Fréttir

Birt þann 23. mars, 2015 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

EVE Fanfest 2015: EVE: Valkyrie spilaður

CCP bauð gestum EVE Fanfest að prófa EVE: Valkyrie, en leikurinn er enn í vinnslu og má gera ráð fyrir því að leikurinn komi á markað á svipuðum tíma og Oculus Rift og Sony Morpheus sýndarveruleikagleraugun koma á markað, á þessu eða næsta ári. Á bilinu 1.300 – 1.400 manns prófuðu leikinn á Fanfestinu í ár og virtust viðbrögð spilara yfir höfuð vera mjög jákvæð.

Kristján S. Einarsson er einn þeirra sem prófaði leikinn á laugardaginn og voru þetta hans viðbrögð við leiknum:

Þetta er mjög flottur leikur sem minnir mann á gömlu góðu dagana, leiki á borð við Wing Commander og Descent: FreeSpace. Gleraugun gera mann þó ákaflega sjóveikann.

Undirritaður prófaði leikinn í fjórða sinn á þessu Fanfesti. Það má vissulega segja að leikurinn verði sífellt betri og grafíkin flottari með hverri útgáfu þó svo að leikurinn sé enn á vinnslustigi (pre Alpha) eins og má sjá á þessu nýja sýnishorni úr leiknum sem var frumsýnt á Fanfestinu í ár. Eftir að hafa spilað EVE: Valkyrie í þessar þrjár mínútur sem voru í boði er ekki annað hægt að segja en að það verði spennandi að fylgjast afram með þróun leiksins. Á þessum þremur mínútum hvaddi maður veruleikann um leið og gleraugun voru sett á mann og tók þess í stað þátt í hröðum og skemmtilegum geimbardaga. Leikurinn er flottur og er einstaklega auðvelt að læra á stjórntakkana, en spilarinn getur valið á milli þess að skjóta beint áfram með hefðbundnum byssum á geimskipinu eða nota eltisprengur þar sem nauðsynlegt er að læsa miði á andstæðinginn með því að notast við sýndarveruleikagleraugun. Það er takmarkað sem maður nær að gera í leiknum á þremur mínútum en það sem ég hef séð lofar mjög góðu.

Til gamans má geta að þá var keppt í EVE: Valkyrie á Fanfest í ár sem var fyrsta VR leikjamótið sem var sýnt í beinni útsendingu.

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑