Leikjarýni

Birt þann 15. ágúst, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

Leikjarýni: Fallout Shelter

Leikjarýni: Fallout Shelter Nörd Norðursins

Samantekt: Stutt skemmtun. Leikurinn er of einfaldur og einhæfur til að halda manni áhugasömum.

2.5


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Bjarki Þór Jónsson skrifar:

Í fyrradag lenti Fallout Shelter á Google Play fyrir Android snjalltæki. Leikurinn hefur verið aðgengilegur á App Store fyrir iOS tæki í um tvo mánuði, eða allt frá því Bethesda tilkynnti um útgáfu leiksins á E3 tölvuleikjasýningunni í júní 2015. Leikurinn hefur verið að fá glimmrandi dóma á þeim stutta tíma sem hann hefur verið aðgengilegur á Google Play – en er Fallout Shelter tímans virði?

Byrjum aðeins á því að fara yfir markmið leiksins. Í Fallout Shelter hefur allt farið til fjandans. Kjarnorkusprengjur hafa sprungið, ofvaxnir kakkalakkar ganga um jörðina og geislavirkni og óreiða frussast um allt í þessum kalda og harða Fallout heimi. Þarna eru aðeins þeir hæfustu sem ná að lifa af. Nokkur neðanjarðarbyrgi hafa verið byggð til þess að hlífa völdum eftirlifendum og í leiknum fer spilarinn með hlutverk „overseer“, en það er sá sem stjórnar og hefur umsjón með slíku neðanjarðarbyrgi. „Overseer“ þarf að ákveða hverjir fá að koma inn í byrgið og hvernig kröftum íbúa þess sé best varið. Spilarinn þarf að stækka byrgið svo pláss sé fyrir mannskapinn og á sama tima sjá til þess að nóg sé til af vatni, mat og rafmagni.

Fallout_Shelter_02

Ekki eru allir íbúar eins og hægt að fletta hæfileikum fólks upp í sérstökum S.P.E.C.I.A.L. hæfileikaskala. Hæfileikarnir segja til um hvaða svið hentar þeim best. Til dæmis er gott að vera með hátt í I (sem stendur fyrir „intelligence“, eða „gáfur“) þegar verið er að búa til lyf og gott að vera með hátt í A (sem stendur fyrir „agility“, eða „lipurð“) þegar verið er að framleiða mat. Spilarinn þarf sumsé að segja fólki hvað það á að gera og reyna að raða því eftir S.P.E.C.I.A.L. hæfileikaskalanum til að áorka sem mestu. Íbúum byrgisins fjölgar með tímanum, meðal annars bankar nýtt fólk á hurðina hjá þér í þeirri von um að fá að komast inn, en auk þess geta íbúar fjölgað sér með rómantískum heimsóknum í svefnherbergi neðanjarðarbyrgisins.

Fallout_Shelter_03

Nú hef ég spilað leikinn í um það bil tvo mánuði og var nokkuð spenntur til að byrja með en var þó ekki með miklar væntingar. Til að byrja með er allt svo nýtt og þar sem ég er mikill Fallout 3 aðdáandi fannst mér þetta heldur spennandi og áhugaverð leið til að stytta biðina eftir Fallout 4. Leikurinn verður því miður mjög fljótt einhæfur.

Leikurinn er nokkuð áhugaverður til að byrja með vegna þess að þá þarf spilarinn að hafa fyrir því að lifa af og gera íbúana hamingjusama. Af og til eru gerðar árásir á byrgið og er þá nauðsynlegt að bregðast hratt við svo fólkið þitt verði ekki drepið. Einnig geta risavaxnir kakkalakkar ráðist inn til þín og þarf að slátra þeim eins fljótt og hægt er. Eftir því sem fleiri búa í byrginu því fleiri tegundir af herbergjum er hægt að byggja í byrginu. Í byrjun er aðeins hægt að byggja örfá herbergi en með tímanum verða íbúarnir fleiri og herbergin sömuleiðis. Hægt er að senda íbúa í leiðangur út í hinn hættulega heim utan byrgisins í leit að vopnum og öðrum birgðum – og ef spilarinn er óþolinmóður er hægt að kaupa nestisbox (sem kosta raunpeninga) sem innihalda vopn, brynjur, nýjar persónur og fleira. En um leið og spilarinn nær góðum tökum á leiknum hættir hann að vera krefjandi og verður í framhaldi þess fljótt óspennandi.

En um leið og spilarinn nær góðum tökum á leiknum hættir hann að vera krefjandi og verður í framhaldi þess fljótt óspennandi.

Spilun leiksins minnir svolítið á Farmville þar sem nauðsynlegt er að hafa nóg af öllu til að geta haldið áfram og stór hluti leiksins fer einfaldlega í að smella endalaust á hluti. Í Fallout Shelter er það íbúafjöldinn sem skiptir máli þar sem íbúafjöldinn opnar fyrir ný herbergi og á sama tíma eflir framleiðslugetu byrgisins. Flest herbergin framleiða eitthvað (á meðan fólk er í því) og til þess að sækja framleiðnina þarf spilarinn að smella á herbergið. Það getur tekið frá nokkrum sekúndum yfir í nokkrar mínútur þar til framleiðni herbergsins er tilbúin og hægt er að sækja hana. Þegar herbergin eru orðin mörg er gífurlega einhæft og þreytandi að smella endalaust á öll herbergin, aftur og aftur, til þess að sækja framleiðsluna. Það er þá sem Fallout Shelter hættir að vera áhugaverður. Leikurinn nær í raun aldrei að verða skemmtilegur, en getur haldið spilaranum áhugaverðum um tíma. Þegar eini tilgangur leiksins er að smella á skjáinn, aftur, aftur, aftur og aftur, án þess að ein heilasella þurfi að vakna, þá er maður ekki lengi að slökkva á leiknum og spila eitthvað annað.

Fallout_Shelter_01

Leikurinn er aftur á móti ókeypis (nestisboxin kosta peninga) svo það sakar ekki að prófa hann. Ég mæli með því að sækja leikinn, prófa hann og spila á meðan hann heldur þér áhugasömum. Þetta er leikur sem þú spilar í 5-10 mínútur í einu þar sem það er voðalega lítið hægt að gera í honum. Til að byrja með opnaru leikinn nokkrum sinnum á dag en með tímanum verða heimsóknirnar færri og leikurinn verður einhæfari og hættir að vera áhugaverður. Það getur verið spennandi og skoða nýja hluti, gefa fólkinu þínu ný vopn, byggja ný herbergi og para fólk saman í rúmleikfimina. En eftir það hefur leikurinn lítið sem ekkert upp á að bjóða.

Þar sem hann er ókeypis mæli ég með því að prófa leikinn og spila hann á meðan hann heldur þér við efnið, eftir það skaltu henda honum út og ekki spila hann aftur – svona áður en hann nær að tengja Fallout við eitthvað leiðinlegt.

Niðurstaðan er þessi: Fallout Shelter á sín móment en er yfir höfuð ansi slappur. Hann er ókeypis svo það sakar ekki að sækja hann en ég mæli ekki með því að eyða peningum í nestisbox (sjálfur keypti ég þrjú nestisbox og sá strax eftir því). Það er spennandi að fá að heimsækja Fallout heiminn og nálgast neðanjarðarbyrgin frá öðru sjónarhorni en í klassísku Fallout leikjunum, en gamanið endist stutt. Þar sem hann er ókeypis mæli ég með því að prófa leikinn og spila hann á meðan hann heldur þér við efnið, eftir það skaltu henda honum út og ekki spila hann aftur – svona áður en hann nær að tengja Fallout við eitthvað leiðinlegt.

Ekki gefa þér miklar vonir þrátt fyrir fimm stjörnu einkunnir á Google Play. Leikurinn er of einfaldur og einhæfur til að halda manni áhugasömum í lengri tími, en virkar ágætilega sem leikur til að grípa í rétt fyrir svefninn nokkur kvöld í röð.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑