Bíó og TV

Birt þann 26. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: X-Men: Days of Future Past

Fullorðins frásögn af fólki með ofurkrafta virðist vera seinþróuð hugmynd.

Fyrstu myndirnar sem við fengum af þessari tegund kvikmynda voru flestallar þræl-þunnar og virtustu hálf kjánalegar sem bíómyndir. Hver man ekki eftir Daredevil, og asnalega tölvuteiknaða endabardaganum sem átti sér stað af einhverjum ástæðum á orgel pípum í kirkju. Eða báðum Fantastic 4 myndunum, sem höfðu þann eina kost að hafa valið Chris Evans til að leika Johnny Storm. Ég sjálfur varð aldrei aðdáandi Spider-Man myndanna hans Sam Raimi, samræðurnar voru margar hverjar alveg einstaklega kjánahrollsvekjandi, og versti kvenkarakter seinni tíma var í formi Mary Jane Watson (Kirsten Dunst), sem þurfti að bjarga í hverri mynd a.m.k. einu sinni.

Það skondna er, að maður hefði haldið að X-Men (2000) hefði komið út á eftir öllum þessum myndum, því menn tóku lítið eftir því hvað það var sem gerði X-Men góða. Þegar opnunar atriðið í útrýmingarbúðum nasista byrjaði, með ungan Erik Lehnsherr betur þekktur sem Magneto, setti myndin allt annan og mun raunverulegri tón en áður hafði þekkst. En í rauninni var það ekki það eina sem skar þessa mynd hans Bryan Singer út. Tíundi áratugur síðustu aldar var fullbúinn teiknimyndasögu kvikmyndum, aðalmálið var að þær voru flestar ekki taldar sérstaklega góðar kvikmyndir. Eftir að Batman (1989) hans Tim Burton kom út, og sló í gegn, sáu Hollywood menn að það var hægt að gera gróðvænlegar kvikmyndir byggðar á teiknimyndasögum. En það þurfti ekki nema Dick sjálfann Tracy, sem Warren Beatty gerði, til að fá stjórnanda Disney fyrirtækisins, Jeffrey Katzenberg, til að endurskoða það að setja of mikinn pening í framleiðslu þess háttar kvikmynda. Dick Tracy var gerð fyrir 47 milljónir og rétt slefaði yfir 100 milljónir í bíó, en það var nóg til að stjórnendur sáu sér ekki arð í að dæla of miklum fjárhæðum í svona kvikmyndir, auðvitað ásamt hinni teiknimyndasögu kvikmyndinni sem sló í gegn sama ár.

TMNT_1990_01

Teenage Mutant Ninja Turtles kom út alveg í blábyrjun tíunda áratugarins, 1990 (skartaði meira að segja blikka-og-þú-missir-af-honum ungum Sam Rockwell sem pönkara), var gerð fyrir 13.5 milljónir dala og halaði inn 135 milljónum bara í Bandaríkjunum. Hún var meira að segja lengi vel aðsóknarhæsta indí myndin, þar sem hún var fjármögnuð utan stóru stúdíóanna í Hollywood. Þessi mynd kom og sýndi fram á það að það var hægt að borga lítið fyrir myndir byggðar á myndasögum, og fá fullt til baka. Listinn yfir helstu svoleiðis myndir sem komu út á tíunda áratugnum sýnir það leikandi vel, en þar ber helst að nefna Casper, Richie Rich, The Phantom, The Shadow, Blade og Mystery Men. Skulum bara sleppa því alveg að tala um Batman myndirnar hans Joel Schumacher, þær græddu heilmikið, en je-dúdda-mía hvað þetta voru hræðilegar kvikmyndir.

Allt þetta breyttist svo þegar Bryan Singer kom út með X-Men árið 2000. Hann sýndi fram á að þarna væri heimur sem ekki væri búið að snerta á, og væri af nógu að taka. Spider-Man hans Raimi kom svo út árið 2002, og árið 2003 kom framhaldið af X-Men sögunni, sem bætti um betur og þótti heppnast jafnvel betur en sú fyrsta.

Eftir þetta fóru gæðin hjá X mönnunum að minnka. Brett Ratner leikstýrði X-Men: The Last Stand, sem reyndist vera með Spider-Man 3 veikina; alltof margir karakterar með of lítinn tíma fyrir hvern og einn, svo ekki sé minnst á slappasta „Last Stand“ fyrr og síðar, fimm stökkbreyttir  gegn hópi unglinga.

Því minna sem sagt er um X-Men Origins: Wolverine, því betra. Hana mætti taka útá tún og aflífa með kindabyssu. The Wolverine myndin hans James Mangold reyndist hafa nokkra góða spretti hvað karaktera varðar, en taka skal fram að ég sá bara lengdu útgáfuna, sem akkúrat bætti því við. Aftur reyndist endaleikurinn vera fólki erfiður, því endirinn á þeirri mynd er eiginlega fyrri partinum til skammar. X-Men: First Class endurvakti þennan dálk kvikmynda með trompi, og reyndist æðisleg. Erik Lehnsherr, Nazi Hunter væri kvikmynd sem ég væri til í að sjá hvenær sem er.

XMEN_DOFP_01

En frá fyrstu mínútu af X-Men: Days of Future Past var ég fastur í söguþræðinum. Ekki einu sinni í allri myndinni datt ég út úr sögunni og fór að hugsa um eitthvað annað. Þétt sögulínan heldur velli, ásamt því að það sparar rosalegann tíma að þurfa ekki að kynna alla karaktera og þeirra hæfileika. Vissulega gæti það verið erfitt fyrir einhvern að horfa á þessa mynd án þess að hafa nokkur tímann séð X-Men mynd áður, en hún er öllu betri fyrir vikið. Því þá verður sagan ein og sér í fyrsta sæti.

Í framtíðinni hafa stökkbreyttir verið eltir niður og aflífaðir, flest allir í það minnsta, af einstaklega háþróuðum vélmennum sem nefnast Sentinels. Prófessor Xavier og Magneto taka sér það ráð í hendur að notast við hæfileika Kitty Pride (Ellen Page), en hún getur sent meðvitund fólks aftur í tímann í yngri líkama þess. Þeir ákveða að senda Wolverine (Hugh Jackman, að sjálfsögðu!) þar sem hann er sá eini sem gæti lifað það af að vera sendur svona langt aftur í tímann, nánar tiltekið til ársins 1973. Það ár tókst Mystique ætlunarverk sitt, sem var að myrða Bolivar Trask (Peter Dinklage), en sá var vísindamaður sem hafði pynt, gert tilraunir á og myrt marga stökkbreytta. Hann var einnig sá sem hannaði Sentinel vélmennin. Sagan sýnir hinsvegar að þegar Mystique drepur Trask, fóru menn fyrst að trúa honum um að stökkbreyttir væru vandamál og fóru að fjármagna þróun vélmenna hans fyrir alvöru, sem leiðir til þeirrar framtíðar sem að við kynnumst í byrjun myndarinnar.

XMEN_DOFP_02

Leikhópurinn í þessari mynd er hreint út sagt æðislegur, enda eru flestir að takast á við sín hlutverk í a.m.k. annað sinn, og eru mjög kunnugir sér og sínum baksögum. Það er ávallt yndi að eyða tíma með Patrick Stewart og Ian Mckellen, í hvaða hlutverki sem það er, en þeir hafa eignað sér Professor X og Magneto svo ekki verði um villst. Hinsvegar komu James Mcavoy og Michael Fassbender æðislega inn í X-Men: First Class, og eru þeir frábærir saman. Sú æðislega leikkona Jennifer Lawrence fær mun veigameira hlutverk í þessari mynd en áður, og meðhöndlar hún ábyrgðina með stæl. Ein æðislegasta sena myndarinnar er hinsvegar þegar að Quicksilver (Evan Peters) fær að njóta sín, hreinn nördahrollur.

Reyndar er ótrúlegt hvað þessi mynd heldur vel á spilunum. Hún er hreint út sagt unaðsleg, skemmtileg, fyndin og alvarleg, allt á sama tíma. Það eina sem er hálf óskýrt er hvaða tímalínum þeir eru að halda eftir, úr hinum myndunum. Þeir vitna t.d. í X-Men: The Last Stand, eins og sú sögulína hafi gerst, en [spillir úr eldri mynd >]Professor X deyr vissulega í þeirri mynd. [spillir endar]

Ekki er alveg víst hvernig þeir eru að velja og hafna, en ég gat að vísu bara sleppt því að láta það pirra mig og naut þess í stað að lifa á tíma þar sem við gerum þroskaðar og jarðbundnar myndasögu-kvikmyndir. Captain America: Winter Soldier, Godzilla og núna X-Men: Days of Future Past, og það bara á síðustu mánuðum! Hale-friggin-lúja.

 

Höfundur er Benedikt Jóhannesson

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑