Birt þann 29. mars, 2020 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson
Djöfullegt ferðalag Doom: Eternal
Samantekt: Doom Eternal er blóðugt ferðalag um marga heima sem er vís til að hækka blóðþrýstinginn.
4
Blóðugur hasar
Fyrir um fjórum árum kom út leikurinn DOOM, eða Doom 2016 eins og hann er oft kallaður til að aðgreina hann frá upprunalega leiknum frá árinu 1993. Sá leikur átti upphaflega að vera Doom 4 en ákvörðun var tekin um að endurræsa leikjaseríuna frá grunni, sem var einmitt það sem serían þurfti á að halda.
Nú er komið að framhaldinu, Doom: Eternal, sem lofar enn harðari og blóðugri upplifun. Stóra spurningin er hvernig tókst til og hvort enn sé nóg af blóði í æðum Doom hermannsins til að berjast við alla þessa djöfla?
Saga leiksins gerist um tveimur árum eftir atburði síðasta leiks. Jörðin er undirlögð djöfullegum hersveitum helvítis sem hafa þurrkað út um 60% mannkynsins, restin er undir hæl Union Aerospace Corporation. Doom Slayer snýr á ný til jarðar í geimskipi sem heitir Fortress of Doom og er staðráðinn í að ganga frá djöflunum sem herja á mannfólkið. Til þess þarf hann auðvitað að vaða í gegnum hundrað lítra af blóði og líkamspörtum þeirra sem á vegi hans verða og þora að veita mótspyrnu.
Eins og má búast við mun sagan ekkert ógna verkum Halldórs Laxness, heldur er hún leið til að ýta hasarnum áfram ásamt því að kafa aðeins dýpra í baksögu persónu Doom Slayer. Persónur úr síðasta Doom-leik koma aftur við sögu ásamt nokkrum nýjum sem flest vilja Slayer allt illt.
Doom 2016 var hraður leikur þar sem leikmenn þurftu ávallt að vera á hreyfingu til að lifa af. Í Eternal er er engin breyting þar á, ef eitthvað eru gerðar meiri kröfur þar sem það getur verið nauðsynlegt að þekkja borðin vel svo hægt sé að ráðast á óvinina frá öllum hliðum. Það var gáfulegt útspil hjá id Software að sleppa því að láta leikmenn byrja með skammbyssu og byrja með haglabyssuna þess í stað ásamt vélsög. Það síðar nefnda er lífsnauðsynlegt að nota til að fá heilsu og skotfæri frá óvinum sem þú drepur. Óvinirnir í Eternal eru hraðari og erfiðari en í leiknum frá 2016 og munu leikmenn ekki lifa lengi nema þeir séu á stöðugri hreyfingu.
Á víð og dreif um borð leiksins, sem eru fjölbreyttari og stærri en áður, er hægt að finna uppfærslur fyrir vopn Doom Slayer og Praetor brynjuna hans ásamt möguleikanum að sérsníða þau eftir leikstíl hvers og eins. Það er auðvelt að fara aftur í þau borð sem þú hefur spilað áður með nýjar uppfærslur og gera aðra tilraun til að ná þeim hlutum sem þú slepptir í fyrstu umferð. Það er hægt að færa rök fyrir því að það sé til aðeins of mikið af hlutum sem gæti flækst fyrir sumum spilurum. En þetta verður þó aldrei að vandamáli og er að mestu valfrjálst – fyrir utan kannski það að betrumbæta karakter þinn til að eiga séns að lifa af djöflana og skrímslin sem þú átt við. Hvað þá þegar þú ferð í erfiðari erfiðleikastillingar leiksins.
Með opnari og stærri borðum, þar sem leikmenn þurfa að hoppa á milli palla og bygginga, er nauðsynlegt að nýta sér sér umhverfið til að komast áfram og lifa af. Þetta getur stundum verið ergjandi og mis gaman, en til allrar lukku er leikurinn almennt örlátur á hvernig hann setur þig aftur í heiminn eftir að þú hrapar niður og deyrð. Fyrir utan eitt borð í leiknum eru þessir kaflar frekar stuttir sem hjálpar talsvert við að gera þennan hlut leiksins ekki of þreytandi.
Nýjungar í vopnabúri Doom Slayer að þessu sinni er græja sem hann setur á öxl sína og kastar handsprengjum, ís-bombum sem frystir óvini og eld sem eyðileggur brynjur óvina. Allt hjálpar þetta til þegar barist er við erfiðari óvini leiksins, og það verður meira af þeim þegar líður á leikinn. Auðvelt er að skipta á milli vopnameð því að nota d-pad á fjarstýringunni. Önnur viðbót er Doom Blade sem gerir „glory kills“ leiksins oft tilkomumeiri. Eins og í Doom þá er sá hluti bardagans bráðnauðsynlegur til að lifa af þar sem heilsa og skotfæri eru oft af mjög skornum skammti.
Ég hélt á tímabili að ég myndi ganga frá greyið pinnanum á fjarstýringunni minni eftir að hafa misboðið honum á þeim hátt í tuttugu tímum sem það tók mig að fara í gegnum leikinn. Það hjálpaði líklega ekki heldur til hversu fast ég hélt utan um fjarstýringuna þegar hasarinn var komin á fullt og þessi „bardagadans“ leiksins var hafinn að fullu
Tónlistin eftir Mick Gordon hjálpaði ekki blóðþrýstingnum mínum heldur og náði hún að skapa stemmningu sem lét blóðið í mér og í leiknum flæða ótt.
Þekktir óvinir úr eldri Doom-leikjum eru til staðar í Doom: Eternal eins og; imps, pinky demons, Pain Elemental, Archvile, Cacodemon, Barons of Hell o.fl. Einnig er að finna nýja óvini eins og, Doom Hunter, Gladiator og Marauder (sem fékk mig til að langa að brjóta fjarstýringuna!).
Það hjálpaði talsvert með pirringin að nýja eyðileggingarkerfi leiksins leyfir þér að sjá skrímslin hreinlega rifna í sundur og partar af þeim detta af þegar þú ert að skjóta þá og sprengja.
Doom frá árinu 2016 keyrði á id Tech 6 grafíkvél id Software og leit frekar vel út en átti við viss tæknileg vandamál að stríða sem tengdist því hvernig leikurinn streymir gögn af disknum og mátti rekja til hönnunar RAGE frá árinu 2011. Doom: Eternal er fyrsti leikurinn frá id og Bethesda sem keyrir á glænýrri id Tech 7 grafíkvél og er hannaður fyrir núverandi vélbúnað og þær tölvur sem eiga að koma út á næstunni. Leikurinn lítur hrikalega vel út í alla staði og keyrir þar að auki á nær fullkomnum 60 römmum á sekúndu sem er bráðnauðsynlegt fyrir svona hraðan skotleik. Litir og umhverfi eru fjölbreyttari að auki og er ljóst að hönnuðir leiksins fundu fleiri liti að nota en bara rauðan og brúnan. Fyrir þá sem eru með sjónvarp eða tölvuskjá sem styður HDR-litatækni lítur leikurinn enn betur út og er það besta leiðin til þess að upplifa hann.
Leikurinn skartar nýjum fjölspilunarmöguleika sem kallast Battlemode sem er tveir-á-móti-einum upplifun þar sem einn spilar Doom Slayer og hinir tveir stjórna skrímslum og er barist í fimm lotum. Í byrjun eru sex borð og fimm mismunandi skrímsli en vonandi bætast fleiri við leikinn síðar meir með uppfærslun. Hægt er að opna fyrir þann valmöguleika að aðrir leikmenn geti „ráðist inn“ í leikinn sem þú ert að spila sem skrímsli og gert upplifun ykkar að martröð ef þið viljið spila leikinn án hindranna. Það er til allra lukku hægt að velja hvort þessi hluti sé virkur eða ekki. Þegar leikurinn var spilaður fyrir gagnrýnina var þessi hluti leiksins ekki orðinn virkur svo við getum ekki sagt um hvernig þetta virkar nákvæmlega.
Þegar upp er staðið er Doom: Eternal mjög vel heppnað framhald leiksins frá 2016 og nær að mestu að byggja á því sem hann gerði til að endurræsa seríuna á ný og færa gömlu Doom-leikina í nútímann, ásamt að halda í það sem gerði gömlu leikina svo skemmtilega og hraða í spilun. Helsti ókostur leiksins er að hann er á köflum óþarflega erfiður í byrjun á lægri erfiðleikastillingum þar sem margir geta lent á vissum „vegg“ og ekki komist lengra. Ég upplifði þetta á næst síðasta endakalli leiksins sem var mér svo miklu erfiðari en sá síðasti.
Kærustunni leyst ekkert á hlutina á tímabili þegar ég var að spila leikinn. Til allra lukku er hægt að lækka og hækka erfiðleikastillinguna hvenær sem er, en þrátt fyrir það getur leikurinn stundum verið of erfiður.
Aukalíf sem falin eru um borðin er hægt að finna og hjálpa aðeins til með erfiðari kafla. Það er ekki oft sem mér hefur fundið hendurnar vera að flækjast smá fyrir mér í spilun og næstum viljað mús og lyklaborð eins og þegar maður spilaði gömlu Doom-leikina. Smá slípun á erfiðleikastillingum gæti algerlega lagfært þetta.
Það er drjúgt efnið sem er í boði í Doom: Eternal sem ætti hann að endast spilurum í langan tíma þó að þau snerti aldrei við fjölspilunarhluta leiksins. Það er gríðarlega mikið af efni að finna í leiknum og sögu sem ætti að gleðja eldri aðdáendur leikjanna og nokkur flott „easter eggs“ sem ég vill ekki spilla fyrir ykkur en ég mæli að hafa augun opin fyrir floppy-diskum ef þið rekist á þá.
Það er nú vonandi að id Software og Bethesda geri nú hið sama við Quake-seríuna og endurræsi hana eins og gert hefur verið með Doom og Wolfenstein leikina.