Leikjarýni

Birt þann 19. nóvember, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Borderlands: The Pre-Sequel

Ástæða heitis nýjasta leiksins í Borderlands seríunni er að hann kemur út eftir Borderlands 2 en atburðirnir í honum eru á undan. Borderlands 2 var (og er) mjög góður leikur en það var greinileg lögð áhersla á að tveir eða fleiri spiluðu. Það ásamt því að maður gat auðveldlega villst og það tók stundum mikinn tíma að komast á milli staða olli því að ég hætti fljótlega að spila hann á sínum tíma (og reyndar fór ég aftur að spila fyrsta leikinn og náði loks platínum þar). Þess vegna kom Borderlands: The Pre-Sequel (PS3) undirrituðum verulega á óvart þar sem allar líkur voru á að þetta væri eins og stór viðbót við Borderlands 2. Í staðinn hafa þeir gert leik sem stendur einn og sér ásamt því að vera straumlínulagaðri og aðgengilegri.

Jangling Jack

Borderlands: The Pre-Sequel gerist á tunglinu og fjallar um atburði sem leiddu til þess að Handsome Jack varð það illmenni sem hann er í Borderlands 2. Núna er hann almennur millistjórnandi í Hyperion stórfyrirtækinu sem er að reyna stöðva Colonel Zarpedon frá því að gjöreyða tungli Pandoru með risastórum leysigeisla af einhverjum óljósum ástæðum. Með í för eru gamalkunn andlit úr fyrri leikjunum og af þeim er hægt að spila fjóra eins og t.d. Athenu sem kom fyrir í viðbótinni „The Secret Armory of General Knoxx“ úr fyrsta leiknum.

Eftirtektarverðast er samt að nú er hægt að spila sem Claptrap vélmennið vinsæla og hann skín því að karakterinn sem maður velur hefur heilmikið að segja í gegnum leikinn. Sjálfur spilaði ég allan leikinn sem Nisha the Lawbringer sem er byssusérfræðingur og hennar sérhæfileiki er að hægja á tímanum í örfáar sekúndur og geta miðað fullkomlega þ.e.a.s. miðið hoppar frá einum andstæðingi til annars. Claptrap hins vegar virkar skemmtilegur því að hans sérhæfileikar eru algerlega tilviljunarkenndir og hann nýtur sín best í hópi með öðrum spilurum.

BL_PS_01

Moonraker

Leikurinn byrjar eins og James Bond mynd með miklum hasar og látum en stendur sig líka vel í að kenna byrjendum grundvallaratriðin ásamt nýjungunum. Það að ferðast um heiminn hefur alltaf verið helsta vandamál seríunnar. Tilraun 2K Australia og Gearbox til að laga það, er að nota þyngdarleysi tunglsins og hoppa um (og hægt að er að gera árás úr lofti sem er að sjálfsögðu kallað „Buttslam“ í anda leikjanna).

Eins og áður eru líka farartæki og „instant travel“ tæki áfram til staðar og ein viðbót er Stingray farartækið sem svífur á yfirborði tunglsins. Þetta tekst að hluta til; það er skemmtilegra að ferðast um núna en tunglstökkin mættu vera aðeins hraðari.

BL_PS_02

„Nei, þetta er kuti

BL:TPS er hannað af 2K Australia (með smá hjálp frá Gearbox) og það heyrist því að margar raddirnar eru með áströlskum hreim sem skemmir sannarlega ekki fyrir. Ég hef samt ekki enn rekist á Crocodile Dundee brandara og er það synd.

Dameon Clarke talar fyrir Handsome Jack sem er í aðalhlutverki hér og stendur sig frábærlega sem og aðrir raddleikarar. Sagan sjálf er ekkert meistaraverk en það er nóg af sjónrænu sælgæti til að halda áhuganum. Aðrir nýjir hlutir eru stökkpallar, leysigeislavopn, það að geta fryst óvini og svokallað „Grinder” tæki sem er matað með þremur vopnum til að reyna fá vopn í betri gæðum. Þetta er sniðugt tæki og hægt er að fá appelsínugulan hlut (legendary) fyrir 3 fjólubláa (epic) ef maður er heppinn.

BL_PS_03

„We need more guns

Varðandi vopnin þá hefur maður í gegnum leikinn aðgang að mjög góðum vopnum og það virðist vera auðveldara að fá góð vopn en í Borderlands 2. Reyndar er BL:TPS auðveldari á flestan hátt sem gerir spilara eins og mig ánægðan (þ.e.a.s. einhver sem lítur á Borderlands sem afþreyingu en ekki áskorun) en harðkjarna spilurum finnst hann kannski of auðveldur. Það var bara rétt í lokin sem ég þurfti að gera einhver aukaverkefni til að styrkja karakterinn. Það er þó hægt að spila hann aftur og á erfiðari stillingu (True Vault Hunter Mode eins og í BL2).

BL:TPS er fínasta afþreying og þrátt fyrir að vera mjög líkur Borderlands 2 er búið að fínpússa spilunina ásamt öðru aðeins betur. Hann er aðeins styttri og þó ekki svo mikið; sagan tekur ca 25 tíma en sagan í BL2 um 30 (en um 50 með öllum viðbótum). Það er oft gott að vera þolinmóður þegar kemur að svona leikjum þar sem viðbætur hrúgast á þá sem hægt er að kaupa ásamt leiknum seinna. Þeir sem geta ekki beðið verða samt ekki sviknir.

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑