Bíó og TV

Birt þann 17. júlí, 2017 | Höfundur: Atli Dungal

Sjónvarpsþáttarýni: The Handmaid’s Tale

Sjónvarpsþáttarýni: The Handmaid’s Tale Atli Dungal

Samantekt: Gríðarlega vel gerðir þættir þar sem allir leikarar fara fram úr öllum væntingum.

5

Frábærir!


Einkunn lesenda: 3.6 (3 atkvæði)

Þessi grein mun innihalda smávægilega spilla. Ég fer reyndar ekki mikið í smáatriði svo ef þú ert ekki búinn að horfa á þættina eða lesa bókina, þá mæli ég eindregið með því að þú horfir/lesir fyrst og komir svo aftur!

Í aðalhlutverkum er að finna Elizabeth Moss, Yvonne Strahovski, Max Minghella, Joseph Fiennes, Samira Wiley og O. T. Fagbenle. Það er enginn einn handritshöfundur en Bruce Miller ásamt Margaret Atwood voru með yfirsýn yfir heildarskrifum þáttanna. Leikstjórar eru sömuleiðis margir.

Áður en ég fer að ræða þættina þá langar mig til að segja að þessi þáttaröð er líklega ein besta þáttaröð sem ég hef séð, að minnsta kosti ef litið er til þeirra þáttaraða sem aðlagaðar eru fyrir sjónvarps- eða kvikmyndaform. Þetta eru virkilega, virkilega, vandaðir þættir sem fara gríðarlega vel eftir snilldarlegri skáldsögu Atwoods en þónokkrar breytingar koma inn í handritið einfaldlega til að gera þetta vænlegra til áhorfs, koma inn á og bæta við nútímalegum pólitískum ádeilum og til að gefa áhorfendum betri skilning á hversu ótrúlega brenglað samfélagið er orðið þegar þessi saga gerist.

Þessir þættir eru sem sagt byggðir á samnefndri bók eftir Margaret Atwood frá 1985 sem lýsir hvernig gríðarleg hækkun tíðnis ófrjósemis varð til þess að róttækir aðilar í Bandaríkjunum tóku völdin, réttindi kvenna voru að miklu leyti afnumin og nútímasamfélag eins og við þekkjum það er útrýmt.

Þessir þættir eru sem sagt byggðir á samnefndri bók eftir Margaret Atwood frá 1985 sem lýsir hvernig gríðarleg hækkun tíðnis ófrjósemis varð til þess að róttækir aðilar í Bandaríkjunum tóku völdin, réttindi kvenna voru að miklu leyti afnumin og nútímasamfélag eins og við þekkjum það er útrýmt. Þessir róttæku aðilar, Synir Jakobs (e. Sons of Jacob), sjá fyrir sér að hið fullkomna samfélag byggist á að iðka kristna trú og að fjölga mannkyninu til að styrkja nýju stjórnina og Gilead, sem áður hét Bandaríkin. Til þess að fjölga mannkyninu þrátt fyrir fyrrnefnda hækkun ófrjósemis þá ákváðu Synir Jakobs að gjörbreyta hlutverki kvenmannsins í samfélaginu: frjóar konur voru neyddar, oftast með hræðilegum aðferðum, til að sætta sig við að verða Ambátt (e. Handmaid) sem bera átti börn til ófrjórra kvenna og háttsettra eiginmenn þeirra.

Ambáttirnar fá þrjú „tækifæri“ til að færa þeim heilbrigt barn. Ef það tekst ekki þá liggur sökin alfarið hjá Ambáttinni og hún væri í hættu að vera dæmd „Ó-kona“ (e. Unwoman) því þá telst hún ekki geta sinnt tilgangi sínum í samfélaginu. Ó-konur eru sendar í útlægð í hræðilegt umhverfi þar sem þær eru neyddar til að vinna þar til þær láta lífið, hvort sem það sé sökum aldurs, eiturs, dýra, hvað sem er. Mikilvægt er líka að átta sig á því að, eins og ég sagði, sökin er öll kvenmannsins: það er stranglega bannað að einu sinni gefa það í skyn að karlmaður gæti hugsanlega verið ófrjór.

Tímalínan í þáttunum er tvíþætt:  Líf June (Elizabeth Moss) áður en Bandaríkin urðu að Gilead og svo þá þegar June er í ánauð og er kölluð Offred því Ambáttir hétu ekki lengur nöfnum heldur er kvenmönnum gefið forskeytið Of- og svo nafn mannsins sem þeim er skylt að „þjóna“, þ.e.a.s. að bera manninum og samfélaginu eins mörg börn og líkamlega hægt er. Samt má ekki rugla Ambátt saman við viðhald, það er tvennt ólíkt. Offred hefur skyldum að sinna fyrir heimilishaldið, eins og að versla mat, aðstoða heimilisfrúnna Serenu Joy (Yvonne Strahovski) við það sem beðið er um, o.s.frv. en einu sinni í mánuði, þegar egglos á sér stað, þá er Offred skikkuð upp í hjónarúm heimilisins þar sem Serena Joy og Fred reyna að frjóvga eggið. Þessi atriði eru vægast sagt truflandi, rétt eins og „þjálfun“ Ambáttanna þegar June er að hugsa tilbaka til hvernig hlutir hafa breyst.

Hvað getur maður annað sagt en að þetta hafi verið ótrúlegir þættir? Ég byrjaði að skrifa niður athugasemdir þegar ég horfði á fyrsta þáttinn. Ég varð reiður við að sjá hvernig samfélagið var til þess gert að brjóta niður konur, ég þoldi ekki hvernig hlutirnir voru orðnir, en samt vissi ég allan tímann hvernig þetta yrði. Þessir þættir eru svo gríðarlega vel gerðir og bókstaflega allir leikararnir fara framúr öllum mínum væntingum. Frá því að ég las bókina fyrst þá hef ég alltaf hugsað að það væri geggjað að sjá þessa skáldsögu í kvikmyndaformi en ég er búinn að skipta um skoðun: þessi saga í formi sjónvarpsþátta er fullkomin. Þvílík snilld og ég get ekki mælt nógu mikið með að horfa á þetta!

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑