Spil

Birt þann 13. mars, 2017 | Höfundur: Þóra Ingvarsdóttir

Spilarýni: Terror in Meeple City – „ærslafullt eyðileggingarspil“

Spilarýni: Terror in Meeple City – „ærslafullt eyðileggingarspil“ Þóra Ingvarsdóttir

Samantekt: Terror in Meeple City er ærslafullt eyðileggingarspil sem getur hentað fullorðnum jafn vel og það hentar börnum. Litríkt og hresst en krefst samt hugsunar.

4

Ærslafullt


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Hvern hefur ekki innst inni dreymt um að fá að prófa að vera eitt af skrímslunum sem hafa gegnum kvikmyndasöguna herjað á stórborgir og lagt þær í rúst? Höfundar borðspilsins Terror in Meeple City (einnig þekkt sem Rampage), gefið út af Repos Production fyrir nokkrum árum, kannast a.m.k. greinilega við þá tilfinningu.

2 til 4 spilarar taka að sér hlutverk skrímslis sem vill leggja í rúst borgina Meeple City og éta íbúa hennar. Svona eins og skrímsli gera.

Hver spilari velur sér skrímsli og fær handahófskennt úthlutað einum opinberum hæFileika og einum leyndum hæfileika, sem er oft öflugri en sjaldnar hægt að nota. Spilaborðið er stórt og getur tekið þó nokkurn tíma í uppsetningu, þar sem það inniheldur m.a. „byggingar“ sem samanstanda af margra hæða stöflum af tréfígúrum (meeples) og pappareitum. Skrímslin skiptast síðan á að reyna að eyðileggja eins margar byggingar og fella eins margar fígúrur og þau geta, en felldar fígúrur teljast étnar af skrímslinu sem felldi þær svo lengi sem þær lenda á opnu svæði. Spilarar hafa um margar mismunandi aðferðir að velja þegar kemur að eyðileggingunni, m.a. að láta skrímslafígúruna sína detta ofan á byggingar úr mikillri hæð, blása á spilaborðið, og henda lausum hlutum úr borginni í aðra hluta hennar. Einnig er í góðu lagi að ráðast á hin skrímslin, þar sem þeim gengur verr að éta fígúrur eftir því hve oft hefur verið ráðist á þau. Eftir að borgin hefur verið lögð algjörlega í rúst telja spilarar síðan saman stigin sín eftir því hversu margar byggingar þeir hafa eyðilagt og hversu fjölbreytt litaúrval af fígúrum þeir hafi étið (fjölbreytt matarræði skiptir jú máli fyrir skrímslin eins og fyrir okkur öll), og stigahæsti spilarinn vinnur.

Terror in Meeple City mætti lýsa sem ærslafullu spili sem getur hentað fullorðnum jafn vel og það hentar börnum. Hins vegar þarf vissulega ákveðna týpu af spilara til að hafa gaman af að setja hökuna ofan á litríkt tréskrímsli og reyna að blása um koll stafla af pappa- og tréfígúrum. Það er ekki víst að spilið henti öllum jafnt, því minni þolinmæði sem manneskjan hefur fyrir fíflalátum, þeim mun minna gaman mun hún líklega hafa af spilinu. Minna skemmtilegar afleiðingar þess að vera að henda fígúrum út um allt eru líka þær að hlutir munu stöðugt vera að fara í gólfið, sem getur hægt á spilun og jafnvel orðið pirrandi.

Þó það geti verið kaotískt gilda samt fjölmargar reglur um hvað maður megi gera og hvar og hvenær,

Ef spilararnir eru hins vegar til í að leyfa sínu innra barni að njóta sín er Terror in Meeple City alveg stórskemmtilegt spil. Þó það geti verið kaotískt gilda samt fjölmargar reglur um hvað maður megi gera og hvar og hvenær, þetta snýst alls ekki bara um að grýta tréfígúrum hverri í aðra. Spilurum með strategíu mun ganga mun betur en þeim sem eru bara að taka þátt til að fá afsökun fyrir að henda hlutum í gólfið. Það gefur síðan augaleið að spilið er einnig frábært fjölskylduspil.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑