Leikjarýni

Birt þann 17. mars, 2025 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

0

Kingdom Come: Deliverance II er meistaraverk

Kingdom Come: Deliverance II er meistaraverk Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Frábæra blanda af miðalaldarhermi og ævintýraleik sem býður upp á fjölbreytt verkefni og eftirminnileg ævintýri.

4.5

Mjög góður


Kingdom Come: Deliverance II er söguríkur fyrstu persónu miðaldarhermir og hlutverka- og ævintýraleikur (ég veit, svakalega ítarlegur leikjaflokkur!) frá tékkneska leikjafyrirtækinu Warhorse Studios. Leikurinn er beint framhald af fyrri leiknum frá árinu 2018 og sést vel að Warhorse Studios hafa vandað vel til verka við gerð nýja leiksins.

Þetta hófst allt með skilaboðum…

Henry er aðalsöguhetja leiksins og jafnframt vinur og fylgisveinn lávarðsins af Pirkstein. Leikurinn hefst á því að lávarðurinn af Pirkstein ásamt Henry og fylgdarliði ferðast á milli svæða í Bóhemíu (núverandi Tékklandi) á 15. öld með mikilvæg skilaboð – en leiðangurinn endar ekki eins vel og þeir vonuðust til. Með þessari bréfasendingu hefst ævintýri Henrys sem verða ekki rakin nánar hér en bjóða upp á vel yfir 100 klukkutíma í spilun og tugi klukkutíma til viðbótar ef mörg hliðarverkefni eru valin. Í fyrri leiknum þurfti Henry að læra að berjast og skylmast frá grunni sem spilarinn þarf ekki að endurtaka í framhaldsleiknum og byrjar með ákveðna grunnkunnáttu.

Mannleg hetja og súrt miðaldarlíf

Eitt af því sem gerir Kingdom Come: Deliverance II svo skemmtilegan og eftirminnilegan er sú óhefðbundna nálgun að gera hetju leiksins mannlega

Eitt af því sem gerir Kingdom Come: Deliverance II svo skemmtilegan og eftirminnilegan er sú óhefðbundna nálgun að gera hetju leiksins mannlega – hún er svona á mörkum þess að vera hetja, stundum er Henry bara mjög lúðaleg og misheppnuð persóna sem mismælir sig eða mistekst eitthvað svo útkoman verður oft önnur en gengur og gerist í flestum öðrum ævintýraleikjum þar sem hetjan er nánast of fullkomin.

Samtölin og persónurnar í leiknum eru virkilega vel borin fram. Húmorinn hittir beint í mark með vænum dass af kaldhæðni, hallærislegum bröndurum og almennum fíflaskap inn á milli alvarlegri samtala. Leikurinn nær gott sem fullkomu jafnvægi á milli þess að vera góður leikur og vel heppnaður hermir. Til að mynda getur fólk neitað að tala við þig ef þú ert illa lyktandi svo þú þarft að þrífa þig og þvo fötin. Ef þú fremur glæpi eru afleiðingarnar mismunandi eftir alvarleika glæpsins og þú þarft að hugsa um hluti eins og svefn, hungur, vináttu, orðspor, vopn og fleira. Leikurinn nær að bjóða upp á næga dýpt til að gera hann áhugaverðan og persónulegan en um leið fer hann ekki það djúpt að hann fælir spilara frá leiknum.

Framúrskarandi á marga vegu

Kingdom Come: Deliverance II býður ekki eingöngu upp á áhugaverða hetju og gott jafnvægi heldur er leikurinn framúrskarandi á svo marga vegu. Sagan er margbrotin og minnir stundum á góða og vel skrifaða sjónvarpsþætti, verkefnin eru fjölbreytt (þrátt fyrir yfir 100 klukkutíma í spilun finnur maður sjaldan fyrir endurtekningum), hliðarpersónur vel skrifaðar, útlit leiksins flott, tónlistin frábær og almenn spilun mjög skemmtileg og fjölbreytt. Það er nánast sama hvert litið er þá er útkoman mjög vel heppnuð. Það er ekki sjálfgefið að einspilunarleikur nái að halda spilaranum við efnið svo lengi en það tók mig yfir 120 klukkutíma að klára aðalsögu Kingdom Come: Deliverance II ásamt nokkrum hliðarverkefnum – og það er enn nóg eftir!

Eins mikið og mér finnst leikurinn eiga skilið fullt hús stiga eru nokkur atriði sem draga leikinn niður. Það eru örfá verkefni í leiknum sem gjörsamlega breyta upplifuninni og eru almennt ekki í takt við leikinn. Eru hreinlega illa úthugsuð og útfærð. Á einum tímapunkti þurfti ég til að mynd að nota mér þekkta villu (glitch) í leiknum til að klára eitt verkefni eftir að hafa verið fastur á sama stað í 2-3 klukkutíma. Umræður á netinu voru á þá leið að sumir hreinlega gáfust upp á leiknum á þessum tímapunkti, sem er skiljanlegt. Þessi örfáu verkefni eru afar slæm en eru þó innan við 1% af leiknum.

Eins mikið og mér finnst leikurinn eiga skilið fullt hús stiga eru nokkur atriði sem draga leikinn niður.

Vistunaraðferð leiksins er óþarflega leiðinleg en leikurinn vistast aðeins þegar ákveðin verkefni eru leyst en ef spilarinn vill vista sjálfur þarf Henry að hafa aðgang að ákveðnum drykk, svo það er ekki hægt að vista leikinn endalaust. Aðferðin sem ég notaði til að fara framhjá þessu var með því að velja að vista og hætta (save and quit) og opna leikinn svo aftur – frekar pirrand aðferði til lengdar og er erfitt að skilja hvers vegna þessi nálgun er valin. Einnig eru ákveðnir hlutir sem geta reynst óþarflega erfiðir í byrjun leiksins og getur munað miklu á því hvort spilarinn finni góða brynju snemma í leiknum eða ekki. Auk þess er nokkuð algengt að lenda í ýmsum minniháttar villum (glitches) sem hafa engin eða afar takmörkuð áhrif á spilunina en hefur áhrif á sjálfa upplifunina. Sömuleiðis tók smá tíma að venjast hreyfingum og svipbrigðum persóna í leiknum en persónurnar líta yfir höfuð vel út en svipbrigðin geta vera frekar vélmennaleg. Þetta er þá allt þegar á botninn er hvolft smáatriði þegar litið er til þess hve margt gott leikurinn hefur upp á að bjóða.

Eftirminnilegt meistarverk

Á heildina litið er Kingdom Come: Deliverance II meistaraverk sem býður upp á innihaldsríka, áhugaverða, eftirminnilega spilun.

Á heildina litið er Kingdom Come: Deliverance II meistaraverk sem býður upp á innihaldsríka, áhugaverða, eftirminnilega spilun. Ævintýrin eru mörg og fjölbreytt og margar ákvarðanir spilarans hafa áhrif á framgang sögunnar með einum eða öðrum hætti. Þess má geta að þá er að finna mikið af sögulegum fróðleik í leiknum um lífið á miðöldum og valin svæði í leiknum en notast var við raunveruleg gögn við gerð leikjaheimsins og sérfræðingar fengnir til aðstoðar. Saga Henrys er mér eftirminnileg og þær ákvarðanir sem ég þurfti að taka. Þrátt fyrir yfir 120 klukkutímaspilun er ævintýrinu alls ekki lokið og munum við Henry halda áfram með fjölbreytt hliðarverkefni. Frábær leikur sem er hiklaust hægt að mæla með.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑