Íslenskt

Birt þann 3. nóvember, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spurt og spilað: Ólafur Þór Jóelsson

Í liðnum Spurt og spilað forvitnast Nörd Norðursins um tölvuleikjaspilun þjóðþekktra einstaklinga með stuttum spurningum. Okkar fimmti viðmælandi er Ólafur Þór Jóelsson.

Ólafur er annar þáttastjórnandi vinsælasta tölvuleikjaþáttar landsins, GameTíví, þar sem hann ásamt Sverri Bergmann gagnrýnir tölvuleiki og skoðar það helsta sem er að gerast í heimi tölvuleikja og leikjatölva að hverju sinni. Það er óhætt að segja að þættirnir hafa styrkt samfélag leikjatölvunotenda og tölvuleikjaspilara  á Íslandi, en nýjasta þáttaröðin af GameTíví er sýndur á fimmtudögum á Popptíví og endursýndur á Stöð 2 og hér á Visir.is.

Ólafur starfar einnig sem deildastjóri tölvuleikjadeildar og heildsölu í söludeil Senu. Til gamans má geta að þá átti Ólafur 40 ára afmæli fyrr í vikunni og við hjá Nörd Norðursins óskum Ólafi innilega til hamingju með stórafmælið!

 

Hverskonar tölvuleiki spilaru helst?

- Ég er hálfgerð alæta á tölvuleiki, en mínir uppáhalds eru fótboltaleikir, bæði Fifa 13 og „manager“ leikir, fyrstu persónu skotleikir og svo ævintýraleikir á borð við Uncharted og slíka leiki. Þessa dagana hefur reyndar leikurinn XCOM: Enemy Uknown náð undarlegum tökum á mér og hef ég ákveðið að 3-4 tíma svefn sé alveg nóg :) Þetta er allavega leikur sem er mjög erfitt að láta frá sér, maður þarf alltaf að taka eitt mission í viðbót.


 

Uppáhalds tölvuleikur?

- Held að ég verði að segja God of War 1, man alltaf þegar hann datt fyrst í mínar hendur, ég setti hreinlega líf mitt á pásu alveg þangað til að ég kláraði hann. Var algjör tímamótaleikur þegar hann kom út. Alltaf gaman að stýra persónu sem er algjörlega á öndverðu meiði við mann sjálfan, en Kratos er einhver harðasti karakter tölvuleikjanna, sköllóttur, morðóður, massaður og nautsterkur. Ég er aftur á móti, nokkuð vel hærður, sallarólegur, vöðvalaus og aumur.

 

Fyrsta leikjatölvan?

 

- Það var Sinclair Spectrum vélin. Manni fannst maður hafa himinn höndum tekið með þá vél, grafíkin var stórkostleg og þvílíkir leikir sem duttu inn. Man ennþá þegar ég labbaði útúr Heimilistækjum með fyrsta leikinn sem ég keypti mér, en það var Manic Miner á kasettu. Það voru margir grjótharðir leikir sem maður spilaði á Sinclair eins og Chuckie Egg, Hero, AtticAttack, Sabre Wolf og fleiri.

Uppáhalds leikjatölvan?

- Ég spila eiginlega bara á PlayStation 3 þannig að hún verður sjálfkrafa fyrir valinu. Hver vél hefur sinn sjarma, en þessi hentar mér allavega mjög vel, einföld og virkar vel.

 

Eitthvað að lokum?

- Helst það að Sverrir Bergmann vinur minn er að gefa út plötu 1.nóvember og hvet ég alla til að kynna sér hana, flottur gripur með gæða dreng :) .

 

 

BÞJ
Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑