Menning

Birt þann 27. mars, 2021 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Krúttípútt og Stuðpjása – Arnar Tómas gefur Pokémon-skrímslunum íslensk nöfn

Arnar Tómas Valgeirsson deildi íslenskum þýðingum sínum á þekktum Pokémon-skrímslum á dögunum á Facebook-hópnum Bylt Fylki. Mörgum þótti þýðingar Arnars ansi skemmtilegar en þar má meðal annars finna vasaskrímslin Krúttípútt, Knúsfús, Eldklár, Hrotþurs og Kálhaus. Við ákváðum að heyra aðeins í Arnari og spyrja hann út í þessar skemmtilegu þýðingar.

Arnar segist halda að hann hafi verið einn fyrstu Íslendinganna til að fá Pokémon-æðið á sínum tíma þegar við spyrjum út í tengsla hans við Pokémon-heiminn. „Ég var staddur með fjölskyldu minni í Washington D.C í kringum 1998/1999 þegar bólan sprakk í Bandaríkjunum. Þetta var gjörsamlega alls staðar og líkt og flest börn á mínum aldri varð ég alveg vitlaus í þetta. Ég kom heim til Íslands með Pokémon Blue á Gameboy, fullt af kortaspilum, VHS spólur með þáttunum, litabækur og leikföng. Áhuginn hefur verið aðeins sveiflukenndur í gegnum árin en við og við dett ég aftur í þetta.”“

Arnar heimsótti Pokémon Center í Japan árið 2015.

Svona þýðingar eru pínu eins og kóríander, annað hvort finnst fólki þetta æðislegt eða virkilega hallærislegt.

Hvað var það sem fékk þig til að þýða öll þessi nöfn?Fyrir nokkrum árum stofnaði ég Facebook hópinn Bylt Fylki þar sem fólk þýðir erlenda kvikmyndatitla yfir á íslensku, líkt og þekktist í Mogganum og Sjónvarpshandbókunum í gamla daga. Svona þýðingar eru pínu eins og kóríander, annað hvort finnst fólki þetta æðislegt eða virkilega hallærislegt. Fyrir einhverjum árum hafði ég tekið mig til og þýtt nöfnin á byrjunar Pokémonunum og notaði þetta í smá umfjöllun um alþjóðlega Pokémon daginn í Fréttablaðinu. Þegar ég sá að þetta var að vekja lukku fannst mér renna blóðið til skyldunnar og ég hafðist handa.

Þetta er pínu djass. Ég fletti stundum upp orðum og samheitum, en bestu þýðingarnar krefjast venjulega ímyndunarafls.” segir Arnar þegar við spyrjum hann út í þýðingaraðferðir sínar. „Ég hugsa að ég sé einna stoltastur af Halatófu (Vulpix), Aurgaur (Geodude) og Seglagerði (Magneton). Það eru nokkrir þarna þar sem ég vildi að ég hefði gert betur, en almennt séð þá er ég alveg sáttur með þetta samansafn.

Ég hugsa að ég sé einna stoltastur af Halatófu (Vulpix), Aurgaur (Geodude) og Seglagerði (Magneton).

Þess ber að geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem fróðleiksþyrstir spyrja Arnar út í Pokémon vasaskrímslin en árið 2000 birti Morgunblaðið viðtal við Arnar þar sem fjallað er um þessi furðudýr frá Japan. Rétt fyrir aldarmót kom tölvuleikurinn Pokémon Snaps út á Nintendo 64. „Einn af leikjunum sem ég fékk aldrei tækifæri á að spila sem barn var Pokémon Snap á N64. Það fylgdi með lítill leikjavísir um hann með einhverri Pokémon bók sem ég hafði fengið. Ég las hann í þaula og var virkilega spenntur fyrir að kaupa hann, en hann var ekki til á Íslandi. Nýlega gafst mér tækifæri á að spila hann þegar félagi minn Egill Helgason bætti honum í risavaxna retró safnið sitt. Við brunuðum í gegnum hann á einni kvöldstund og höfðum gaman af, þótt hann væri stuttur. Tveimur dögum síðar var tilkynnt um framhald fyrir Nintendo Switch. Ansi skemmtileg tilviljun, eftir tuttugu ára bið.

Við þökkum Arnari kærlega fyrir viðtalið og hvetjum áhugasama lesendur um þýðingar að kynna sér Facebook-síðuna Bylt Fylki.

Myndir: ATV

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑