Birt þann 11. desember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: The Possession (2012)
Á undanförnum árum hefur nokkur endurvakning verið á særingarmyndum og þó að engin þeirra hafi komist með skítugar tærnar þar sem hin klassíska The Exorcist frá árinu 1973 er með blóðuga hælana hefur þeim öllum ekki mistekist herfilega. Þar má nefna myndir á borð við The Exorcism of Emily Rose (2005), [Rec]2 (2009) og The Last Exorcism (2010). Nýlega bættist annar keppandi í slaginn og ber nafnið The Possession. Ég var strax orðinn nokkuð spenntur fyrir henni þegar stiklan kom út og vonaði að hér væri ekki á ferðinni úlfur í sauðargæru.
Söguþráður myndarinnar er nokkuð hefðbundinn en tekur þó smávægileg hliðarspor til að krydda upp á gamlar hefðir. Myndin byrjar með því að sýna gamla konu á sólbjörtum degi inni í húsi sínu. En það er eitthvað að. Hún heyrir óskýra og ráma rödd syngja. Röddin virðist koma úr trékassa sem er í stofunni. Konan kveikir á útvarpinu og nær í hamar og heilagt vatn. Hún gengur svo í átt að kassanum til að eyðileggja hann, en þegar hún er komin nálægt honum er henni hent um herbergið eins og tuskudúkku þar til hún missir meðvitund. Eftir þennan inngang kynnumst við fjölskyldu á miklu breytingarskeiði, en foreldrarnir Clyde (Jeffrey Dean Morgan) og Stephanie (Kyra Sedgwick) eru nýlega skilin og pabbinn fluttur í nýtt hús í hinum enda bæjarins. Þau eiga tvær táningsdætur, Em (Natasha Calis) og Hannah (Madison Davenport). Em er yngri og á töluvert erfiðara með að sætta sig við skilnaðinn. Clyde þjálfar körfubolta og virðist ekki alltaf skilja stelpurnar en hann reynir a.m.k. að gefa þeim frelsi frá ströngum reglum Stephanie þær helgar sem þær gista hjá honum. Hann fer með þær á garðsölu og þar finnur Em kassann úr byrjun myndarinnar. Clyde leyfir henni auðvitað að fá hann og um leið fara skrítnir og ógnvægilegir hlutir að gerast.
Kaþólska hefðin fyrir særingum hefur verið kynnt fyrir öllum heiminum í útgáfu The Exorcist árið 1973 og enn starfa særingarmenn hjá Vatíkaninu. Í þessari mynd sjáum við hins vegar særingar úr hefð gyðingdómsins. En kassinn sem Em finnur er svokallaður „dybbuk“ (djöfla-) kassi og á að innihalda hið illa úr anda látinnar manneskju. Sú manneskja virðist hafa verið pólsk og fyrir þá sem skilja ekki mikið í pólsku getur verið nokkuð spennandi og exótískt að heyra óskiljanlega rödd úr kassa með hebresku letri. Það virkaði a.m.k. á mig, enda getur hið ókunnuga oft verið það ógnvægilegasta. Ég stóðst hins vegar ekki mátið og leitaði uppi línurnar sem sagðar voru á netinu eftir áhorfið og það gerði myndina eiginlega betri fyrir vikið. Einnig er nokkuð áhugavert að myndin er byggð á sannsögulegum atburðum, þ.e.a.s. að það var vínkassi settur á uppboð á Ebay fyrir nokkrum árum og honum fylgdi saga sem er önnur en sú sem myndin segir en alveg jafn hryllileg. Hvort hún hafi verið sönn er annað mál, en fyrir áhugasama um slíkar sögu þá vísa ég hér til uppboðsins upprunalega.
Styrkleiki myndarinnar felst hins vegar ekki í tengslum við „sanna“ sögu heldur í framkvæmd hennar. Fyrri hluti myndarinnar er nokkuð hægur og leyfir áhorfandanum að kynnast persónum myndarinnar. Fjölskyldudramað er sannfærandi og leikurinn sömuleiðis. Jeffrey Dean Morgan er með þetta sannfærandi Javier Bardem útlit og selur sig algjörlega sem umhyggjusaman föður sem er tilbúinn að gera hvað sem er fyrir dætur sínar. Flestir þekkja hann þó sem algjöra andstæðu þessarar persónu, The Comedian úr Watchmen (2009). Hin 13 ára gamla Natasha Calis fer líka með stórleik í hamskiptum sínum frá saklausri stúlku yfir í kaldrifjaða illsku. Kvikmyndatakan er líka nokkuð flott og það skapar mikinn stemmara að inn á milli spennuþrunginna atriða er klippt á yfirmynd sem snýst hægt fyrir ofan húsið sem næsta atriði gerist í. Til að leggja áherslu á alvarleika þess sem hefur gerst er ein drungaleg píanónóta spiluð. Jú, þetta kann að virka klisjulegt til að byrja með en eftir því sem líður á myndina verður þessi stíll áhrifameiri.
Danski leikstjórirnn Ole Bornedal sagðist með þessari mynd ætla að reyna að enduruppgötva særingarmyndina. Ég get ekki sagt að það hafi tekist en hann hleypti að vissu leyti nýju lífi í hana.
Danski leikstjórirnn Ole Bornedal sagðist með þessari mynd ætla að reyna að enduruppgötva særingarmyndina. Ég get ekki sagt að það hafi tekist en hann hleypti að vissu leyti nýju lífi í hana. Það eru fjölmörg atriði sem vekja upp mikinn hroll og oft á frumlegan hátt, en myndin mætti þó reiða minna á bregðuatriði og augljósar tölvubrellur. Gaman hefði verið að sjá meiri umfjöllun um sérkenni særingaraðferða gyðingdómsins og gera meira úr þeirri nýbreytni sem reynt er að kalla fram. Notkun á mölflugum í stað týpískra skordýra er t.d. smáatriði sem gleður. Það verður þreytandi að sjá alltaf sömu fyrirbærin notuð til að vekja óhug. Þegar líður á myndina fara klisjurnar að láta kræla á sér í auknu mæli og þá missir hún dampinn. Ég veit að það er t.d. auðvitað meiri spenna í að rannsaka skrítna hluti í myrkrinu en hversu sparsöm getur ein fjölskylda verið á rafmagn? Ég er kannski einn um það að vilja kveikja ljósin til að sjá betur hvað er í gangi. Kannski er það ástæðan fyrir því að ég sé aldrei sambýlisfólk mitt andsetið af djöflinum.
The Possession fær stóran plús fyrir að líta vel út og skapa nokkuð skuggalegt andrúmsloft. Hryllingurinn er yfirleitt sannfærandi og nokkur atriði eru framkvæmd á virkilega flottan máta. Fjölskyldudramað virkar einnig vel og það tvinnast vel við hryllinginn. Nokkur atriði hressa upp á gamlar hefðir en í lokin er myndin frekar hefðbundin og áhrifin frá The Exorcist leynast hvergi. Þó að særingin sé yfirleitt hápunktur slíkra mynda þar sem öllu er flaggað þá virðist það ekki hafa verið ætlun þessarar myndar. A.m.k. virkaði það ekki þannig. Uppbyggingin er hins vegar sterk og því ákveðin vonbrigði að hápunkturinn hafi ekki verið hærra settur. Góð skemmtun er hún þó og ágætis gláp fyrir þá sem geta litið framhjá nokkrum klisjum. Það gekk víst ekki nógu vel að særa þær burt.
Höfundur er Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.