Birt þann 4. nóvember, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: TPB AFK: The Pirate Bay Away From Keyboard (2013) [RIFF]
Myndin er einstakt tækifæri til að kíkja á bakvið tjöldin í umdeildu dómsmáli vegna höfundarréttarbrota gegn stofnendum deilisíðunnar Sjóræningjaflóans. Þegar hakkara-undrabarnið Gottfrid, vef-aktívistinn Peter og tölvunördið Fredrik eru fundnir sekir standa þeir frammi fyrir raunveruleika lífsins án netsambands – fjarri lyklaborðinu. En djúpt niðri í myrkviðum gagnaveranna leynast tölvur sem halda hljóðlega áfram að afrita skrár. (RIFF)
TPD AFK fylgir þremur stofnendum hinnar víðfrægu síðu The Pirate Bay eftir dagana kringum fyrirtöku máls sænska ríkissins og bandarískra kvikmynda- og tölvuleikjarisa gegn þeim á tveimur dómsstigum. Þremenningarnir Fredrik Neij, Gottfrid Svartholm og Peter Sunde, ásamt fjórða manni sem var fjárhagslegur stuðningsaðili, voru ákærðir fyrir að veita aðstoð við að gera höfundarréttarvarið efni aðgengilegt almenningi og græða á því. Upphaflega voru þeir kæruliðirnir fleiri en voru þeir felldir niður. Myndin er sögð frá sjónarhorni þremenninganna, raunar aðallega tveggja þeirra þar sem einn, Gottfrid, átti greinilega við nokkur persónuleg vandamál að stríða og kom því ekki jafn mikið að myndinni. Þremenningarnir eru gjörólíkir persónuleikar sem virðast eiga fátt sameiginlegt annað en Sjóræningjaflóann. Fredrik er, samkvæmt félaga hans Peter, alkahólisti og rasisti og segir sjálfur að aðkoma hans að síðunni hafi ekkert með pólitík, aktívisma eða vilja til höfundaréttarlöggjafabreytinga að gera heldur hafi hann bara viljað leika sér með flottar græjur. Peter, sem er talsmaður hópsins, er vinstrisinnaður aktívisti sem vill sjá breytingar á heiminum á meðan Gottfrid er snillingur hópsins en sóar snilligáfum sínum í óheilbrigt líferni.
Myndin er mjög góð, persónulegt sjónarhorn hennar var áhugavert og það var gaman að sjá mennina að baki síðunni. Oft hafði maður heyrt talað um þetta mál en fréttaflutningur af því gekk, skiljanlega kannski, alltaf út frá þeirri forsendu að þetta væru bara einhverjir aumir glæpamenn. Það voru fyrir mig örlítil vonbrigði að sjá að í raun var aðeins einn af þessum mönnum, Peter Sunde, í þessum bardaga fyrir höfundarréttarbaráttuhugsjónina en að sama skapi áhugavert – hvað fær menn til að standa í þessu, af hverju lokuðu þeir ekki bara síðunni þegar þeir voru beðnir um það, í hið minnsta áður en þeir voru kærðir? Af hverju leggur maður eins og Fredrik Neij, sem að eigin sögn var bara að þessu fyrir græjurnar, sig í raunverulega hættu við að fá á sig fangelsisdóm og háar skaðabótakröfur?
Það gerir manneskju eins og mér einnig nokkuð gramt í geði að fylgjast með þessu dómsmáli. Ég tala persónulega fyrir breytingu á höfundarréttarlöggjöfinni. Að mínu mati er hún orðin allt of stórt bákn sem verndar of mikið millimanninn, fyrirtækin, á meðan listamaðurinn sjálfur situr eftir í rykinu. Og ég er ekki ein um þá skoðun, til að mynda má benda á að Kristín Atladóttir, doktorsnemi í hagfræði, hefur rannsakað höfundarréttinn og fjallað um málefnið m.a. í erindi á Hugvísindaþingi árið 2012 þar sem heil málstofa, Höfundarréttur er að þenjast út eins og alheimurinn: Höfundarlög í þverfaglegu ljósi, var tileinkuð umfjöllunarefninu. Viðtöl við Kristínu, sem ég bendi áhugasömum á að hlusta á, má finna á heimasíðum RÚV og Vísis og má hlekki nálgast hér að neðan.
Ég á bágt með að skilja að þessir risar í skemmtanaiðnaðinum geti ekki horfst í augu við nútímann. Þessi tækni er komin til að vera, hún er ekki framtíðin, hún er nútíminn. En í stað þess fara þeir í mál eftir mál. Og þeir sem reka síðurnar eru í augljósum vanda þar sem þeir sem ásaka og þeir sem dæma skilja ekki tæknina. Til að mynda voru 4 auglýsingar á The Pirate Bay á einhverjum tíma en saksóknari sænska ríkisins sagði þær vera 64 þar sem hann í tæknifávisku sinni taldi auglýsingarnar á hverri undirsíðu sem eina auglýsingu. Þannig var gróði The Pirate Bay á auglýsingasölu stórlega ýktur. Hvernig á að berjast þegar kerfið skilur ekki grundvallarhluti eins og þetta? Og hvernig á að berjast við kerfi sem á endalaust magn af peningum til að halda fólki í dómstólum? Nýlega féllst kanadíski forritarinn Gary Fung á að loka síðunni sinni IsoHunt fyrir fullt og allt og greiða 13 milljarða íslenskra króna sekt fyrir brot gegn lögum um höfundarrétt. Hann gafst upp eftir 7 ára baráttu fyrir dómstólum.
Við á Íslandi erum ekki ónæm fyrir þessu. Síðustu misserin hefur SMÁÍS verið í harðri baráttu á Íslandi, þeir hafa óskað eftir lögbanni á Deildu.net og The Pirate Bay – sem þeir reyndar fengu ekki í gegn – og nýjast útspilið er að kæra fyrirtækin Tal og Flix.is fyrir að gera þjónustu Netflix aðgengilega Íslendingum. Þjónusta sem fólk greiðir fyrir og tryggir eigendum höfundarréttavarða efnisins greiðslum fyrir áhorfið. Að auki er í gangi lögreglurannsókn gegn Deildu.net.
Það virðist vera langt í land í þessum málum og er TPB AFK innslag inn í þessa umræðu. Myndin er persónuleg heimildamynd og fer lítið sem ekkert út í höfundarréttarumræðuna, sem mér persónulega finnst synd, en þetta var samt áhugavert ferðalag. Að fylgjast með vonlausri baráttu þremenningana við kerfi sem skilur þá ekki, að fylgjast með þeim tilfinningalega rússíbana sem þeir upplifðu á meðan á tökum stóð, þar sem þeir að lokum stóðu uppi með fangelsisdóma fyrir höndum og þurfa að greiða háar sektir. Maður getur ekki annað en fórnað höndum.
Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.
Hlekkir á viðtöl við Kristínu Atladóttur:
• http://www.ruv.is/frett/ras-1/allir-tapa-a-hofundarrettinum
• http://www.ruv.is/frett/islensk-menning/hagraen-menning
• http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP10200
Heimildir:
• http://www.ruv.is/frett/undrast-adgerdaleysi-logreglu
• http://www.ruv.is/frett/vilja-loka-fyrir-adgang-ad-netsidum
• http://www.ruv.is/frett/atla-ad-kaera-vegna-brota-a-hofundalogum