Birt þann 4. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Kvikmyndarýni: Tenebre (1982)
Í tilefni þess að Dario Argento er heiðursgestur á RIFF hátíðinni um þessar mundir finnst mér ekki óvitlaust að gagnrýna eina mynd eftir hann. Þar sem búið er að taka fyrir Deep Red (eða Profondo Rosso á ítölsku) og næstu tvær myndir hans, Suspiria og Inferno, verða sýndar á hátíðinni ætla ég að tækla myndina sem kom eftir þær. Sú mynd heitir Tenebre, sem er frá árinu 1982 og er hans áttunda mynd.
Fyrsta myndin sem Argento leikstýrði kom út 1970 og gerði hann þrjár myndir sem eru flokkaðar sem giallo myndir. Fjórða myndin hans var síðan á skjön við allt sem hann hefur gert því hann hélt að giallo myndir væru búnar. En svo var ekki og þá kom hann með Deep Red árið 1975 og fór í aðra átt með Suspiria og Inferno sem eru yfirnáttúrulegar hryllingsmyndir frekar en giallo myndir. Argento og framleiðendur hans vildu næst gera giallo mynd, sérstaklega þar sem ítalskir áhorfendur voru frekar vonsviknir með hann fyrir að yfirgefa sérsvið sitt.
Myndin fjallar um Peter Neal (Anthony Franciosa), bandarískan rithöfund, sem fer til Rómar að kynna nýjustu bókina sína, Tenebrae (sem þýðir myrkur á Latínu). Það er hrina af morðum í borginni og dregst rithöfundurinn inní atburðarásina þar sem morðinginn notast við bókina hans og sendir honum skilaboð tengd bókinni. Það eru fjölmargar persónur sem koma við í myndinni en þekktustu nöfnin eru Daria Nicolodi og John Saxon en þau leika aðstoðarkonu og útgefanda rithöfundarins.
Fyrir þá sem þekkja vel til Argento þá kemur söguþráðurinn ekki mikið á óvart, enda er þetta fimmta giallo myndin hans og notast hann nokkurn veginn við sömu formúluna og áður. En samt lumar Argento á nokkrum nýjungum hér ásamt því að svara fyrir sig gegn þeim ásökunum að hann sé einhver karlremba og kvennahatari. Hann heldur áfram sínum nærmyndum af hlutum sem viðkemur morðingjanum og metnaðarfullum skotum eins og nærri þriggja mínútna kranaskot sem klifrar upp byggingu og fer eftir þakinu og aftur niður á öðrum punkti. Hann reynir að sýna okkur að myndir hans séu list og sýnir í einu mögnuðu skoti hvernig blóð getur alveg eins verið málning á striga.
Argento vann aftur með Luciano Tovoli sem var kvikmyndatökumaðurinn á Suspiria og þeir ákváðu í sameiningu að fara í allt aðra átt, í burtu frá litagleðinni sem var í þeirri mynd. Hér ráða kaldir litir og nætursenur eru vel upplýstar, þannig að það er engin leið að fela sig hvorki fyrir fórnarlambið né gerandann. Fyrir suma er þetta frekar fráhrindandi útlit og maður skilur það vel en þetta skilar sér í frekar óskýrri mynd. Miðað við myndgæðin á Deep Red er frekar skrítið að sjá hversu lítið er um smáatriði sem hægt er að sjá vel í þessari mynd. Kannski hefur þetta eitthvað með filmuna sem þeir notuðu að gera en þar sem þetta er gömul mynd þá var maður nú ekki að búast við miklu.
Myndir hans Argento hafa oft verið gagnrýndar fyrir veikan leik sem víkur fyrir tæknilegri vinnu og það er vissulega rétt en misvel hefur tekist að talsetja enskt tal á myndir hans í gegnum tíðina. Oftar en ekki sér maður greinilega að verið sé að talað ensku en það er greinilega talsett, það er vegna þess að oft var hljóðið ekki tekið upp eða að það var ónothæft. Talsetningin er að mestu leyti góð í þessari mynd og það á einnig við um leikinn hjá leikurunum. Það getur stundum verið erfitt að heyra hvað leikararnir eru að segja í sumum senum ef maður vill ekki vekja nágrannana. Og tónlistin virðist stundum vera hærri en hún ætti að vera, en ég held að það sé vilji Argentos.
Talandi um tónlistina, þá neyddi Argento meðlimi Goblin saman til þess að skapa tónlistina fyrir þessa mynd. En þar sem stefnan var sett á rafrænan hljóm var notast við trommuheila og var því trommarinn ekki kallaður til. Vegna þess og að Goblin var ekki starfrækt í sinni upprunalegu mynd var notast við eftirnöfn þriggja meðlimanna þegar þeir voru titlaðir fyrir tónlistina. Tónlistin er á köflum mjög í anda níunda áratugarins en yfir höfuð halda þeir samt í sinn Goblin stíl sem einkennist að framsæknu rokki. Ef það hefði ekki verið fyrir þeirra tónlist hefði þetta stórkostlega þriggja mínútna kranaskot verið hálf skrítið að horfa á, en tónlistin keyrir þetta upp og svo veltir maður fyrir sér hvort morðinginn sé að læðupúkast inní húsinu þegar maður sér í gegnum gluggana.
Goblin flytur titillag Tenebre.
Tenebre er mjög köld mynd, uppfull af kaldhæðni en er samt langt frá því að vera hans blóðugasta mynd (fyrir utan kannski lokasenurnar). Það er lítið um húmor í myndinni svo fyrir þá sem vonast eftir svipaðri stemmingu og Deep Red gætu orðið fyrir vonbrigðum. Í gegnum árin hefur þessi mynd risið í áliti hjá aðdáendum Argento og er talin vera meðal hans bestu þótt hún sé síðri en Deep Red.
Um DVD diskinn
Áður en maður kemst á aðalvalmyndina eru stiklur fyrir Jack Ketchum’s The Girl Next Door og svo tvo Dario Argento titla, Pelts (sem er hluti af Masters of Horror sjónvarpsseríunni) og Phenomena. Sem betur fer getur maður sleppt þeim með því að velja aðalvalmyndina eða fara áfram á næsta kafla þangað til að maður kemur að valmyndinni.
Myndin er í breiðtjaldsforminu 1.85:1, endurkóðuð fyrir öll sjónvörp, og hægt að velja milli tveggja enskra hljóðrása, Dolby Digital 5.1 eða Dolby Surround 2.0 ásamt einóma hljóðrás á ítölsku. Engan texta er að finna á disknum enda eru Anchor Bay frægir fyrir það. Myndgæðin eru ekkert til að hrópa húrra yfir en þó alveg hægt að horfa á þetta. Hljóðgæðin eru aðeins skárri, skil nú ekkert í þeim að hafa þessa 5.1 hljóðrás, maður verður lítið var við afturhátalarana. Maður þarf stundum að hækka og lækka ef maður er að hugsa um nágranna sína seint að kvöldi, annars er ekki hægt að kvarta mikið yfir hljóðinu þar sem þetta er gömul mynd. Þetta virðist vera besta útgáfan á DVD, hún er tæknilega séð óklippt en vantar nokkrar sekúndur hér og þar og reyndar eina stungu en það var vegna gæðanna á því efni sem þeir voru með í höndunum og hins vegar yfirsjáun með stunguna. Svo virðist vera að myndgæðin séu ekkert svakaleg á Blu-ray sem kom út í Bretlandi en eru betri á frönskum Blu-ray en þar er annað vandamál þar sem franskur texti er fastur þegar önnur tungumál en franska er notað.
Á DVD-disknum frá Anchor Bay er að finna þónokkuð að aukaefni en ekkert sem er hræðilega merkilegt.
Það er umtal með leikstjóranum sjálfum, Dario Argento, einum meðlimi Goblin, Claudio Simonetti og blaðamanni Loris Curci sem er spyrill og reynir að halda þessu líflegu. Þeir eru allir ítalskir og eru samt neyddir til þess að tala ensku, sem eyðileggur þetta tækifæri til þess að gera þennan disk ómissandi. Argento er ekki beint sleipur í enskunni og það getur oft verið erfitt að heyra hvað þeir eru að segja. Það kemur frekar lítið uppúr þessu sem er miður. Eitt sem kemur sem ég vissi ekki er að í titillaginu notast Goblin menn við hljóðgervil og tala inní hann ítalska orðið paura sem þýðir ótti.
Voices of the Unsane (Unsane er bandaríski titillinn) er 17 mínútur af viðtölum við Dario Argento, Daria Nicolodi, Claudio Simonetti og fleiri sem komu að gerð myndarinnar. Þau tala öll ítölsku og það er fastur enskur texti yfir viðtölunum. Það er farið fljótlega yfir helstu atriðin og í raun mun skemmtilegra að horfa á en að hlusta á umtalið þótt að það sé ekki farið í nein stór atriði.
The Roving Camera Eye of Dario Argento er stutt og gamalt efni af Dario Argento tala um stílinn sinn og tæknina ásamt stutt skot af Luma krananum í fullu fjöri.
Creating The Sounds of Terror er mjög stutt og gamalt efni þar sem við sjáum hljóðtæknimenn taka upp hljóð fyrir göngu og stungur.
Alternate End Credit Music er endalistinn með lagi sem var á bandarísku útgáfunni, Take Me Tonight með Kim Wilde. Þeir tóku eftir þessu lagi á umtalinu og voru ekkert ánægðir að heyra það en því var kippt í liðinn og rétt lag sett í staðinn.
Það fylgir síðan með stiklan fyrir myndina sem sýnir ansi mikið en skemmir myndina ekki alveg fyrir fólki.
Í lokin er að finna stuttan texta um ævi-og kvikmyndasögu Dario Argento upp að árinu 2007.
Í heildina litið er þetta ágætis pakki, ein af betri myndum Argentos og smávegis af aukaefni ásamt því að myndin er óklippt (eða svo gott sem).
Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.