Bækur

Birt þann 31. október, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

5 hrollvekjandi barna- og unglingabækur á íslensku

Í tilefni þess að Allraheilagramessa er gengin í garð setti ég saman lista af nokkrum hrollvekjandi bókum fyrir yngri kynslóðina. Listinn er ekki settur upp í neinni sérstakri röð.

 

1. Kóralína e. Neil Gaiman (2004)

KoralinaKóralína er fyrsta bókin sem hinn þekkti höfundur Neil Gaiman skrifar fyrir börn. Kóralína er nýflutt með foreldrum sínum í íbúð sem hefur tuttugu og níu glugga og fjórtán dyr. Að þessu kemst Kóralína þegar hellirignir og hún getur ekki verið úti. Þrettán dyranna er hægt að ganga í gegnum en þær fjórtándu opnast að hlöðnum vegg. Einu sinni þegar Kóralínu leiðist opnar hún dyrnar og veggurinn er horfinn. Í stað hans blasir við íbúð alveg eins og hennar – eða næstum því. Þangað inn stígur Kóralína og um leið inn í skrýtinn heim sem erfitt reynist að losna úr. Margverðlaun og spennandi bók sem fær hárin til að rísa.

 

2. Garðurinn e. Gerði Kristnýju (2008)

GardurinnEyju bregður þegar hún lítur út um gluggann á nýju íbúðinni og sér að hinum megin við götuna breiðir gríðarmikill kirkjugarður úr sér, fullur af legsteinum og krossum. Þvílíkir nágrannar! Þó verður ástandið fyrst svart þegar pabbi hennar kaupir brúna leðurstólinn í antíkbúðinni niðri í bæ. Foreldrum hennar finnst hann algert æði en Eyja finnur strax að stólnum fylgir eitthvað sem er óvelkomið inn á heimilið – eitthvað vont. Gerður Kristný hlaut barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins árið 2010 fyrir þessa dularfullu og draugalegu bók.

 

3. Draugaslóð e. Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (2007)

DraugaslodEyvindur Þóruson og amma hans búa ásamt tveimur köttum í gömlum bústað við Elliðavatn. Þar hefur lífið gengið sinn vanagang þau þrettán ár sem Eyvindur hefur lifað en nú liggur eitthvað í loftinu. Sami magnaði draumurinn sækir aftur og aftur að Eyvindi – þar æða trylltir hestar um í þoku, jörðin opnast, hverir gjósa og kofar brotna í spón. Örlögin leiða Eyvind upp á öræfi þar sem hann fetar magnaða draugaslóð á vettvangi Fjalla-Eyvindar, Reynistaðarbræðra og síðast en ekki síst nýliðinna atburða sem hann sogast inn í án þess að fá nokkru um það ráðið. Draugaslóð er spennandi saga þar sem nútíð og fortíð fléttast saman.

 

4. Rökkurhæðir e. Mörtu Hlín og Birgittu Elínu (2011-2013)

RokkurhaedirUndir Rökkurhæðunum kúrir úthverfi borgarinnar Sunnuvíkur. Einhvern veginn gerðist það að nafnið festist við hverfið, líklega vegna þess hversu vel það á við. Rökkurhæðir hvíla jú að stórum hluta í skugganum af hæðunum. Þar uppi, í hvarfi frá hverfinu, stendur sundurtætt fjölbýlishúsalengja. Enginn veit með vissu hvað gerðist þarna upp frá – yfirnáttúrulegir atburðir segja sumir, hryðjuverk segja aðrir – en eitt er víst: upp í Rústir mega krakkarnir ekki fara! Rökkurhæðir er bókaflokkur þar sem hver bók er sjálfstæð frásögn sem deilir sögusviði, nú þegar hafa komið út fimm bækur; Óttulundur, Rústirnar, Kristófer, Ófriður og Gjöfin. Sögusviðið er byggt á sögusviði Barnanna í Húmdölum eftir Jökul Valsson en sú bók er síðasta bókin á listanum.

 

5. Börnin í Húmdölum e. Jökul Valsson (2004)

Bornin_i_HumadolumÞað er eitthvað undarlegt á seyði í Húmdölum, blokkinni sem rís eins og kastali í jaðri borgarinnar. En þau einu sem virðast taka eftir því eru börnin. Þau heyra uggvænleg hljóð berast úr veggjum og skápum barnaherbergjanna og verða vör við ýmsar breytingar og óskiljanlega atburði hér og hvar í blokkinni. Allt virðist þetta tengjast dularfulla, einræna stráknum sem býr hjá ömmu sinni á efstu hæð í stigagangi númer átta. Fullorðna fólkið lætur hins vegar eins og ekkert sé og börnin eiga ekki annarra kosta völ en að snúa bökum saman og horfast í augu við ógnina. Börnin í Húmdölum, sem dregur greinilega innblástur frá H.P. Lovecraft, var ekki markaðsett sem barna- og unglingabók og er ekki hæf fyrir mjög unga lesendur. Unglingar ættu þó að geta haft gaman að henni enda er bókin spennandi og hrollvekjandi.

 

Takið nú fram hrollvekju, komið ykkur fyrir upp í sófa með teppi og hræðið úr ykkur líftóruna!

 

Forsíðumynd: Rökkurhæðir – Rústirnar

 

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑