Leikjarýni

Birt þann 21. ágúst, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Leikjarýni: No Man’s Sky – „Óslípaður demantur“

Leikjarýni: No Man’s Sky – „Óslípaður demantur“ Steinar Logi

Samantekt: No Man's Sky er fantagóð, afslappandi afþreying þrátt fyrir yfirhæpið og nokkrar rispur á húddinu.

4

Óslípaður demantur


Einkunn lesenda: 2.3 (3 atkvæði)

Fyrir þá sem ekki þekkja til No Man’s Sky þá byggist hann á því að þú ert í risastórum alheimi með 18 kvintilljónir plánetna og tungla sem skapast við uppgötvun þ.e.a.s. þegar leikmaðurinn lendir á plánetu þá ertu sá/sú fyrsta sem sérð hana, ekki einu sinni þróunarteymið hefur séð þessa plánetu. Ef einhver kemur seinna á þessa sömu plánetu þá sjá þeir hana eins og þú sást hana í fyrsta sinn. Þetta kallast „procedurally generated“ þar sem heimurinn er skapaður útfrá stærðfræðiformúlu. Þannig að ef þú ert þessi leikjatýpa sem vilt skoða áður óþekkta hluti þá ætti NMS að slökkva þorstann lengi vel en fyrir þá sem vilja eitthvað til að stefna að þá er hægt að læra geimverutungumál, námuvinna frumefni, safna fjársjóðum sem hægt er að selja og stefna að betra geimskipi, geimbúningi og geimbyssu. Það er hægt að rannsaka allt dýra- og/eða plöntulíf á plánetunum og drepa það fyrir frumefni (fyrir friðarsinnana þá er hægt að mata sum dýrin). Það eru geimbardagar og margar plánetur eru vaktaðar af svokölluðum „Sentinels“ sem eru vélar sem haga sér eins og löggur. Svo er líka lauslegur söguþráður sem maður getur valið að fylgja sem svarar spurningum um þennan alheim. En að langmestu leyti er þetta einfaldlega geimkönnunarleikur (space exploration).

NMS_01

Smátt og smátt byrjaði ég að elska No Man’s Sky þrátt fyrir gallana

Dálítið fyndið gerðist þegar ég spilaði leikinn meira eftir að hafa skrifað um fyrstu hughrif. Í stað þess að verða smátt og smátt leiður á honum og pirraður eins og margir kollegar mínir (og hann er ekki gallalaus, ekki misskilja það) þá byrjaði ég að…elska No Man’s Sky. Ég elska tilfinninguna að koma inn í nýtt sólkerfi, setja skannerinn í gang og byrja að meta pláneturnar og tunglin í kringum mig út frá litnum úr fjarlægð. Ég elska að lenda á plánetu og fá stutta skýrslu um andrúmsloftið og aðstæður og útfrá því metið hvort hún gæti verið gróðvænleg eða einfaldlega skemmtileg að skoða. Ég elska hraðann, að geta ferðast mörg ljósár á örstundu og þá staðreynd að ég er að sjá allt sem ég uppgötva í fyrsta sinn af öllum sem eru að spila leikinn. Ég elska að uppgötva ný dýr og þau eru alls ekki eins einsleit og maður hélt í fyrstu; það er ekki gefið að dýralíf sé á hverri plánetu og maður er enn að sjá nýja hluti. Eftir að hafa spilað um 40-50 tíma þá sá ég hoppandi svepp. Hoppandi. Svepp. Það er engin furða að það er kominn grúppa á reddit sem heitir No Man’s High. Ég elska svo margt við þennan leik þrátt fyrir gallana. Þetta er leikurinn sem ég vel til að slappa af eftir langan vinnudag og núna kemst bara enginn leikur nálægt honum. Þetta er mitt Zen eins og er.

Málið með NMS er að einhvers staðar í öllu hæpinu týndist hvernig leikur þetta raunverulega er. Margir aðdáendur bjuggust við allt öðru en þróunarteymið hafði lofað og ef maður skoðar gömul viðtöl þá hafa Hello games (yfirleitt Sean Murray) reynt að draga úr væntingum og talað um indíleik, jaðarleik og geimkönnunarleik (space exploration) og ekki verið að lofa neinu rosalegu, það skrifast frekar á markaðsteymi Sony. En þeir eru ekki alsaklausir og hafa sagt sumt sem fólk greip og varð hrifið af, fólk sem hefði ekki endilega forpantað leikinn annars, hugsanlega því þeir héldu að þeir gætu gert eitthvað aðeins meira. Þannig að það eru margar hliðar á þessu. Niðurstaðan er sú að aldrei kaupa köttinn í sekknum, fyrst þarf að skoða köttinn og sjá hvort þér líki við hann. Hello Games eru bara 15 manns þrátt fyrir að hafa Sony á bak við sig sem útskýrir takmarkanir en hafa samt gefið út einstakan indíleik sem er með fókus á að skoða heilan alheim af plánetum og tunglum. Inn í allt þetta spinnst líka hvort leikurinn sé 60$ virði en hann virðist vera aðeins ódýrari hér á landi en flestir nýjir leikir.

Hello Games hafa lofað áframhaldandi stuðningi við leikinn

Eins og margir hafa bent á þá er No Man’s Sky ekki gallalaus, tökum saman smá lista:

  • Tæknileg vandamál; meira á PC en PS4 en það kom uppfærsla þann 18.8 sem á að hafa lagað það versta skv. Hello Games. Sjálfur fann ég mun til hins betra á PS4 útgáfunni eftur uppfærsluna en maður heyrir að PC útgáfan líti betur út.
  • Viðmótið er ekki nógu notandavænt, sumt sem ruglar notandann eins og að þurfa halda inni takka í eina sekúndu til að framkvæma eitthvað. Það er tímafrekt að skipta upp hlutum til að selja eða halda því maður þarf að halda inni takka í langan tíma ef maður hefur t.d. yfir 1000 einingar í stað þess að skrifa beint inn fjöldann.
  • Vegvísar hafa ruglað fjöldamarga (þ.á.m. gagnrýnanda Ars Technica) en það er hreinlega ekki hægt að eyða út vegvísi sem er fáránlegt. Gamlir vegvísar safnast því upp ef maður lýkur ekki ákveðnum takmörkum og koma í veg fyrir nýja ef þeir ná upp í fimm. Vegvísar beina manni t.d. að miðju alheimsins eða svokölluðum Atlas-hliðum (sem er óbeint söguþráður leiksins)
  • Maður er að uppgötva sömu uppskriftir aftur og aftur og það er alger tímaeyðsla að láta gluggann fyrir uppskrift sem maður þekkir betur poppa upp í hvert sinn sem maður leitar.
  • Það hefur verið mikið kvartað undan geimorrustum og hlutastjórnun (inventory management) semsagt að þegar maður byrjar leikinn þá er erfitt að eiga við hvoru tveggja. Óvinaskip fara létt með að tæta skipið þitt í sundur í byrjun og það er erfitt að fylgja þeim eftir. Hlutir taka strax upp allt plássið sem þú hefur í byrjun og þú ert iðulega með áhyggjur af hverju þarf að henda. Hvort tveggja hefði mátt gera betur en þetta verður mun viðráðanlegra eftir því sem maður sankar að sér uppfærslum og spilar leikinn áfram Ég get ekki beint litið á þetta sem galla því að leikurinn er að hluta til „survival“ leikur. Það myndi samt ekki koma á óvart að Hello Games myndi draga úr þessum byrjunarörðugleikum því að fyrstu viðbrögð spilara er oft ekki góð.
  • Leikurinn verður einsleitur fljótlega. Þarna er ég bæði sammála og ósammála. Auðvitað mun leikur sem er með þennan fjölda staða sem eru skapaðir á staðnum út frá stærðfræðiformúlu endurtaka sig. En miðað við það þá hafa Hello Games staðið sig vel í þessum efnum sb. þá staðreynd að fólk er enn að sjá ný útlit á lífverum. Ef þú ert spilari sem hefur gaman af svona leikjum þá endist hann lengur því að þú ert að koma á móti honum með þitt eigið ímyndunarafl. Aðrir þurfa eitthvað meira sem er í fínu lagi. Fyrir undirritaðan þá gengur þetta upp og ég hef þegar eytt meiri tíma í leikinn en í mörgum öðrum stórleikjum á sama verði og mun gera það áfram, sérstaklega ef stuðningur heldur áfram við leikinn eins og líklegt er (hugsanlega slær Star Citizen hann út í framtíðinni miðað við síðasta demo-ið)

NMS er með ýmsa galla, marga sem ætti að vera hægt er að laga í uppfærslum

Ofangreinda galla er hægt að endurbæta í uppfærslum og Hello Games hafa lofað áframhaldandi stuðningi við leikinn (en einhver orðrómur er um DLC sem mun kosta). Þetta er þannig leikur að það er hægt að halda honum lifandi lengi vel með viðbótum, rétt eins og til dæmis Minecraft þegar það byrjaði. Það verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni því að þrátt fyrir að hafa fengið misjafnar viðtökur þá sýna tölur og athugasemdir frá Hello games að það eru ansi margir að spila hann.

NMS_02

No Man’s Sky er ekki leikur fyrir alla. Fyrir suma þá er hann óslípaður demantur (undirritaður er í þessum hópi) en fyrir aðra þá er hann allt niður í ofmetið rusl en margir lenda einhvers staðar á milli. Ef maður vill afslappandi leik með hreint frábærri tónlist 65daysofstatic (fór strax í mitt topp 10 leikjatónlist) þar sem maður getur skoðað heilan alheim á geimskipinu sínu ásamt ýmsu öðru til að dunda sér við þá mæli ég með þessum. Það er ekki hægt að gefa honum fullt hús af stjörnum, enda ekki gallalaus, en hann fær fjögur stykki.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑