Birt þann 10. apríl, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins
Kvikmyndarýni: Coherence – „Lítil fersk mynd með stórar hugmyndir“
Samantekt: Lítil fersk mynd með stórar hugmyndir og nær að halda haus. Litla myndin sem getur.
4
Óvænt
Ódýr mynd frá 2013 í anda gamals Twilight Zone þáttar
Undanfarin sirka tíu ár hafa komið út ansi óvæntar og góðar vísindaskáldskapsmyndir úr sjálfstæða geiranum á borð við The Triangle, Another Earth og Time Lapse. Allar þessar myndir eiga það sameiginlegt að vera byggðar á ansi stórum hugmyndum þrátt fyrir að í flestum tilfellum eru þetta sögur um fólk sem ákveður að taka örlögin í sínar eigin hendur þegar ótrúlegir hlutir gerast – og oftar en ekki uppskera það sem þau sáðu eftir hvaða hugarfari þau framkvæmdu sínar ætlanir.
Coherence er lítil mynd þar sem 8 manneskjur hittast í matarboði til þess að freista þess að sjá halastjörnu um nóttina. Ekki líður á löngu áður en að rafmagnið fer af og þau sjá að aðeins eitt hús í götunni er með rafmagn. Tveir úr hópnum athuga málið og það sem þeir koma með til baka á eftir að draga dilk á eftir sér.
Þetta er ein af þessum myndum þar sem það er synd að segja of mikið um söguþráðinn svo maður eyðileggi ekki söguna fyrir fólki.
Þetta er ein af þessum myndum þar sem það er synd að segja of mikið um söguþráðinn svo maður eyðileggi ekki söguna fyrir fólki. En eins og góðar sögur, þá snýst þetta ekki um vísindaskáldskapinn heldur manneskjurnar í veislunni. Oft eru það þessar stóru hugmyndir sem við tengjum okkur við en hér náum við einnig að tengja við persónurnar og það er gleðiefni því oft er frekar einblínt á tæknilegu hliðina í staðinn fyrir sálfræðilegu hliðina.
Hún var tekin á 5 dögum með 2-3 myndavélum og því kemur ekki á óvart að skot eru úr fókus eða á hreyfingu hér og þar.
Á R2-DVD disknum frá Metrodome er að finna stiklur (sem hægt er að sleppa að horfa á) fyrir myndirnar Upstream Color og The Borderlands, áður en að aðalvalmyndin birtist. Það er nú voðalega lítið hægt að segja um útlit myndarinnar þar sem þetta er frekar ódýr lítil mynd. Hún var tekin á 5 dögum með 2-3 myndavélum og því kemur ekki á óvart að skot eru úr fókus eða á hreyfingu hér og þar. Eina sem kemur á óvart er hversu gul myndin lítur út en þetta hefur meira að gera við lýsinguna innandyra og myndavélarnar sem voru notaðar. Tvær hljóðrásir eru í boði, 5.1 Dolby Digital og 2.0 Stereo; lítill munur er á þeim en 5.1 rásin er náttúrulega opnari en hin. Lítið er um aukaefni en það sem er á boðstólnum dugar alveg, stutt 10 mínútna viðtöl við aðstaðendur myndarinnar og umtal leikstjóra ásamt tveimur leikurum myndarinnar. Þar kemur fram hversu stuttan tíma þau höfðu og stærðin á tökuliðinu var eftir því. Myndin var meira og minna tekin án handrits og hékk þetta því á leikurunum að notast við stikkorð frá leikstjóranum fyrir hvern tökudag.
Lítil fersk mynd með stórar hugmyndir og nær að halda haus. Litla myndin sem getur.
STIKLA ÚR COHERENCE
Jósef Karl Gunnarsson