aftur (og stundum þurfti að snúa henni við) til að komast í gögnin. Þetta gat tekið óralangan tíma, enda var ekki óvenjulegt að það gæti tekið fjölmargar mínutur að hlaða upp einn leik.

Ef tæknin hefði ekki orðið betri myndi taka níu mánuði að setja upp Windows 7 á nýja tölvu

 

En ok, förum aftur (aftur) í Góða Hirðirinn. Ég ákvað þrátt fyrir að leikurinn væri ekki heill að hirða hann, enda kostaði hann ekki nema 50kr og í minnsta lagi myndi hann gefa mér ástæðu til að skrifa eina bloggfærslu. Síðan lá leið okkar í bókadeildina, þaðan í leikfangadeildina og að lokum í raftækjadeildina. Raftækjadeildin er venjulega full af gömlum vöfflujárnum, hraðsuðukötlum, prenturum og örbylgjuofnum, en í gær var hún að mestu leiti tóm. En þá sá ég, í miðri annars tómri hillunni, Playstation 1 tölvu! Ég hugsaði; „Vá! Fyrst gamall leikur og svo gömul tölva, þetta er greinilega happadagurinn minn„. Tölvan var reyndar án fjarstýringa og straumbreytis, þannig að það er í raun engin leið til að sjá hvort hún virkar eða ekki. En hún var bara á 500kr þannig ég sló til, það er ekki á hverjum degi sem ég finn EITTHVAÐ í Góða Hirðirnum. En þá kallaði félagi minn á mig og benti á hillu nálægt raftækjadeildinni. „Er þetta eitthvað sem þú hefur áhuga á?„, spurði hann. Ég leit í hillunna og missti andlitið af spenningi.

"Ég er svo spenntur!"

 

Í hillunni var hrúga af tölvuleikjum, og ég meina HRÚGA. Þetta voru ekki ömurlegir PC leikir með Stafaköllunum eða „finndu 5 villur á þessari mynd“ smábarnaleikir. Þetta voru Sega Mega Drive leikir og fullt, fullt, fullt af leikjum fyrir Sinclair Spectrum! Ég fann að það varð skammhlaup í heilanum á mér, ég hafði aldrei fundið neitt þessu líkt áður, hvað þá í þessu magni. Tvær hugsanir fóru af stað í heilanum á mér í kjölfarið:

Hugsun #1:Kiddó, þú átt kannski Sega Mega Drive tölvu, en þú safnar ekkert leikjum fyrir hana. Hvað þá Sinclair Spectrum? Þetta er úrelt drasl! Haltu þig við Famicom og NES, það er alveg nóg.

Hugsun #2:GRÍPTU ÞETTA ALLT ÁÐUR EN EINHVER ANNAR KEMUR!!!

Þar sem seinni hugsunin var greinilega hugsuð með Caps-Lock á og þrem upphrópunarmerkjum, tók ég mark á henni. Ég hljóp og náði í innkaupakörfu, snéri við, og sópaði öllu draslinu ofan í körfuna. Á sama tíma var annar strákur þarna að skoða leikina, en þegar hann sá morðglampann í augunum á mér lagði hann þá frá sér og fór að skoða sófadeildina. Ég labbaði síðan að afgreiðsluborðinu, ennþá undir áhrifum tölvuleikjaæðisins, borgaði fyrir allt draslið og fór út í bíl. Þegar þangað var komið útskýrði ég fyrir félaga mínum að ég væri náttúrulega veikur á geði, sem hann samþykkti skýlaust.

Þegar ég kom heim seinna um kvöldið fór ég að skoða draslið sem ég hafði keypt. Fyrst voru það Playstation TÖLVURNAR, því ég hafði greinilega fundið aðra Playstation tölvu í kaupæðinu og skellt henni í innkaupakörfuna. Hvorug tölvan er með straumbreyti eða fjarstýringum, þannig að ég veit ekkert hvort þær virka eða ekki. En sitthvor tölvan kostaði mig ekki nema 500kr þannig að þetta er svo sem ekki stór missir ef þær reynast vera bilaðar.

Önnur er þakin rauðum blettum, vonandi drap ég engan með henni

 

Svo voru það Mega Drive leikirnir. Þetta voru sex hylki, þar af eitt ennþá í upphaflega plastkassanum. Fimm af þessum leikjum eru íþróttaleikir, sem ég hef venjulega ekki gaman af, en ég skrifa þetta allt á kaupæðið. Eitt hylkið virðist vera með þrem leikjum á, fótboltaleik, mótorhjólaleik og tetrisklóninum Columns. Þarf að skoða þetta betur þegar ég er búinn að redda mér straumbreyti fyrir gömlu Sega tölvuna mína. Hver leikur kostaði 350kr.

Takk ókunnugi maður sem henti þessum leikjum

 

Og seinast en ekki síst, þá er það hrúgan af Sinclair Spectrum leikjunum. Þessi leikir eru algerir demantar. Myndirnar utan á kössunum eru svo frábærlega gamaldags en á sama tíma svo miklu meira töff en það sem er utan á leikjum í dag. Ég þarf pottþétt að skrifa nokkrar bloggfærslur um þessa leiki á komandi vikum. Þetta eru í kringum 40 leikir, en þarna eru skotleikir, íþróttaleikir, ævintýraleikir, bílaleikir, stríðsleikir og allt þar á milli. Þar fyrir utan eru líka tvö forrit þarna, eitt til grafískrar úrvinnslu (sem ég hugsa að sé orðið vel úrelt) og annað sem er ætlað til að kenna fólki að nota Sinclair Spectrum tölvuna. Hvert leikjabox var á 50kr stykkið, þannig að í heildina kostuðu þessir leikir mig 1100kr.

Það eina sem ég þarf núna er 30 ára gömul tölva og endalausa þolinmæði

 

Allt í allt, er ég hæstánægður með þessi kaup. Það er reyndar rétt að ég get ekki notað neinn af hlutunum sem ég keypti í gær, en ég hugsa að einn góðan veðurdag eigi ég eftir að ramba á alla þá hluti sem ég þarf til þess prufa þessa gimsteina, og þá hluti á ég eflaust eftir að finna í Góða Hirðirnum.

Takk fyrir lesturinn!

 

(Þessi færsla birtis upphaflega á gamla Leikjanördablogginu 11. október 2011, og er seinasta færslan sem var skrifuð þar. Búist við nýjum ferskum færslum í næstu viku. – Leikjanördið)

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



2 Responses to Óvæntur glaðningur í Góða Hirðirnum

Skildu eftir svar

Efst upp ↑