Bækur og blöð

Birt þann 7. ágúst, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Silfuröld myndasögunnar

Eftir gullöldina kom silfuröldin. Venjulega er talað um  að silfuröldin hafi byrjað með komu „nýja“ Flash 1956 og að hún hafi endað með dauða  Gwen Stacy í Spider-Man 1973. Mörkin eru ekki jafn skýr og á gullöldinni, áhrif silfuraldarinnar má finna á áttunda og níunda áratugnum en 1973  hafa söguþræðir og markaðsöfl breytt iðnaðinum til langframa.

Silfuröldin var tími ofurhetjanna. Hryllingurinn hvarf næstum algerlega ásamt ástarsögum og vísindaskáldsögum. CCA hafði gert þeim ómögulegt fyrir. En neyðin kennir naktri konu að spinna. Hinar hörðu reglur CCA voru eins og skapaðar fyrir ofurhetjur. DC „rebootaði“ Flash 1956 og eftir á fylgdi Green Lantern og fleiri „gamlar“ hetjur með nýjar sögur. Hetjurnar voru uppfærðar og settar í „nútímalegri“ búninga, sögurnar hlýddu CCA og um tíma var allt á uppleið. Frá 1955-1960 átti DC næstum allar ofurhetjurnar og nutu sín. Þeir sameinuðu þær síðan í Justice League 1960, fullkomna blöndu af helstu ofurhetjum samtímans.

Ofurhetjur DC frá þessum tíma eru íkon, fullkomnar hetjur sem gera fá mistök og  mistekst aldrei. CCA gerði ofurhetjum kannski kleift að leggja tóman markað undir sig, en reglurnar gerðu höfundum ekki auðvelt fyrir að  skapa nýjar sögur. Eðli málsins samkvæmt áttu þeir að skrifa sögur fyrir börn. Þess vegna finnast á þessum tíma margar sögur þar sem ofurhetjur hegða sé hreinlega undarlega. Súperman ættleiðir Jimmy Olsen  og lætur eins og asni við hann, Batman rænir Robin og neyðir hann  til að verða hjálparhönd hans. Ofurhetjur áttu það líka til að búa til krafta á staðnum þegar sagan krafðist þess, Martian Manhunter gat til dæmis búið til ís með huganum og stjórnað málmum. En ekki alltaf.

Jimmy Olsen - Silfuröldin

Superman ættleiðir Jimmy Olsen. Einhver frægasta sagan þar sem Superman er einfaldlega asni í garð Jimmy.

En ofurhetjur seldust og sérstaklega JLA. Stan Lee var þá gefið það verkefni að skapa ofurhetjulið til höfuðs JLA. Hann og Jack Kirby bjuggu til  Fantastic Four 1961. Marvel, sem var að flestu leyti hugtak en ekki fyrirtæki  í byrjun, fór að dæla út myndasögum og nýjum hetjum. Spider-Man, Hulk, Thor og ant man sáu dagsins ljós 1962 og  Iron Man og X-Men fylgdu  1963. Fleiri hetjur komu seinna, eins og Daredevil (1964) og Captain America (1964).

Eftir þessa bylgju nýrra ofurhetja fór að halla á sól DC. Hetjur Marvel voru ekki fullkomnar eða fyrirmyndir eins og hjá DC. Og þeir virtust gjarnari á að berjast gegn viðjum CCA þó auðvitað hafi þeir haldið sig innan ramma reglanna. En Marvel hetjurnar börðust ekki bara gegn ofuróvinum. Þær tókust á við eigin djöfla og persónuleg vandamál. Spider-Man þurfti að hafa áhyggjur af heimavinnu og ritgerðum, og Hulk var fangi sinna eigin krafta frekar en að njóta þeirra. Þetta var gjörólíkt því hvernig ofurhetjur DC höguðu sé og Marvel naut mikilla vinsælda svo þeir sköpuðu sitt eigið ofurhetjulið  „The Avengers“ 1964. Athygli vekur að Fantastic Four, liðið sem upprunalega var mótsvarið við JLA var ekki með í liðinu.

Marvel átti það til að koma fram við vísindi á svipaðan hátt og galdra. Margir fá kraftana frá geislavirkni og geimgeislum, X- Men byggist á afskaplega kjánalegri túlkun á stökkbreytingum og Iron Man getur gert hvað sem hann vill þökk sé VÍSINDUM!™.  Þetta er svo sem fullkomlega skiljanlegt, geimöldin var byrjuð og allir á leiðinni til tunglsins. Ef geislavirkni gat ollið dauða, gat hún ekki gefið krafta á sama hátt? Segðu bara að þetta sé gamma geislum að kenna og enginn mun draga það í efa. Og það er mun nútímalegra en að segja að galdrar hafi verið að verki.

Andinn í Bandaríkjunum á þessum tíma leiddi líka til þess að hetjurnar sáu litla ástæðu til að krefjast betri heims eða frekara jafnræðis. Kvenkyns persónur urðu einvíðari en nokkru sinni fyrr og oftar en ekki gagnslausar. Invisible Girl frá Fantastic Four er til dæmis lítið annað en klaufskur kjáni sem þarf karlmenn til að verja sig í langan tíma. Kraftar hennar felast fyrst í því að verða ósýnileg, hún á með öðrum orðum að passa sig á að vera ekki fyrir og verða ekki fyrir neinum í slagsmálum. Aðrir kvenkarakterar voru ef til vill ekki jafn óhæfir en voru þó ekki langt frá því.

Invisible Girl - Silfuröldin

Invisible Girl var til að byrja með afskaplega kjánaleg og hjálparlítil. Hún gat orðið ósýnileg og lítið annað.  Hún varð að frábærum karakter seinna meir, en til að byrja með hefur hún greindarvísitölu á við appelsínu.

Eftir því sem leið á fór að bera á stöðnun, heimurinn var að breytast og Ameríka var ekki jafn rígbundinn í „hefðbundið“  hugmyndakerfi. Sögurnar fóru að breytast og reynt var að taka á hlutum af meiri alvöru og þroska. Brestir fóru að myndast í kerfi CCA eftir því sem fólk gleymdi hversu slæmar myndasögur áttu að vera. Höfundar fóru að taka á samfélagslegum vandamálum eins og fíkniefnum en áður mátti varla minnast á þau. Óvinir voru ef til vill ekki brjóstumkennanlegir en þeir urðu mannlegir og viðmót þeirra stundum skiljanlegt.

Menn fóru að berjast gegn viðmiðunum sem silfuröldin hófst á og það hallaði undan valdi CCA.  Reglum þeirra var breytt 1971 en stóru nöfnin þurftu einfaldlega ekki lengur á CCA jafn mikið og halda og áður.  Venjulega var reynt að fá gæðastimpilinn en það dró ekki mikið úr sölu ef hans gætti ekki.

Persónulega tel ég öldina enda 1973 með dauða Gwen Stacy. Þetta var þvílík breyting á stefnu og hugmyndafræði að aðrar sögur blikna í samanburði.  Green Goblin rænir  Gwen Stacy, kærustu Spider-Man og hendir henni af George Washington brúnni. Við vitum ekki hvort hún er á lífi þegar hún fellur niður en Spider-Man skýtur vef að henni og dregur hana til sín en þá er hún látin. Það er ýjað að því að Spider-Man hafi í ógáti hálsbrotið hana með þessu vefskoti sínu.  Spider-Man er enn í dag í öngum sínum yfir þessu og  er alveg viss um að hann sé ábyrgur fyrir dauða hennar. Greyið fær einfaldlega ekki séns.

Spider-Man - silfuröldin

Gwen Stacy deyr á George Washington brúnni. Hún lifnaði aldrei við og Spider-Man er eyðilagður maður eftir á. Silfuröldin deyr með henni. Ofurhetjur silfuraldarinnar gerðu einfaldlega ekki mistök á borð við þetta. Hetjan bjargar alltaf ástvininum. En með bronsöldinni koma nýjar reglur.

Þetta er góð saga sem breytti stöðunni hjá Spider-Man, persónusköpun í myndasögum og hvað höfundar gátu leyft sér að gera. Ofurhetjur silfuraldarinnar, burtséð frá hvaða fyrirtæki þær komu, gerðu einfaldlega ekki mistök á borð við þessi.
Og núna er ekki hægt að búa til Spider-Man mynd án þess að minnast á þetta atriði.

Silfuröldin var barn CCA og hefðbundinna strauma í Bandaríkjunum. Ofurhetjur og myndasögur voru nú kyrfilega bundin saman og ofurhetjan spilaði með reglum CCA. Sögurnar áttu að höfða til barna og sýnast því oft kjánalegar, sérstaklega í augum nútíma lesanda. En eftir því sem árin liðu og stóru risarnir styrktu stöðu sína þurftu þeir ekki lengur að beygja sig. Sögurnar þroskuðust og breyttust en með því leið silfuröldin undir lok.

Silfuröldin var tími sakleysis í skugga forsjárhyggju. Hetjurnar sem urðu til á þessum tíma áttu eftir að standast tímans tönn og oft saknar fólk einfaldari og skemmtilegri tíðaranda þegar Batman var með öll verkfærin á beltinu, sprengjur voru kúlulaga með kveikiþráð og óvinir drápu ekki né meiddu.

 

Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑