Leikjarýni

Birt þann 9. desember, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Leikjarýni: FIFA 18 – „góður en ekki margt nýtt á boðstólnum“

Leikjarýni: FIFA 18 – „góður en ekki margt nýtt á boðstólnum“ Bjarki Þór Jónsson

Samantekt: Íslenska landsliðið mætir til leiks í FIFA 18 sem er vel heppnaður fótboltaleikur í flesta staði.

4

Góður


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Á hverju ári kemur nýr FIFA fótboltaleikur með uppfært hlaðborð af heitustu fótboltaliðum og fótboltastjörnum hvers tíma. Að þessu sinni er íslenska landsliðið meðal liða í leiknum eftir frábæra frammistöðu að undanförnu.

FIFA 18 býður ekki eingöngu upp á uppfærð lið, heldur einnig hefur spilun leiksins vera fínpússuð líkt og gengur og gerist milli FIFA leikja. FIFA kemur sjaldnast á óvart og býður í raun ítrekað upp á sömu formúlu sem hefur virkað mjög vel í gegnum árin, enda eru FIFA leikirnir lang vinsælustu fótboltaleikirnir í dag og enda auk þess á vinsældarlista yfir söluhæstu leiki á hverju ári. Til hvers að breyta því sem virkar vel?

FIFA leikirnir eru fótboltahermar og reyna að framkalla stemningu og spilun sem er eins nálægt raunveruleikanum og tæknin leyfir. Í gegnum árin hef ég gert það að vana mínum að sleppa a.m.k. öðrum hverjum FIFA leik þar sem breytingarnar eru það litlar. Sú breyting sem mér finnst hvað áhrifamest og skemmtilegust frá FIFA 16 (sem ég spilaði seinast) er hvernig boltinn hreyfist og virkar sem mun sjálfstæðari eining sem gerir leikinn skemmtilegri í spilun.

Annað kemur í raun ekki á óvart. Ef þú hefur spilað FIFA leiki áður veistu hvað bíður þín.

Við spilun leiksins í PlayStation 4 er ekki annað hægt en að vera var við hökt við spilun þegar mikið er um að vera sem er heldur slappt fyrir leik að þessari stærðargráðu. Þessi galli er enn til staðar nokkrum vikum eftir útgáfu leiksins og hefur áhrif á flæðið í leiknum.

Annað kemur í raun ekki á óvart. Ef þú hefur spilað FIFA leiki áður veistu hvað bíður þín. Þú getur valið á milli liða og keppt einn, eða með vini, lókal eða við aðra í gegnum netið. Sömuleiðis geturu valið á milli þess að keppa í stærri leikjum eða deildum, spilað feril sem þjálfari eða leikmaður, eða einfaldlega sleppt því að flækja málin og taka einn stakan fótboltaleik.

FUT, eða FIFA Ultimate Team, er á sínum stað, en þar er hægt að stilla upp sínu draumaliði. Þú hefur þó ekki aðgang að öllum leikmönnum, heldur er nauðsynlegt að skipta við aðra leikmenn eða kaupa kortapakka í leiknum með FIFA peningum, sem þú getur safnað þér inn í leiknum, eða farið stuttu leiðina og keypt fyrir raunverulega peninga. Þarna erum við komin í söfnunarhlutann sem er ekki endilega fyrir alla.

FIFA 18 býður einnig upp á söguhluta í einspilun þar sem við spilum sem kappinn Alex Hunter sem var kynntur til sögunnar í FIFA 17. Í söguhlutanum tökum við smáar sem stórar ákvarðanir sem Alex sem getur haft áhrif á hvernig sagan spilast áfram og hver örlög fótboltakappans verða. Einspilunin er góð viðbót við leikinn og nær að líma saman allt það helsta sem leikurinn hefur upp á að bjóða í einspilun. Milli leikja þarf Alex að skella sér á æfingar og þar lærir maður stundum nýjar aðferðir sem gagnast vel í leiknum.

Leikurinn er góður en ekki margt nýtt á boðstólnum…

Á heildina litið er þetta mjög þéttur og góður leikur, alveg ekta FIFA leikur. Leikurinn er góður en ekki margt nýtt á boðstólnum og hægt að gefa honum þrjár og hálfa stjörnu með góðri samvisku – en mig langar að bæta aukalega hálfri stjörnu við þar sem íslenska landsliðið er í leiknum sem gefur leiknum enn skemmtilegri stemningu fyrir íslenska spilara! Það má þó deila um útlitslega útkomu leiksins þar sem Hannes í markinu er til dæmis óþekkjanlegur á meðan Gylfi kemur ansi vel út.

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑