Fréttir

Birt þann 18. ágúst, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Spilar retróleiki til styrktar Barnaspítala Hringsins

Kristinn Ólafur Smárason ætlar að hlaupa stafrænt Maraþon til styrktar Barnaspítala Hringsins á Menningarnótt, þann 19. ágúst. Kristinn fer í hlutverk sprettharða bláa broddgaltarins Sonic og mun spila í gegnum retró tölvuleikina Sonic The Hedgehog 1, 2 og 3 í einni lotu. Kristinn er mikill áhugamaður um retróleiki og er maðurinn á bakvið Retró Líf, eina glæsilegustu retróverslun landsins.

Þar sem ég valdi nú 3KM fannst mér við hæfi að spila 3 Klassíska Mega Drive leiki.

Kristinn segir að hugmyndin hafi komið þegar hann fylgdist með vinum og vandamönnum safna áheitum fyrir hin og þessi málefni á Facebook. „Ég er sjálfur ekki mikill hlaupari en langaði að taka þátt með einhverjum hætti og þá datt mér þetta í hug, enda geta maraþon verið af margskonar toga. Ég valdi því að styðja Barnaspítala Hringsins, enda þarft og gott málefni sem snertir okkur flest á einhverjum tíma á lífsleiðinni. Ég valdi svo styðstu mögulegu vegalengdina í Reykjavíkur Maraþoninu sem er þriggja kílómetra skemmtiskokk og skráði mig til leiks. Þar sem ég valdi nú 3KM fannst mér við hæfi að spila 3 Klassíska Mega Drive leiki. Það að streyma herlegheitunum á netinu og leyfa fólki að koma að fylgjast með bættist svo við síðar, enda væri eflaust ekkert gaman að sitja einn í herbergi og spila leikina í beit.“

Í öðru lagi þá er Sonic hlaupari og því tilvalin sem staðgengill fyrir mig sem hleyp ekki. Þar fyrir utan eru Sonic leikirnir einfaldlega gullfallegir og skemmtilegir og því gaman að fylgjast með þeim.

Þegar við spurðum Kristinn hvers vegna Sonic varð fyrir valinu segir Kristinn að hann hafi spilað leikina þegar hann var yngri, en það eru þó fleiri ástæður fyrir valinu. „Ástæðan fyrir því er í raun einföld en samt margþætt. Í fyrsta lagi þá átti ég Sega Mega Drive tölvu sem krakki og átti alla þrjá Sonic leikina (og Sonic & Knuckles!). Þannig þetta eru allt leikir sem ég hef spilað í gegn áður og ég er tiltölulega sannfærður um að ég geti klárað án þess að festast eða lenda í einhverjum meiriháttar skakkaföllum. Í öðru lagi þá er Sonic hlaupari og því tilvalin sem staðgengill fyrir mig sem hleyp ekki. Þar fyrir utan eru Sonic leikirnir einfaldlega gullfallegir og skemmtilegir og því gaman að fylgjast með þeim.“

Kristinn áætlar að það taki um tvo tíma að klára hvern leik, nema eitthvað óvænt komi upp. „Ég ætla að gefa mér tvo tíma á hvern leik og vona að það dugi til. Þegar ég var krakki spilaði ég alla leikina í gegn margoft og hafði lítið fyrir því, en ég hef náttúrulega lítið sem ekkert spilað þessa leiki síðan á seinni hluta tíunda áratugarins þannig ég vona að ég sé ekki orðinn of ryðgaður. Annars ætla ég að reyna stressa mig sem minnst á tímatakmörkunum og reyna fyrst og fremst að hafa gaman af þessu. Það komast ekki allir maraþonhlauparar í mark hlaupandi.“

Markmið Kristins er að safna 50.000 kr. til styrktar barnaspítalanum og hefur hann nú þegar náð að safna 57.500 kr. Hægt verður að fylgjast með stafræna maraþoni Kristins í beinni á netinu í gegnum streymissíðu Twitch, auk þess sem gestir og gangandi eru velkomnir með fylgjast með í skrifstofuhúsnæði GOMOBILE á 5. hæð í Austurstræti 12.

Við hvetjum okkar lesendur að sjálfsögðu að fylgjast með hinu stafræna hlaupi Kristins og um leið láta gott af sér leiða með því að senda á hann áheit. Margt smátt gerir eitt stórt!

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑