Bíó og TV

Birt þann 4. júlí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Spaceballs (1987)

Árið 1987 kom út kvikmynd Mel Brooks, Spaceballs. Eins og svo margar myndir þessa þekkta leikstjóra þá gerir hún góðlátlegt grín að frægum kvikmyndum. Í þetta skiptið er það Star Wars og aðrar geim-myndir eins og t.d. Star Trek, Alien og Planet of the Apes. Brooks er þekktur fyrir að gera skopstælingar og hefur meðal annars gert kvikmyndirnar Blazing Saddles og High Anxiety, sem eru að mínu mati hans bestu myndir, Silent Movie væri líka hægt að setja inn á þann lista, en mörgum finnst hún ansi erfið áhorfs. Ég geri ráð fyrir því að myndir Brooks séu eitthvað í líkingu við þær sem Woody Allen gerir, að því leyti að annaðhvort hatar fólk þær eða elskar. Ég er einn af þeim sem elska Brooks, hvernig er annað hægt?

Spaceballs segir sögu tveggja vina, Barf (John Candy) og Lonestar (Bill Pullman). Þeir skulda Pizza the Hut mikinn pening en Pizza the Hut er pizzu-útgáfan af Tony Soprano. Ég segi það og skrifa að hver sá sem hefur hreðjarnar í að skapa persónu gerða úr pizzu er snillingur. Á meðan félagarnir klóra sér í kollinum yfir því hvernig þeir eigi að greiða skuldina þá berst þeim bón um að bjarga dóttur Druidiu konungs, Vespu, sem hefur verið rænt af illmenninu Dark Helmet sem leikinn er af hinum stórkostlega Rick Moranis, sem við höfum fjallað um hér. Nú hefst mikið ævintýri þeirra félaga um stjörnukerfið og margar stórkostlegar persónur sem verða á vegi þeirra. Sérstaklega er vert að minnast á Yogurt (sem á að vera stæling á Yoda) og Skroob forseta. Bæði þessi hlutverk eru í höndum Brooks sjálfs. Það er alltaf fyndið að sjá leikstjórann sjálfan í hlutverkum, gyðingapresturinn í myndinni Robin Hood: Men in Tights er gott dæmi.

Síðsta sýning á myndinni er í kvöld kl 18 í Bíó Paradís en myndin er líka skyldueign á DVD eða Blu-ray, ég tala nú ekki um ef fólk elskar Star Wars. Ef maður er eitthvað grár og gugginn þá er um að gera að skella myndinni í tækið og njóta flippsins frá Brooks.


 

Höfundur er Ragnar Trausti Ragnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑