Fréttir

Birt þann 28. október, 2020 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Cyberpunk 2077 seinkar til 10. desember

Við mælum með því að þið setjist niður áður en þessi frétt er lesin. Pólska fyrirtækið CD Project Red hefur tilkynnt að hlutverka- og hasarleiknum Cyberpunk 2077 verði seinkað um þrjár vikur, eða til 10. desember.

Fyrirtækið segir að erfiðleikar í tengslum við að undirbúa leikinn fyrir margar mismunandi gerðir leikjatölva og PC samtímis sé megin orsök þess að útgáfudeginum hafi verið frestað. Það gerir það að verkum að prufa þarf níu mismunandi útgáfur af leiknum (Xbox One/X, Xbox Series X/S, PS4/Pro, PS5, PC og Stadia) og á sama tíma vinna fjölmargir að heiman vegna COVID-ástandsins.

Adam Badowski og Marcin Iwiński sögðu í tilkynningu sem þeir sendu frá sér í gær;

Síðan að Cyberpunk 2077 hefur þróast yfir í að verða nærri next-gen titill, þá þurfum við tíma til að vera viss um að allt virki rétt og hver einasta útgáfa leiksins keyri vel. Við erum meðvitaðir að fólk telji að 21 dagur hafi mögulega lítið að segja í svona stórum og flóknum leik, en það gerir það samt sem áður. 

Fyrir skemmstu rataði Cyberpunk í fréttirnar fyrir að hafa náð gulli, sem þýðir að diskar sem innihalda fullkláraða útgáfu af leiknum væru tilbúnir til fjöldaframleiðslu. Fyrirtækið hefur sagt að þessi aukatími sem fæst með því að fresta leiknum mun fara í að vinna að „Day 0“ útgáfu-plástrinum fyrir leikinn.

Þetta er þriðja seinkun leiksins, hann átti upprunalega að koma út í apríl á þessu ári og síðan 17. september og síðast 19. nóvember.

Þó að ekki sé skemmtilegt að þurfa að bíða aðeins lengur eftir leiknum þá viljum við á Nörd Norðursins frekar bíða aðeins lengur og fá betri leik í stað þess að fá gallað eintak í hendurnar.

Hvað finnst ykkur?

Heimild: Twitter Cyberpunk 2077

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑