Greinar

Birt þann 7. nóvember, 2024 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

0

PlayStation 5 Pro umfjöllun

Á dögunum fékk Nörd Norðursins aðgang að PlayStation 5 Pro, nýjustu leikjatölvunni frá Sony sem kom í verslanir í dag. Í þessari umfjöllun verður fjallað um PlayStation 5 Pro (hér eftir PS5 Pro), helstu kosti hennar og galla. Við þökkum Sony og Senu fyrir aðgang að tölvunni. Við tökum jafnframt fram að þessi umfjöllun er óháð og skoðanir höfundar eru hans eigin.

Hvað er PlayStation 5 Pro?

PlayStation 5 Pro er tæknilega séð fimmta útgáfan af PlayStation 5 leikjatölvunni. Fyrstu tvær útgáfurnar voru fáanlegar á útgáfudegi árið 2020 þar sem kaupendur gátu valið á milli þess að kaupa sér PS5 leikjatölvu með diskadrifi, eða án diskadrifs. Árið 2023 kom Sony svo með Slim útgáfur af tölvunum sem tók við af eldri gerðinni, Slim útgáfan innihélt minniháttar breytingar en var þó örlítið minni en upprunalega útgáfan. PS5 Slim hefur einnig verið fáanleg í tveim útgáfum, með og án diskadrifs.

Þá erum við loks komin að PlayStation 5 Pro, sem er fyrsta útgáfan af PS5 sem er markaðssett sem kraftmeiri útgáfa af PS5 tölvunni.

Þá erum við loks komin að PlayStation 5 Pro, sem er fyrsta útgáfan af PS5 sem er markaðssett sem kraftmeiri útgáfa af PS5 tölvunni. PS5 Pro er eingöngu fáanleg án diskadrifs en hægt er að kaupa diskadrif aukalega og festa við tölvuna. Sömu tölvuleikir virka í PS5 og PS5 Pro en Pro útgáfan færir okkur aukinn kraft sem gerir tölvuna að spennandi kosti.

Hvað er í kassanum?

Á kassanum sjást merkingar þar sem tekið er sérstaklega fram að PS5 Pro leikjatölvan inniheldur ekki diskadrif. Þegar kassinn er opnaður sést í tölvuna sem er pökkuð inn í hlífðarpakkningu. Útlitið á Pro útgáfunni er nokkuð líkt útliti Slim útgáfu PS5, það sem sérkennir útlitið á Pro er svört grind á miðri tölvunni sem er breiðari og meira áberandi en á Slim útgáfunni. Með tölvunni fylgir ein hvít DualSense fjarstýring.

Tölvan sjálf inniheldur alls sex tengingar. Að framan er að finna tvö USB-C tengi sem hægt er að nota til að tengja og hlaða DualSense fjarstýringar. Á bakhliðinni eru fjórar tengingar til viðbótar; HDMI tengi til að tengja tölvuna við skjá, LAN tengi til að tengjast netinu, tvö USB-A tengi sem hægt er að nota til að tengja til dæmis flakkara við tölvuna, og að lokum rafmagnstengi. Þrjár snúrur fylgja með. Ein HDMI snúra, ein USB-C snúra og rafmagnssnúra. Alls þrír bæklingar sem innihalda upplýsingar og leiðbeiningar fylgja einnig með.

Tvö lítil plaststykki fylgja tölvunni sem eru sambærileg þeim stykkjum sem fylgja með Slim útgáfunni af PlayStation 5. Plaststykkjunum er smellt undir tölvuna og virkar sem nauðsynlegur stuðningur við PS5 Pro þegar hún liggur lárétt. Plaststykkin veita ekki fullkominn stuðning ef ýtt er á tölvuna líkt og á myndbandinu hér fyrir neðan. Stykkin sinna sínu hlutverki en ef þið eigið kött eða það eru börn á heimilinu getur verið gott að vita af því að tölvan getur aðeins vaggað. PS5 Pro getur staðið lóðrétt líkt og aðrar PS5 tölvur en til þess þarf að kaupa sérstakan stand sem fylgir ekki með í kassanum og kostar því aukalega. Athugið að önnur hulstur (cover) virka ekki með PS5 Pro og nauðsynleg að kaupa sérstök hulstur á Pro tölvuna til að breyta um útlit.

Aukinn kraftur í PS5 Pro

Öll þessi þrjú atriði eru gerleg vegna uppfærslu í vélbúnaði, eitthvað sem PS5 Pro hefur fram yfir hina hefðbundnu PS5 tölvur.

Sony hefur lagt áherslu á þrjú atriði sem PS5 Pro hefur fram yfir hefðbundnu PS5 tölvurnar. Fyrir það fyrsta er það PSSR, sem stendur fyrir PlayStation Spectral Super Resolution og á að skila skýrari mynd í 4K gæðum með aðstoð gervigreindar. Í öðru lagi býður Pro upp á bestu mögulegu afkastagetu þegar kemur að spilun tölvuleikja í PS5 leikjatölvu. Í einföldu máli þýðir þetta að hægt er að spila tölvuleiki í góðri grafík og á sama tíma fengið í kringum 60-120 ramma á sekúndu (fer eftir leikjum). Í venjulegu PS5 tölvunni þurfa spilarar gjarnan að velja á milli þessara tveggja hluta – að hafa betri grafík eða fleiri ramma. Í þriðja og síðasta lagi er Pro með betri geislarakningu sem þýðir að leikir geta ráðið við fleiri smáatriði þegar kemur að endurkasti eins og til dæmis endurkasti eða endurspeglun í gluggum og pollum í leikjaheimunum. Þetta getur gert heiminn raunverulegri og flottari. Öll þessi þrjú atriði eru gerleg vegna uppfærslu í vélbúnaði, eitthvað sem PS5 Pro hefur fram yfir hina hefðbundnu PS5 tölvur.

Þó þessi þrjú atriði séu sett í fókus er fleira sem má telja upp sem gerir Pro útgáfuna að spennandi kosti, þar á meðal er hún með mun stærri harðan disk. Í hefðbundinni PS5 tölvu er innbyggður diskur sem er í kringum 820-1.000 GB að stærð en í Pro útgáfunni er 2 TB innbyggður diskur. Þetta þýðir að pláss er fyrir mun fleiri leiki á PS5 Pro sem eru mikil þægindi fyrir spilara sem vilja hafa aðgang að mörgum stórum leikjum og þurfa því ekki sífellt að henda leikjum út til að setja nýja í tölvuna. Hægt er að bæta við auka SSD diski líkt og í fyrri PS5 útgáfum og þannig hægt að stækka plássið enn frekar. Leiðbeiningar um hvernig á að bæta við SSD disk við PS5 Pro fylgir leiðbeiningum en hægt er að skoða myndband sem við hjá Nörd Norðursins birtum þar sem sést hvernig SSD disk var bætt við hefðbundna PS5 tölvu.

Annar áhugaverður valmöguleika sem Pro hefur en er ekki að finna í hefðbundnu PS5 tölvunum er svokallað betrumbætt myndgæði á PS4 leikjum. Þessi möguleiki hljómar spennandi en eftir að hafa prófað nokkra mismunandi PS4 titla í PS5 Pro virðist þessi möguleiki bæta litlu sem engu við þá leiki sem prófaðir voru. Mögulega verður einhver breyting á því í framtíðinni og mögulega virkar þetta aðeins á valda leiki til að byrja með, það verður að koma í ljós með tímanum þegar fleiri PS4 leikir hafa verið prófaðir.

Enn betri leikjaupplifun

PS5 Pro er með sama notendaviðmót og hefðbundna PS5 tölvan og ekkert öðruvísi sem sést svona strax eftir að hafa kveikt á tölvunni. Þegar kemur að spilun finnst þó munur – í sumum leikjum. Munurinn finnst mest í leikjum sem hafa fengið uppfærslu fyrir PS5 Pro og hafa verið stimplaðir sem betrumbættir leikir, eða PS5 Pro Enhanced games. Eftir að hafa prófað leiki af þeim lista, leiki á borð við Final Fantasy VII Rebirth, Spider-Man: Miles Morales og No Man’s Sky og fleiri er óhætt að segja að aukinn kraftur PS5 Pro er að skila sér frekar vel. Útkoman kemur yfirleitt best þegar rammafjöldinn er keyrður í hámarkið á sama tíma og PSSR er notað til að bæta myndgæði leiksins.

Munurinn finnst mest í leikjum sem hafa verið stimplaðir sem betrumbættir leikir, eða PS5 Pro Enhanced games.

Listinn yfir þá leiki sem hafa fengið uppfærslu fyrir PS5 Pro tölvuna fer ört vaxandi og sést nokkuð augljóslega á þeim leikjum hvernig aukinn kraftur Pro er notaður til að betrumbæta upplifun spilarans. Í sumum tilfellum er munurinn lítill en í öðrum leikjum meiri. Líkt og með tækniframfarir sem bæta hluti getur stundum verið erfitt að fara til baka og væri best að geta spilað alla PS5 leikina með þessum Pro stillingum. Enn eins og áður sagði er leikjalistinn stöðugt að stækka.

Sjónvarpið skiptir miklu máli

Ef sjónvarpið eða tölvuskjárinn er ekki nógu kröftugur þýðir það að þessi auknu gæði skila sér ekki.

Í stuttu máli má því segja að PS5 Pro bjóði upp á betri myndgæði, fleiri smáatriði og betri leikjaupplifun en hefðbunda PS5 leikjatölvan. Það er að segja, svo framarlega sem að skjárinn uppfylli öll tæknileg skilyrði. Ef sjónvarpið eða tölvuskjárinn er ekki nógu kröftugur þýðir það að þessi auknu gæði skila sér ekki. Til dæmis er nauðsynlegt er að sjónvarpið styðji við 60Hz og 120Hz, sé að lágmarki með 4K upplausn, og styðji við HDR og HDMI 2.1. Hér eiga trúlega einhverjir eftir að staldra við og komast að því að sjónvarpið þeirra sé ekki með allan nauðsynlegan stuðning. Þó þessi tæknilegu atriði séu sífellt að verða algengari í sjónvarpstækjum eru þau alls ekki sjálfgefin og þess vegna nauðsynlegt að leggjast í nauðsynlega rannsóknarvinnu. Í þessari umfjöllun verður ekki fjallað nánar um sjónvörpin en vert er að benda á vefsíðu RTINGS sem birtir lista yfir góð sjónvörp sem henta vel fyrir PS5 og PS5 Pro.

Er PS5 Pro þess virði?

Tæknilega séð er ekki spurning að PS5 Pro er kraftmeiri útgáfa af hinni hefðbundnu PS5 tölvu. Margir hafa þó gagnrýnt verðið á tölvunni sem þykir í hærra lagi. PS5 Pro kostar tæplega 140.000 kr. í flestum íslensku verslunum á meðan stafræna útgáfan af PS5 kostar rétt undir 90.000 kr. Enginn standur fylgir með Pro tölvunni og ekkert diskadrif og ef þessir hlutir skipta þig máli má gera ráð fyrir aukakostnaði þar sem diskadrifið kostar í kringum 25.000 kr. og standurinn í kringum 5.000. PS5 Pro með standi og diskadrifi kostar því alls í kringum 170.000 kr. á meðan diskaútgáfan af hefðbundnu PS5 tölvunni kostar rétt undir 100.000 kr. Ofan á þetta er nauðsnlegt að vera með sjónvarp sem styður við þessar breytingar því ef sjónvarpið styður þær ekki áttu eftir að sjá lítinn eða takmarkaðan mun á gæðum.

PS5 Pro er alls ekki nauðsynleg tölva en býður kröfuhörðum leikjatölvuspilurum upp á aukinn kraft, en það kostar töluvert aukalega. Að borga aukalega 50.000 – 70.000 krónur fyrir þennan kraft er það sem hver og einn verður að svara fyrir sjálft sig.

PS5 Pro er alls ekki nauðsynleg tölva en býður kröfuhörðum leikjatölvuspilurum upp á aukinn kraft, en það kostar töluvert aukalega. Að borga aukalega 50.000 – 70.000 krónur fyrir þennan kraft er það sem hver og einn verður að svara fyrir sjálft sig. Býður PS5 Pro upp á betri leikjaupplifun? Já stundum en alls ekki alltaf, og stundum er munurinn meiri og stundum minni, eftir því hvaða leikur er spilaður. Yfirleitt er hann þó ekki þannig að hann sé að breyta mjög miklu. Er þetta nauðsynleg uppfærsla? Nei, alls ekki. Ef þér finnst leikirnir keyra vel á núverandi PS5 tölvu er lítil ástæða til að uppfæra og óþarfi. En ef PS5 spilarar vilja það besta sem í boði er þá er kosturinn til staðar og PS5 Pro er svarið við því. Svarið er þess vegna alls ekki einfalt og mjög persónubundið.

Samantekt

PlayStation 5 Pro er góður valkostur fyrir þá sem vilja spila PlayStation-leiki í bestu mögulegum gæðum á leikjatölvu. Að blanda saman hærri rammafjölda með betri myndgæðum bætir leikjaupplifunina töluvert. Nauðsynlegt er að ganga úr skugga um hvort sjónvarpið sem Pro tölvan tengist við styðjist ekki örugglega við alla þá möguleika sem PS5 Pro hefur uppá að bjóða, ef ekki munu aukin gæði ekki endilega skila sér til spilarans.

PS5 er enn fín leikjatölva og þær breytingar sem Pro tölvan hefur uppá að bjóða geta vissulega verið góðar en alls ekki nauðsynlegar.

Verðmiðinn setur einnig strik í reikninginn þar tölvan þykir heldur dýr og verður hver og einn að svara því fyrir sig hvort Pro útgáfan sé þess virði. Þeir spilarar sem eru ánægðir með PlayStation 5 tölvuna sína geta vel notað hana áfram og þurfa ekkert að spá í Pro útgáfunni. PS5 er enn fín leikjatölva og þær breytingar sem Pro tölvan hefur uppá að bjóða geta vissulega verið góðar en alls ekki nauðsynlegar.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑