Myndasögur

Birt þann 15. júní, 2016 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

Vísindi hafa skorið úr um hver er öflugasta ofurhetjan

Nemendur við háskólann í Leicester hafa nú með vísindalegum rannsóknum skorið úr um hvaða ofurhetja er öflugust. Nemarnir komust að niðurstöðum sínum með því að velja tólf þekktar ofurhetjur og vega og meta kosti og galla krafta þeirra með vísindalegum útreikningum og rökstuðningi.

Það kemur e.t.v. ekki á óvart en ofurmennið sjálft, Superman, er langöflugasta ofurhetjan samkvæmt rannsókninni með sjö öfluga ofurkrafta gegn aðeins einum galla (veikleiki gegn kryptóníti). Annað sæti vermir Marvel hetjan og X-mennið Wolverine með 4 öfluga ofurkrafta og einn veikleika, en þriðja sætið hreppir þrumuguðinn Þór með 3 öfluga ofurkrafta og engan teljanlegan veikleika. Black Bolt er sú ofurvera sem nemendurnir telja að sé með mesta gereyðingarmáttinn og vermir sjötta sæti, á meðan Batman sjálfur hvílir í tólfta og neðsta sætinu með enga teljanlega ofurkrafta og tvo veikleika.

superhero league table

Nú geta því nördar um allan heim hætt að rífast um hvort ofurhetja A eða ofurhetja B myndu vinna í slag. Eða hvað? Rannsóknin tekur auðvitað aðeins tillit til 12 ofurhetja sem blandast ójafnt, og eingöngu, á milli DC og MARVEL heimanna. Einnig er óhætt að segja að hörð vísindi eiga ekki alltaf upp á pallborð þegar kemur að teiknimyndahetjum með yfirnáttúrulega krafta sem eru þar fyrir utan misöflugir eftir því í hvaða sögu þeir koma fyrir. Rannsóknin er því ekki nálægt því að vera tæmandi, en er vafalaust fyrst og fremst til gamans gerð.

Getum við ekki líka öll verið sammála um að Batman eigi klárlega fyrsta sætið á þessum lista?

Rannsóknina í heild sinni er hægt að nálgast HÉR.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑