Fréttir

Birt þann 23. mars, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

EVE Fanfest 2015: Nýjar uppfærslur fyrir EVE Online

Uppfærslukerfi EVE Online

Lengi vel var EVE Online uppfærður aðeins nokkrum sinnum á ári með heldur stórum uppfærslupökkum. Í fyrra tilkynnti CCP, á Fanfest, að þessu uppfærslu módeli yrði breytt og undanfarið ár hafa uppfærslurnar verið mun fleiri og mun minni. Með þessu hefur fyrirtækinu tekist að uppfæra leikinn hratt og örugglega og komið til móts við þarfir spilara á mun skilvirkari hátt en áður.

CCP segir að nýja módelið sé mun hentugra en það eldra og gefi þeim meiri sveigjanleika og ætli því að halda áfram á sama spori. Það getur þó verið erfitt fyrir EVE spilara að átta sig á því hvaða uppfærslur eru væntanlegar þegar nýir uppfærslupakkar koma á fimm vikna fresti. Þess vegna hefur fyrirtækið opnað slóðina updates.eveonline.com þar sem spilarar geta með auðveldum hætti séð hvaða uppfærslur eru væntanlegar. CCP mun auk þess vera með enn fleiri uppfærslur (þ.e.a.s. á milli þessara föstu uppfærslna á fimm vikna fresti) sem inniheldur ný útlit (skins) og minni hluti.

Ítarlegri tölfræði

EVE spilarar geta nú nálgast mun ítarlegri tölfræði (stats) en áður um sig sjálfa sem spilarar. CCP kynnti gífurlegt magn upplýsinga, allt frá skaða (hit points) yfir í samskipti milli spilara (social), og kynnti til sögunnar nokkrar steríótýpur sem má finna í leiknum; þ.á.m. pró spilarana sem spila leikinn mjög mikið og fókusa á alla þá þætti sem leikurinn hefur upp á að bjóða og samfélagsspilara sem spila leikinn heldur lítið og eru þarna fyrst og fremst til að hitta og spjalla við vini sína.

Bjóða nýja spilara velkomna

CCP hefur unnið hörðum höndum að því að aðstoða nýja spilara í EVE Online með því að bjóða upp á aðstoð og æfingaverkefni (tutorials) sem að spilarinn getur fylgt – en eins og margir vita er EVE Online þekktur fyrir að vera heldur flókinn og erfiður miðað við marga aðra MMO leiki. Fyrirtækið ætlar að halda áfram að betrumbæta umhverfið fyrir nýja spilara. Einn af þeim þáttum er að stytta tímann sem tekur nýjan spilara að byrja leikinn. Það er algengt að það taki nýjan spilara u.þ.b. eina klukkustund að byrja leikinn fyrst, þ.e.a.s. niðurhala leiknum og kveikja á honum. Bráðlega mega nýir spilarar gera ráð fyrir því að þessi tími styttist í 5-10 mínútur þar sem EVE mun aðeins niðurhala nauðsynlegum pörtum úr leiknum til að byrja með, í stað þess að sækja stór svæði sem spilarinn mun mögulega aldrei heimsækja.

Uppfærsla á útliti geimskipa

Síðar á þessu ári verður hægt að nálgast fjölda nýrra útlita á geimskipin í hágæða upplausn. Með þessu móti fá spilarar meira frelsi til að breyta geimskipinu sínu. 102 ný útlit (skins) eru væntanleg svo það verða 130 mismunandi útlit í boði frá og með 28. apríl næst komandi.

Ný stikla

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑