Birt þann 20. nóvember, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Fræðilegar myndasögur
Eftirfarandi grein er unnin upp úr fyrirlestri sem ég hélt í Háskóla Íslands fyrr í mánuðinum. Efnið var fræðilegar myndasögur og hvernig hægt er að nýta þær til að kenna og miðla upplýsingum. Efnið kom að miklu leyti frá Scott McCloud og bók hans Understanding Comics. Ef efnið vekur áhuga hvet ég eindregið til að næla sér í eitt eintak af bókinni. Þetta er biblía þeirra sem vilja gera myndasögur.
Það er oft viðkvæði þeirra sem lesa myndasögur að staðaldri að kvarta undan stöðu miðilsins í nútímasamfélagi. Myndasögur eru því miður oft ekki teknar mjög alvarlega og oft litið svo á að þær séu aðeins ætlaðar börnum og myndasögunjörðum. Ímynd myndasögunjarðarins hefur kannski batnað eitthvað síðustu ár en myndasögumiðillinn sjálfur á enn við sjálfsmyndarvandamál að stríða og það hefur reynst erfitt að fá fólk til að taka hann alvarlega. Lykillinn að mínu mati er að nota hann til fleiri verka en að segja sögur. Myndasögur eru fjölhæfari en svo að þær skuli vera niðurnjörvaðar við frásagnarlistina.
Það er hægt að nota þær til að kenna og og útskýra hluti í stuttu máli sem annars tæki fleiri blaðsíður. Það eru til myndasögur sem kenna fólki að reikna, að lesa tölfræði eða skilja eðlisfræði. Myndasögur hafa til dæmis verið notaðar til að segja mannkynnsöguna, það er víst hægt að fá manga sem gerir fjórðungsskýrslu fyrir fyrirtæki og þannig má lengi telja. Myndasögur hafa ýmsa krafta sem gera þeim þetta kleift og ég mun fjalla um tvo þeirra en ég vona að þessi umræða opni lesendur fyrir möguleikum og eiginleikum myndasögunnar.
Fyrst um sinn vil ég tala um „einfaldar teikningar“ eða „cartoon“ eins og þær eru kallaðar á engilsaxnesku. Því einfaldari sem teikningarnar eru, því auðveldara er að samsama sig þeim. Því raunverulegri sem myndirnar eru því niðurnjörvaðri eru þær. Og eftir því sem þær eru einfaldari geta þær þýtt meira!
Þetta er mikilvægt að vita og muna ef við ætlum til dæmis að skrifa myndasögu um sögulegan atburð eða fræga persónu. Í sínu kröftugasta formi gefur myndasagan þér persónuna og segir við þig: hérna er manneskja. Síðan gefur hún þér upplýsingar bæði með myndmáli og texta og lætur þig um að fylla uppí eyðurnar.
Þetta er ástæðan fyrir því að börn eiga svo auðvelt með að lesa myndasögur, af því að þau skilja strax hvort einhver er reiður eða glaður,útí hvern og af hverju jafnvel. Lesskilningur blandast þarna útí líka en málið er að þegar við erum lítil tengjumst við betur gargandi önd en persónu í skáldsögu af því að hún er bara texti.
Í mannkynssögu þýðir þetta að við sýnum þeim sögufrægar persónur sem mannfólk. Ekki málverk. Manneskjur sem gerðu hluti af ástæðum og áttu sér stað í heimi sem er okkur framandi. Í öðrum fræðum getur þetta þýtt að hægt er að sýna hvernig viðskiptavinur gengur í gegnum ákveðið ferli, eða hugmynd eða hvað það er sem verið er að ræða um. Og það hefur verið sýnt fram á í fræðilegu samhengi að þetta er hægt, að myndsagan sé áhrifamikil og að það sé engin ástæða til að takmarka hana.
Hinn krafturinn sem myndasögur hafa er það sem kallað er „the gutter“.
Sjáið þessar tvær myndir. Hvað er að gerast á þeim? rétta svarið er ekkert. Þetta eru myndir fastar í tíma og rúmi. Við sjáum bara það sem við sjáum. Við vitum ekkert meira. Allt sem þið haldið að sé að gerast þarna á milli er tilbúningur ykkar.
Hvað sjáum við í raun? Við sjáum ekki mann lyfta hatti af höfði sínu. Við sjáum tvær teikningar og við kjósum að sjá þær sem tengdar. Við sjáum rökræna tengingu á milli manns með hatt og manns sem hefur tekið hattinn af höfðinu. Við sjáum ekki hreyfinguna, við sjáum ekki hraðann, við sjáum ekki hvernig hann tók hattinn af. En við búum atriðið til, sjálfkrafa. Hugur okkar lítur á þessar tvær myndir og kýs að tengja þær og fylla inn í eyðurnar.
Það sem þetta þýðir er að í myndasögu ert þú sem lesandi virkur í að framkvæma hlutina á hátt sem er ekki til staðar í bíómyndum eða texta. Af því að þú tengir og framkvæmir það sem listamaðurinn gefur þér. Myndasagan virkir lesandann, fær hann til að mynda hugrenningartengsl sem hefðu ekki komið fram annars. Þess vegna þarf minna af texta til að koma upplýsingum á framfæri, því myndræn túlkun uppfyllir það hlutverk, oft án þess að lesandinn átti sig á því. Lesandinn tengir saman hluti sem hann telur sig vita og metur og tengir hvern ramma fyrir sig á örskotsstund. Myndasagan gerir okkur kleift að setja saman atburðarrás sem væri erfitt eða ómögulegt að endurtaka á skiljanlegan máta í öðruvísi miðli. Af því að myndasagan sem form lætur okkur mynda skoðun á persónum og gerir okkur að þátttakendum í frásögninni sjálfri.
Forsíða: Understanding Comics eftir Scott McCloud
Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.