Íslenskt

Birt þann 18. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Gufupönkhátíð í Bíldalíu – Viðtal við Ingimar Oddsson

Ingimar Oddsson

Ingimar Oddsson

Helgina 27.-29. júní verður fyrsta gufupönkhátíð Íslands haldin í ævintýralandinu Bíldalíu, sem í daglegu máli gengur undir nafninu Bíldudalur. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og hentar allri fjölskyldunni. Meðal annars verður boðið upp á tónleika, hlöðudansleik, íþróttamót, hjólaburtreiðar, sirkus og að auki verður markaður á svæðinu. Á lokadeginum verða konungur og drottning krýnd og munu þau veita titla og umboð.

Að þessu tilefni ræddum við hjá Nörd Norðursins við Ingimar Oddsson um gufupönk, Bíldalíu og hátíðina, en Bíldalía er hugarfóstur hans.

 

 

Hvað í stuttu máli er Steampunk eða gufupönk?

Gufupönk er afturhvarf til framtíðar. Þar er fagurfræði, hugmyndum og skáldskap komið saman við tækni nútímans. Steampunk er vinsælt sem hlutverkaleikur þar sem þátttakendur klæða sig uppá í tísku nítjándu aldar og jafnvel leika hlutverk úr sögum rithöfunda Viktoríutímans eða í anda þeirra; Sherlock Holmes, Phileas Fogg og fleiri. Í gufupönki er notast við bæði tæki og búnað sem gæti verið klipptur úr ævintýrum Jules Verne eða H.G. Wells. Föt, bílar, hús, hvaðeina er hægt að færa í steampunk búning en vinsælast er auðvitað klæðnaðurinn.

 

Hvenær fékkst þú fyrst áhuga á gufupönki?

Ég hef líklega alltaf verið Steampunkari því ég byrjaði snemma að klæða mig í líkingu við klæðaburð 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Það var ekki fyrr en ég horfði á viðtal við mann að nafni Jake Von Slatt sem ég „fattaði“ að það er til nafn yfir það sem ég er og það sem ég hef alla tíð heillast af. Það var Steampunk. Mér fannst það eins og að koma heim.

 

Hvernig kom það til að halda þessa hátíð?

Hugmyndin að hátíðinni kom þegar ég var að kynna bókina mína Bildalian Chronicles sem kom út í júní í fyrra. Ég var að sækja um styrk til Vesturbyggðar og Ásthildur bæjarstjóri fór á netið og Gúgglaði steampunk myndir. Svo hljóðaði hún upp: „Vá, hvað þetta er flott!!“ Bæjarráðið þusti að tölvunni hennar og svo fóru allir að skoða myndir. Eftir smá tíma stóð bæjarstjórinn upp og sagði: Þú ættir að setja upp hátíð í þessum stíl. … Þannig var það nú. Af sömu ástæðu verður Bíldudalur fyrir valinu. Í bókinni er Bíldudalur kallaður Bíldalía og er lokað og einangrað ævintýraland. Þar sem allt hefur staðið í stað frá dögum Péturs Thorsteinssonar athafnamanns (sem er reyndar konungur Bíldalíu í bókinni). Það kom aldrei neinn annar staður á Íslandi til greina en Bíldudalur.

 

Steampunk_Iceland_Bildalia

Búist er við 300-500 manns á hátíðina og koma sumir langt að. Frítt er á hátíðina en aðgangseyrir verður á hlöðuballið. Þeim sem hafa áhuga á að styrkja hátíðina býðst að kaupa vegabréf Bíldalíu fyrir litlar 2.000 krónur. Nánari dagskrá má nálgast á fésbókarviðburði hátíðarinnar.

Við hjá Nörd Norðursins erum mjög spennt fyrir þessu framtaki hjá Ingimar og öðrum sem koma að þessari skemmtilegu hátíð og vonum að hátíðin verði að árlegum atburði í íslensku hátíðarhaldi. Endilega klæðið ykkur upp og skellið ykkur vestur til gufupönk ævintýraheimsins Bíldalíu.

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑