Fréttir

Birt þann 2. apríl, 2017 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Waltz of the Wizard nú fáanlegur fyrir Oculus Rift

Sýndarveruleikaupplifunin Waltz of the Wizard frá íslenska fyrirtækinu Aldin Dynamics er nú fáanlegur fyrir Oculus Rift sýndarveruleikagleraugun. Fyrirtækið tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni núna á föstudaginn. Hægt að nálgast Oculus útgáfuna meðal annars í gegnum Oculus Home, heimasvæði Oculus Rift.

Waltz of the Wizard var gefinn út árið 2016 og síðan þá hefur hann notið mikilla vinsælda, þar á meðal hjá Steam notendum sem gefa honum mjög góða einkunn (af þeim 650 einkunnum sem hafa verið gefnar eru 98% þeirra jákvæðar). Hingað til hefur verið nauðsynlegt að nota HTC Vive sýndarveruleikabúnaðinn til að spila WotW en nú geta eigendur Oculus Rift einnig spilað hann. Nauðsynlegt er að vera með Oculus Touch fjarstýringarnar tengdar til að geta spilað WotW með Oculus Rift sýndarveruleikagleraugunum.

Í Waltz of the Wizard fær spilarinn að upplifa hvernig það er að vera galdrakarl í heimi sem sækir innblástur í kvikmyndir á borð við Fantasíu og Harry Potter. Í upplifuninni fær fólk ýmiskonar galdrakrafta á borð við að gera hluti þyngdarlausa, umbreyta hlutum í lifandi dýr og ferðast á milli mismunandi heima í gegnum galdragáttir. Við nördarnir prófuðum WotW á SLUSH Play ráðstefnunni í fyrra og mælum hiklaust með að VR áhugafólk tjékki betur á honum.

Eins og er þá er Waltz of the Wizard ókeypis inná Steam og Oculus Home.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑