Leikjarýni

Birt þann 28. janúar, 2018 | Höfundur: Daníel Rósinkrans

Leikjarýni: Sonic Mania – „Sonic í „S-inu“ sínu“

Leikjarýni: Sonic Mania – „Sonic í „S-inu“ sínu“ Daníel Rósinkrans

Samantekt: Þrælgóður Sonic leikur sem ætti að kæta alla gamla sem nýja Sonic aðdáendur!

4

Skemmtilegur


Einkunn lesenda: 5 (1 atkvæði)

Um miðjan ágústmánuð síðastliðinn kom út splunkunýr Sonic leikur er kallast Sonic Mania. Sega leikjafyrirtækið hefur lengi reynt að koma honum aftur á vinsældalistann með því að endurvekja „töfrana“ með misheppnuðum tilraunum.

Nú er hann loksins mættur aftur í gamla góða tvívíddar-umhverfið þar sem markmiðið er að fara frá A til B og sigra endakarla í öðru hverju borði. Hvernig Sega hefur tekist að meðhöndla gripinn er auðvitað spurningin sem við reynum að svara hér fyrir neðan.

Það var Nintendo Switch útgáfan sem var spiluð fyrir þessa gagnrýni.

Saga Sonic leikjanna hefur alltaf verið jafn þunn eins og flest allir Mario leikir. Illmennið Dr. Eggman (eða Dr. Robotnik í sumum heimsálfum) hefur tekist að ræna demöntum, (er heita Chaos Emeralds) til þess að nýta þá í heimsyfirráð eða eitthvað því um líkt. Okkar maður, ehh… broddgöltur, þarf því hlaupa eins og fætur togar, líkt og hann gerir best, til þess að stöðva áætlanir Dr. Eggmans.

Leikurinn nær að fanga þá frábæru stemningu sem fylgdi Sonic leikjunum sem voru með það einfalda markmið að komast á leiðarenda frá A til B.

Margir þekkja eflaust til þeirra gömlu góðu daga þegar Sonic gerði það gott fyrir Sega Megadrive leikjatölvuna. Sonic Mania kemur honum klárlega aftur á kortið. Leikurinn nær að fanga þá frábæru stemningu sem fylgdi Sonic leikjunum sem voru með það einfalda markmið að komast á leiðarenda frá A til B.

Spilunin er frekar einföld og ættu allir að geta gripið í stýripinnann og þeytt Sonic áfram í gegnum borðin. Heimarnir eru þó mis-erfiðir og bjóða upp á alls konar nýjungar, sem og gamlar aðferðir, er kæta flest alla Sonic aðdáendur. Spilurum eru gefin þrjú aukalíf í upphafi hvers svæðis sem hægt er að bæta í með því að safna 100 hringjum eða finna hina klassísku sjónvarpskassa sem innihalda aukalíf. Takist spilurum ekki að ljúka við bæði borðin í þessi þrjú skipti markar það endalokin fyrir Sonic og þá neyðist maður til þess að byrja upp á nýtt á því tilteknu svæði.

Satt að segja kom virkilega á óvart hversu mörg svæði voru að finna í leiknum.

Hvert svæði skartar tvö borð og inniheldur leikurinn bæði ný og gömul svæði sem brá fyrir í fyrri leikjum. Þrettán svæði, tuttugu og sex borð í heildina gerir hann að fanta góðum leik. Satt að segja kom virkilega á óvart hversu mörg svæði voru að finna í leiknum. Green Hill, Hydrocity og Oil Ocean eru til dæmis mætt aftur á meðan ný svæði eins og Studiopolis, Lava Reef og Titanic Monarch bjóða upp á aðrar nýjungar sem eiga eftir að reyna á vana Sonic spilara.

Ekki nóg með að leikurinn líti mjög vel út, þá keyrir hann einnig afbragðsvel á Nintendo Switch leikjavélinni. Tónlistin er í takti við gömlu leikina sem kemur manni í stuð á augabragði.

Leikurinn bíður upp á þrjá mismunandi karaktera sem hægt er að nýta á fjóra vegu. Fólk getur valið á milli Sonic, Miles Tails, Sonic og Tails saman eða Knuckles. Með því að spila í gegnum leikinn með öllum persónunum lengir það líftíma hans og jafnvel gildi leiksins. Ekki skemmir fyrir þar sem sum borðin innihalda leiðir þar sem eingöngu Knuckles og Tails komast að sem brýtur svolítið upp á fjölbreytileikann.

Leikurinn býður upp á góðan skammt af nostalgíu sem minnir mann á allt hið frábæra sem Sonic leikirnir færðu okkur í blóma Sega fyrirtækisins.

Sem mikill aðdáandi Sonic the Hedgehog leikjanna hér áður fyrr er óhætt að mæla með Sonic Mania fyrir bæði gamla og nýja spilara. Leikurinn býður upp á góðan skammt af nostalgíu sem minnir mann á allt hið frábæra sem Sonic leikirnir færðu okkur í blóma Sega fyrirtækisins. Sonic Mania kostar í kringum 2.200 íslenskar krónur í gegnum eShop verslun Nintendo leikjatölvunnar. Þeir sem fengu ekki að upplifa þann hraða sem leikirnir kynntu til leiks árið 1991 ættu hiklaust að kíkja á Sonic Mania.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑