Íslenskt

Birt þann 11. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spurt og spilað: Katrín Jakobsdóttir

Í liðnum Spurt og spilað forvitnast Nörd Norðursins um tölvuleikjaspilun þjóðþekktra einstaklinga með stuttum spurningum. Okkar áttundi viðmælandi er Katrín Jakobsdóttir.

Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstri grænna og hefur verið þingkona flokksins síðan 2007. Katrín var mennta- og menningarmálaráðherra árin 2009-2013 í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Auk þess hefur hún starfað við dagskrárgerð, ritstörf, kennslu og margt fleira.

Katrín er fædd árið 1976 og er með BA í íslensku með frönsku sem aukagrein og MA í íslenskum bókmenntum. Það má segja að Katrín hafi verið fljót að finna sig í pólitíkinni, en hún var í stúdentaráði HÍ og háskólaráði 1998-2000 og formaður Ungra vinstri grænna 2002-2003. Síðan þá hefur hún leikið stórt og áberandi hlutverk í Vinstrihreyfingunni grænt framboð, vinstri flokks sem stofnaður var árið 1999.

 

Hvenær byrjaðir þú að spila tölvuleiki og hver var fyrsti leikurinn sem heillaði þig?

Pac-ManPabbi minn kom heim með tölvuspil þegar ég hef verið sirka sex ára, það var annars vegar spil þar sem maður skaut UFO-a og hins vegar spil sem var kallað Símon og gekk út á að muna hljóða- og litarunur… bæði mjög spennandi á þeim tíma! Svo var Pac-Man mjög skemmtó líka, kynntist honum í félagsmiðstöðinni.

 

Hverskonar leiki spilar þú aðallega, og áttu þér einhvern uppáhalds leik?

Ég spila afskaplega sjaldan tölvuleiki, stundum þó til að róa hugann. Lengsta tölvuleikjaspil sem ég hef stundað var þegar ég var svefnlaus fjórar nætur í röð í New York og kláraði lesefnið sem ég var með fyrstu nóttina. Eftir það spilaði ég Angry Birds og náði bara talsverðri hæfni í þeim leik! En Tetris er uppáhalds leikurinn fyrr og síðar.

 

 

Hvaða leik spilaðirðu síðast?

Tetris.

 

Hvaða tæki notar þú helst til að spila tölvuleiki?

Borðtölvu.

 

Hvaða leik hefurðu spilað mest, í klukkutímum talið?

Það er líka Tetris.

 

Hefurðu stolist í Angry Birds eða QuizUp inni í þingsal?

Neibb!

 

Við þökkum þér kærlega fyrir spjallið!

Takk sömuleiðis.
Mynd: VG.is / – BÞJ
Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑