Leikjarýni

Birt þann 21. október, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Gran Turismo Sport – „áhersla á gæði yfir magn“

Leikjarýni: Gran Turismo Sport – „áhersla á gæði yfir magn“ Steinar Logi

Samantekt: Stórglæsilegur og með góða spilun en vantar aðeins upp á endinguna.

3.5

Flottur akstursleikur


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Gran Turismo Sport er nýjasti akstursleikurinn í seríu sem hefur fylgt PlayStation allt frá árinu 1997. Sá síðasti, Gran Turismo 6, kom út árið 2013 á PS3 þannig að það var kominn tími á nýjan leik sem nýtir sér tækni PlayStation 4 Pro og 4K HDR sjónvarpa.

Fyrst smávegis um mig sem bílaleikjaspilara – ég tel mig ekki vera harðkjarna en er alltaf með nýlegan bílaleik sem ég get gripið í, hvort sem það er einhver sem reynir að vera eins raunverulegur og hægt er (GT og Formula leikir) eða brjálaðir sandkassaleikir með Hallgrímskirkjuhæðarhoppum og sprengingum eins og Burnout, Need for Speed o.s.frv. Því miður hef ég ekki prófað Project Cars eða Project Cars 2 (sem var líka að koma út nýlega) en þeir hafa lengi freistað mín.

Gran Turismo er aðeins minni í sniðum en sambærilegir leikir. Það eru 177 bílar og 19 brautir en bílarnir eru byggðir frá grunni, þ.e.a.s. módelin eru ekki notuð áfram frá fyrri leikjum. Það er greinileg áhersla á gæði yfir magn en svo er ekki ólíklegt að það komi reglulega nýir bílar og brautir í framtíðinni ef marka má GT6 sem lifði lengi vel með viðbótum.

Gran Turismo er aðeins minni í sniðum en sambærilegir leikir. Það eru 177 bílar og 19 brautir

Það er eitthvað í leiknum sem kallast „campaign“ en það er í raun bara ökuskóli eða áskoranir sem gefa þér einhverja bónusa, þ.á.m. bíl, þegar þú hefur klárað ákveðið sett af áskorunum. Það er í raun enginn eins-spilara leikur að ráði.  Þetta þýðir að GTS vantar dáldið upp á breiddina til að höfða til allra týpa akstursleikjaspilara. Til þess að virkilega getað notið leiksins þá þarftu að hafa gaman af því að keppa á netinu því að talsverð áhersla er lögð á þann hluta. En það eru líka vandamál þar.

Þegar þú byrjar þá ertu með einkunn fyrir ökuhæfileika (Driver rating, DR) og íþróttamannslega framkomu (Sportmanship rating, SR). Vandamálið er að leikurinn er ekki að greina vel hvenær þú ert að haga þér eins og séntilmaður eða ekki og ef einhver keyrir hressilega aftan á þig þá getur leikurinn ákveðið að þetta hafi verið þér að kenna og því lækkarðu í SR. Eftir aðeins tvær keppnir þá var einkunnin mín dottin niður úr B í C þrátt fyrir að gera mitt besta til að spila eins og maður. Maður er paraður með öðrum spilurum með sömu kunnáttu og í byrjun þá virðist þetta vera algjör frumskógur því að allir eru að nota klessutaktíkina en hugmyndin er að maður vinnur sig upp í SR þá spilar maður með almennilegri spilurum. Ég hef lesið að þetta batni ef maður bara þraukar en á eftir að sjá það. Einnig þarf að bíða dáldið eftir hverjum leik, þetta er ekki eins og Overwatch þar sem maður bara hoppar í leik mjög fljótlega. Hluti af því er líka að maður þarf að ná eins góðum brautartíma og maður getur svo að það sé hægt að raða í keppnina sjálfa. Góðu fréttirnar eru að spilunin sjálf í þessum leikjum er laus við alls konar hikst og þvíumlíkt, alla vega hjá mér, en auðvitað spilar góð nettenging inní.

Vert er að nefna að leikurinn er nánast óspilandi ef maður er ekki nettengdur. Ef maður er það ekki þá er hægt að taka þátt í einhverjum keppnum, ekki áðurnefndu „campaign“ og allt annað er óveljanlegt og þar að auki vistast ekkert. Þetta er stór mínus fyrir suma en aðrir sítengdir finna kannski ekki fyrir þessu.

Vert er að nefna að leikurinn er nánast óspilandi ef maður er ekki nettengdur

Það sem lyftir GTS upp hversu flottur hann er, grafíkin er hreint út sagt stórkostleg. Sjálfur á ég ekki 4K HDR sjónvarp en maður getur rétt ímyndað sér hversu mikið augnakonfekt það er. Maður er oft í stökustu vandræðum að horfa á vídeó í leiknum og greina hvort það sé alvöru upptaka eða leikurinn sjálfur. Það tók mig einu sinni nokkrar mínútur og ég sá bara að þetta var leikurinn þegar áhorfendur komu í ljós og þeir hreyfðu sig ekki alveg eins og venjulegt fólk. GTS nýtir sér hversu flott allt er með því að bjóða upp á ljósmyndafítus þar sem hægt er að stilla bílunum sínum með alls konar bakgrunn, laga til filterana og taka mynd. Einnig er að sjálfsögðu hægt að breyta bílunum og bílstjóranum á ýmsan hátt og það er heill hafsjór af fróðleik um bíla og sögu keppnisíþróttarinnar (margt sendir mann á YouTube og það getur verið óþægilegt að sjá poppa upp youtube „banner“ þegar maður er að horfa á klassískt myndband um Alpha Romeo). Veður breytist ekki á meðan á keppni stendur eins og í fyrri GT leikjum og öðrum leikjum á markaðinum í dag en það er hægt að stilla veður og dag/nótt í upphafi keppninnar. Sjálfur hef ég meira gaman af því ef veðrið breytist á meðan ég er að keppa því að það eykur innlifun.

Það sem lyftir GTS upp hversu flottur hann er, grafíkin er hreint út sagt stórkostleg

Spilunin er mjög góð og næm. Ef það er eitthvað að fjarstýringunni þinni þá finnur þessi leikur það. Ég eyddi t.d. vel yfir klukkutíma að berjast við nokkrar auðveldar áskoranir en málið var að þær voru hreint ekki það auðveldar fyrir mig þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Ég komst í verulega tilvistarkreppu sem spilari og sérstaklega sem eldri spilari og hugsunin „er ég orðinn of gamall fyrir þennan skít?“ kom oftar en ekki í huga mér. Síðan skoðaði ég YouTube vídeó og sá að fólk komast alltaf aðeins hraðar en ég. Mikið rétt; R2 takkinn á fjarstýringunni var þannig að hann hélt jöfnum hraða (ekkert hikst) en náði aldrei fullum hraða. Fjarstýringunni var snarlega skipt út og eftir það gekk þetta mun betur og gullmedalíurnar fóru að detta inn. Líklega væri mjög gott að fjárfesta í leikjastýri ef maður vill fara alla leið með þetta.

Tónlistin og hljóð á skilið hrós. Það er alltaf rétt stemmning þ.e.a.s. ef maður er að dunda sér við að skoða eða kaupa bíla þá er mjög þægileg og „chill“ tónlist en ef maður er í hörkukeppni þá fær maður hraðari takt og það var hressandi að heyra í Vince Staples sem ég bjóst ekki við í svona leik. Öll bíla- og umhverfishljóð virka mjög sannfærandi.

Fyrir sanna aðdáendur bílaleikja, þið sem elskið bíla og spilið nær eingöngu bílaleiki eins og sumir spila bara fótboltaleiki eða stríðsleiki, endilega grípið þennan.

Fyrir sanna aðdáendur bílaleikja, þið sem elskið bíla og spilið nær eingöngu bílaleiki eins og sumir spila bara fótboltaleiki eða stríðsleiki, endilega grípið þennan. Sérstaklega ef þið hafið sjónvarpið til að njóta hans til fulls. Fyrir okkur hina þá vantar dáldið upp á víddina, fljótlega hættir maður að finna eitthvað til að gera, það er bara ekki nógu mikið fyrir þann sem heillast af öðru en að ná að spila eina keppni á netinu á hverjum hálftíma eða safna og dást af bílum. En flottur er hann.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑