Fréttir

Birt þann 15. mars, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

CMON tilkynna nýtt tindátaspil byggt á A Song of Ice and Fire

CMON hafa tekið höndum saman við Dark Sword Miniatures Inc. og ætla að gefa út nýtt tindátaspil (e. miniatures game) byggt á A Song of Ice and Fire eftir George R.R. Martin eða Game of Thrones eins og bækurnar er kallaðar í daglegu tali vegna samnefndra þátta frá HBO.

A Song of Ice and Fire tindátaspilið mun birtast á þriðja ársfjórðungi 2017 á Kickstarter og má því búast við því í verslunum árið 2018 skv. tilkynningu frá CMON. Í spilinu munu leikmenn hverfa inní sögusvið bókana, taka þátt í stórfenglegum styrjöldum og stýra hetjum og hermönnum til sigurs gegn andstæðingum sínum.

Í spilinu munu leikmenn hverfa inní sögusvið bókana, taka þátt í stórfenglegum styrjöldum og stýra hetjum og hermönnum til sigurs gegn andstæðingum sínum.

Síðan 1996 hafa lesendur og aðdáendur bókanna orðið ástfangnir af heimi Westeros og Essos og þeim persónum sem fylla þennan söguheim. Hið nýja spil mun gera leikmönnum kleift að taka þátt í þeirri valdabaráttu sem á sér stað og leiða sínar uppáhalds hetjur til enn frekari dáða. Lögð verður áhersla á einfaldar reglur en mikla herkænsku svo leikmenn ættu að geta hellt sér út í herbröltið sem fyrst!

Jim Ludwig, stofnandi og forstjóri Dark Sword tjáði sig um samstarfið sem varð til þess að hönnun fór af stað. „Ég hef verið mikill aðdáandi CMON síðan 2004. Sérþekking þeirra í hönnun og framleiðslu tindáta er framúrskarandi og reynsla þeirra úr bæði borðspilum og tindátaleikjum tala sínu máli. Ekki aðeins eru tindátarnir augnakonfekt heldur er einnig gaman að leika sér með þá svo það auðveldaði valið þegar kom að vali samstarfsaðila.

Stjórnandi og stofnandi CMON, David Douster útskýrir: „Samstaf CMON og Dark Sword nær aftur um áratug. Við höfðum íhugað nánara samstarf í mjög langan tíma. Þetta verkefni gerði okkur kleift að kafa dýpra í hugarheim George R.R Martin og endurskapa þá epísku bardaga, úr hans margverðlaunuðu bókum, í borðspilaformi

Spilið kemur með fyrifram samsettum tindátum úr hágæða plasti sem tákna hinar ýmsu ættir úr bókunum og munu leikmenn geta stjórnað hetjum eins og Robb Stark og Jamie Lannister. Auk þess get leikmenn endurskapað ýmsa bardaga úr bókunum eða skapað sína eigin sögu. Hvað ef hið Rauða Brúðkaup (e.Red Wedding) hefði aldrei átt sér stað? Eða ef Robb Stark hefði skyndilega marserað til King’s Landing? Það er undir leikmönnum að komast að!

Bardagarnir geta verið allt frá epískum bardögum með hundruðum tindáta eða niðrí smærri viðureignir, allt án þess að flækja reglurnar. Spilið mun innihalda ýmiskonar kerfi sem munu halda leikmönnum á tánum s.s Goggunarkerfi (e. Rank system) sem breytir hæfileikum hermanna eftir því sem líður á bardagann, herkænskukerfi (e.Tactics system) sem krefst þess að leikmenn nýti sér takmarkaðar auðlindir til að hafa áhrif á framvindu bardagans og sjálfsögðu hetjur eins og Robb Stark og Jamie Lannister sem geta haft áhrif innan sem utan vallar!

Nánari upplýsinga má vænta um A Song of Ice and Fire: Tabletop Miniatures Game: Starks vs. Lannisters Starter Set síðla árs 2017 á Kickstarter!

Bætt við 17. mars 2017 kl. 7:24:

Rodney Smith sem sér um „Watch it Played“ streymisrásina á YouTube var staddur á GAMA Trade Show þar sem hann kynnti sér spilið nánar og birti rúmlega fjögurra mínútna myndband þar sem betur er farið í saumana á spilinu.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑