Bíó og TV

Birt þann 23. febrúar, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Sjónvarpsþáttarýni: Les Revenants – Afturgöngurnar

„Dulmagnaðir spennuþættir sem hlutu alþjóðlegu Emmy-verðlaunin í sínum flokki í nóvember á síðasta ári. Einstaklingar sem hafa verið taldir látnir til nokkurs tíma, fara að dúkka upp í litlu fjallaþorpi eins og ekkert hafi í skorist“ (ruv.is)

Les Revenants er ný frönsk þáttaröð sem hóf göngu sína í Ríkissjónvarpinu síðastliðið sunnudagskvöld, fyrir einskæra tilviljun sat ég fyrir framan sjónvarpið eftir að hafa horft á dönsku þættina Arvingerne og var á leið inn í rúm með bók í hönd þegar ég heyrði tilkynnt hver næsti dagskrárliður væri. Ég hafði ekkert séð þættina auglýsta og vissi ekkert um þá en ákvað að sitja áfram og sjá hvað hér væri á ferðinni. Til að gera langa sögu stutta varð ég hreint ekki fyrir vonbrigðum.

Les Revenants, eða Afturgöngurnar, gerast í frönsku fjallaþorpi. Þorpið er á alveg gríðarlega fallegu bæjarstæði, umkringt fjöllum og náttúrufegurð, þessi fegurð skapar skemmtilega andstæðu við myrkt umfjöllunarefni þáttanna. Dag einn taka látnir bæjarbúar að birtast á ný í bænum, mislöngum tíma eftir andlát sín; ólíkt uppvakningum og draugum er fólkið af holdi og blóði, það hefur ekki elst um einn dag og það býr yfir sömu minningum og vitsmunum og áður – það eina sem vantar er minningin um dauða þeirra. Það eru því mikil viðbrigði fyrir þau ekki síður en ættingja þeirra þegar þau átta sig á því hvernig í pottinn er búið.

Almennt er ég ekki hrifin af hryllingsþáttum, ég er hræðslugjörn og forðast bregðumyndir og mjög ofbeldisfullar myndir en Afturgöngurnar náðu mér með passlegri blöndu. Þótt Les Revenants byrji gríðarlega spennandi og lofi nokkurri hrollvekju var ég ánægð með að þættirnir virðast, enn sem komið er alla vega, ætla að taka aðra stefnu en að bregða áhorfendum sem mest eða hneyksla þá með blóði, innyflum og almennum viðbjóði. Í staðinn er lögð áhersla á þéttan söguþráð og dulúð.

Þættirnir eru franskir og það kann að hræða einhverja áhorfendur frá – við þá segi ég einfaldlega: Enga fordóma! Þættirnir eru að mínu mati gríðargóðir og þá á alls ekki að fyrirfram dæma út frá tungumálinu. Ekki láta þessa snilldar þætti framhjá ykkur fara – ég veit í það minnsta að ég verð límd við sjónvarpstækið næstu sunnudagskvöld!

Fyrir þá sem misstu af fyrsta þættinum bendi ég á að hann er aðgengilegur á VOD og einnig á heimasíðu Ríkisútvarpsins.

 

Stikla

 

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir,
nemi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑