Leikjarýni

Birt þann 31. maí, 2017 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: Rezrog – „eitthvað létt og skemmtilegt“

Leikjarýni: Rezrog – „eitthvað létt og skemmtilegt“ Steinar Logi

Samantekt: Rezrog er dýflissuleikur sem hefur ágætis skemmtanagildi þrátt fyrir að vera ekki eins djúpur og sumir aðrir.

3.5

Skemmtilegur


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Rezrog er dýflissuleikur af sama meiði og t.d. Darkest Dungeon eða Legend of Grimrock þ.e.a.s. þú ferð í gegnum dýflissur, lendir í bardögum þar sem þú skiptist á að gera móti óvininum (turnbased), nærð í fjársjóði og reynir að forðast allar gildrurnar. Þessir leikir eru samt ólíkir innbyrðis þó að allir byggi þeir á sama grunni aðallega þegar það kemur að hetjunum sjálfum (galdranotendur, bogamenn, stríðsmenn, þjófar o.s.frv.) og hvernig þessar hetjur byggjast upp með því að öðlast fleiri og öflugri galdra og hæfileika. Sérstaklega kemur þetta í ljós þegar Rezrog er borinn saman við Darkest Dungeon því að á meðan DD er einn drungalegasti leikur sem ég hef nokkurn tímann spilað þá er Rezrog öllu léttari. Tónlistin er létt og skemmtileg og öll umgjörðin á að minna á borðspil enda eru karakteranir eins og pappírsfígurur gerðar fyrir slíkt spil. Einnig sér maður pizzusneiðar, gosglös og 20 hliða teninga rétt út úr fókus í jöðrunum.

Flestir þessir leikir reyna að hafa eitthvað sérkenni og hjá Rezrog er það þannig að þrátt fyrir að þú sért með sjö hetjur (mage, archer, paladin, warlock, rogue, warrior og summoner) þá geturðu bara spilað eina í eina. Þegar þú deyrð þá ertu settur í fangelsi og eina leiðin til að sleppa er ef önnur hetja bjargar þér. Þetta þýðir að ef þú ert kominn á styrkleika 12 með bogamanninum þínum þá þarftu að byggja upp aðra hetju til að bjarga honum sem er nokkuð sniðug aðferð til að fá mann til að prófa flestar hetjurnar. Leikurinn getur verið erfiður þegar þú ert að byrja en seinna ertu yfirleitt það öflugur að þú keyrir í gegn. Undirritaður hefur spilað leikinn í 30 tíma og það er samt nóg eftir þannig að hann endist vel ef maður á annað borð hefur gaman af honum.

Það er ekki mikil fjölbreytni í dýflissunum, þau eru nokkurn veginn eins uppbyggð en það koma af og til ný skrímsli og stórskrímsli eftir hvert svæði.

Það er ekki mikil fjölbreytni í dýflissunum, þau eru nokkurn veginn eins uppbyggð en það koma af og til ný skrímsli og stórskrímsli eftir hvert svæði. Skrímslin geta leynt á sér og drepið þig fljótt ef þú ert ekki varkár. Myndavélin er þannig að maður horfir niður á hetjuna á ská en hægt er að hreyfa hana til og draga myndavélina fram og aftur til að sjá meira svæði. Undirritaður lenti í smá vandræðum með villur sem stoppuðu leikinn algerlega, það var t.d. ekki hægt að hreyfa sig og ekki hægt að klára verkefnið. Haft var samband við Kasedo Games sem búa til leikinn og þeir vissu af þessu og sögðust muna laga þetta fyrir útgáfudaginn 30. maí.

Rezrog er skemmtilegur, lítill leikur sem maður hefur gaman af því að grípa í endrum og eins í litlum skömmtum. Hann er ekki eins djúpur og áðurnefndir Darkest Dungeon og Legend of Grimrock en bætir það upp með því að vera þessi leikur sem maður grípur í þegar maður vill eitthvað létt og skemmtilegt. Fínn leikur fyrir yngri kynslóðina. Leikurinn kom út 30 maí sl. á Steam og kostar 8.99 $ þ.e.a.s. ca. 900 kr. og er alveg þess virði.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑