Leikjarýni

Birt þann 17. júní, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: The Amazing Spider-Man 2

Hvað er það helsta sem maður vill fá út úr Spider-Man leik? Flestir vildu líklega fá að sveiflast um borgina á sem raunverulegastan og skemmtilegastan hátt. Ég er með góðar fréttir því að það gengur upp í The Amazing Spider-Man 2 (PS3). Verst að flest annað er ekki að virka.

Leikurinn fær strax stóran mínus í kladdann fyrir að setja eins afdrifaríkan atburð og dauða Bens frænda í kennsluhlutann (tutorial). Þú ert beðinn um að líta í kringum þig, ganga, hlaupa og allt í einu ertu að horfa á líflausan líkama Bens. Sérstaklega þar sem leikurinn lýsir þroskasögu Peter Parkers / Spider-Man (já, enn einu sinni) og það er oft vísað í dauða Bens sem vendipunkt í lífi hans seinna í leiknum. Allt það drama missir marks þegar sá vendipunktur var þegar spilarinn lærði að ýta á R2 til að hlaupa.

Sagan nær sér hvort sem er aldrei á flug og er ófrumleg og óspennandi. Við kynnumst nokkrum persónum í New York Spider-Mans. Það er engin Mary Jane hérna en Felicia Hardy / Black Cat tekur við hlutverki hennar í rómantísku deildinni. Kraven the Hunter er athyglisverðasti karakterinn en þrátt fyrir góða byrjun fer sá söguþráður í hundana. Látum vera að nefna aðra en enginn af þeim skilur mikið eftir sig.

Talsetning er ekki alslæm þrátt fyrir að enginn úr samnefndu myndinni endurtaki hlutverk sitt. Reyndar er söguþráðurinn allt annar en í myndinni sem er eðlilegt fyrir svona leiki. Af og til heyrir maður einnar-línu brandarar frá Spider-Man úti í hinum opna heimi og þeir eru nær undantekningarlaust afleitir; dæmi: „This one time I fought somebody who was a real loser, but they’re still better than you!“ Gefið mér frekar Deadpool. Samtölin í leiknum eru einkennileg að því leyti að maður fær þrjár valspurningar en það skiptir engu í hvaða röð maður spyr og maður fær að nota þær allar. Þetta er því alger óþarfi og hefði mátt lengja myndskeiðið í staðinn.

TASM2_01

Vindum okkur í leikjaspilun en þá er mikilvægt að taka fram að leikurinn hermir eftir Arkham leikjum Rocksteady á flestan hátt. Slagsmál eru stór hluti leiksins og þetta er sama „combo“ útfærsla, samskonar aðferðir við að eiga við skjótandi óvini, samskonar „dodge“ kerfi og það eru meira að segja samskonar bardaga áskoranir. Ekki nóg með það heldur eru borð þar sem Spider-Man verður að læðast um og slá vondu gaurana í rot með laumuárás eða láta sig renna niður á vefþræði og koma þeim að óvörum þannig. Leikurinn er það mikið afrit af Arkham leikjum að maður er hissa að Spider-Man hafi ekki verið látinn fá fleiri aukahluti eins og „Batarang“; þeir hefðu þá kannski getað skýrt það „Spiderang“. Það er samt dáldið skondið að hugsa til þess hefði Rocksteady fengið Spider-Man á sitt borð í stað Batman, því að slagsmálaspilunin virkar einhvern veginn eðlilegri fyrir Spider-Man t.d. „Spider-sense“ útskýrir vel af hverju hann getur komið sér undan höggum aftan frá og gert gagnárás (á meðan Batman án ofurkrafta ætti ekki að geta séð það).

Það er hægt að uppfæra krafta Spider-Man; betri vefir, betri í bardaga og þar fram eftir götunum. Einnig er hægt að næla sér í 13 búninga, aðallega með að leysa verkefni. Þessir búningar hafa hver sinn styrkleika og veikleika og verða betri eftir því sem þú notar þá meira (fyrir þá sem vilja ná platinum-verðlaunum þá er það að uppfæra alla 13 búningana í topp langtíma frekasti hlutinn).

TASM2_02

Eins og í öðrum sambærilegum leikjum þá er fullt af aukaverkefnum sem byggjast m.a. á að taka myndir, hjálpa fólki úr brennandi byggingum, safna kassettum o.s.frv. Flest öll þessi verkefni eru einföld og maður fær fljótt leið á þeim sérstaklega þegar tekið er mið af hetju/skúrk kerfi leiksins. Þetta virkar þannig að iðulega koma upp tilfelli sem blikka rautt og Spider-Man verður að fara á staðinn og klára áður en þau hverfa. Ef þau hverfa þá er Spider-Man kennt um og hann verður talinn meiri skúrkur sem þýðir að sérsveitin er sífellt að ráðast á þig. Þetta er virkilega pirrandi því að iðulega þá er maður aðeins of seinn á staðinn eða það koma t.d. upp tvö tilfelli sitt hvoru megin í borginni og maður nær ekki að klára bæði. Stórbardagarnir (boss fights) eru ekki alslæmir og hæfileg áskorun, reyndar eru sumir þeirra talsvert meiri áskorun en maður er vanur því að leikurinn er frekar auðveldur (spilað á næsterfiðasta styrkleika).

TASM2_03

Grafíkin virkar algjörlega úrelt í PS3 útgáfunni og minnir á gamlan PS3 leik en með undantekningum t.d. lítur Spider-Man sjálfur ágætlega út. Líklega lítur leikurinn betur út á PS4. Talsvert er um litla sjónræna hluti sem virka ekki í umhverfinu (graphical glitches) t.d. festast óvinir, maður getur labbað inn í vegg o.s.frv. Einnig eru hleðslutímar furðulangir þegar þú ferð á milli svæða.

Niðurstaðan er sú að þetta er nokkurn veginn það sem maður bjóst við, fljótsoðinn leikur byggður á kvikmynd en ekki algerlega án góðra punkta og þá ber helst að nefna það að sveiflast um borgina. Sleppið þessum nema herbergið ykkur sé þakið Spider-Man plakötum.

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑