Leikjarýni

Birt þann 14. september, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Tíminn tikkar í Twelve Minutes

Tíminn tikkar í Twelve Minutes Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Frumleg og snjöll framsetning á sögu en spilunin verður fljótt einhæf.

3.5

Áhugaverður


Twelve Minutes er frásagnardrifinn indíleikur eftir portúgalska leikjahönnuðinn Luís António. Luís hefur ekki komið að gerð margra leikja en hann var listrænn stjórnandi (art director) í The Witness (2016) og var hluti af listadeild leikjanna Midnight Club: Los Angeles (2008) og Manhunt 2 (2007). Annapurna sér um útgáfu leiksins en fyrirtækið hefur öðlast gott orðspor í gegnum árin með útgáfu fjölda eftirminnilegra indíleikja, þar á meðal What Remains of Edith Finch (2017), Kentucky Route Zero (2013) og Journey (2012).

… sterkasta hlið leiksins er án efa söguþráðurinn, frásögnin og hvernig leikurinn leggur það í hönd spilarans að púsla sögunni saman.

Twelve Minutes er einfaldur í spilun og er í grunninn svokallaður „point and click“ leikur. Þar notar spilarinn músarbendilinn til að smella á hluti eða persónur til að hefja samtöl eða tengja hluti saman. Við fyrstu sýn virðist leikurinn ekki vera sá frumlegasti en sterkasta hlið leiksins er án efa söguþráðurinn, frásögnin og hvernig leikurinn leggur það í hönd spilarans að púsla sögunni saman.

Snemma í leiknum kemst aðalpersónan að því að hún er föst í tímalykkju sem endurtekur sig ítrekað. Þitt verkefni er að endurupplifa sömu tímalykkjuna aftur og aftur, prófa nýjar leiðir, leita að vísbendingum og púsla sögunni saman. Þínar ákvarðanir hafa beinar afleiðingar og áhrif á framvindu sögunnar.

… leikjahönnuðurinn sótti innblástur frá kvikmyndaleikstjórunum Alfred Hitchcock, Stanley Kubrick og David Fincher.

Þrátt fyrir að Twelve Minutes sé heldur smár í sniðum koma stórleikarar að talsetningu leiksins. James McAvoy talar inn á fyrir aðalpersónuna, Daisy Ridley talar inn á fyrir eiginkonu hans og enginn annar en Willem Dafoe kemur einnig við sögu. Það er ekki eina tengingin sem leikurinn hefur við Hollywood þar sem leikjahönnuðurinn sótti innblástur frá kvikmyndaleikstjórunum Alfred Hitchcock, Stanley Kubrick og David Fincher (GameSpot).

Framsetningin er snjöll í Twelve Minutes en með tímanum geta sum atriðin orðið þreytandi. Í byrjun leiks er margir möguleikar í boði en þeim fer fækkandi með tímalykkjunum. Leikurinn leyfir spilaranum að hraðspóla yfir sum samtöl og valda kafla en það nær ekki að koma í veg fyrir þreytandi endurtekningar. Hæfni og heppni spilarans spilar þátt í því hve langan tíma tekur að klára leikinn og tók það undirritaðan í kringum sex klukkutíma. Endurtekning og takmarkað skemmtanagildi á köflum er það sem dregur einkunnina helst niður en frábær saga og frumleg framsetning er það sem leikurinn skilur eftir sig.

Nánar var fjallað um Twelve Minutes í Leikjvarpinu.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑