Bækur

Birt þann 21. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ray Bradbury

Asimov, Clarke og Heinlein eru oft sagðir vera áhrifamestu vísindaskáldsagnahöfundar 20. aldarinnar. Samtíðamaður þeirra Ray Bradbury var jafnvel frægari en hefur staðið utan við þennan hóp. Ástæða þess er að Bradbury skilgreindi sjálfan sig aldrei sem vísindaskáldsagnahöfund. John W. Campbell, sem var áhrifamesti ritstjóri á gullaldartíma vísindaskáldsagnanna (1938-49), var ekki hrifinn af Bradbury og gaf höfundinum ekki tækifæri í blaði sínu, Astounding Science Fiction. Bradbury var talsvert frábrugðin öðrum furðusagnahöfundum á þessum tíma. Hann hugsaði mikið um stíl og lét ekki ramma sig inn í ákveðna sagnahefð. Hann skrifaði vísindaskáldsögur, ævintýri, hrollvekjur, sakamálasögur og uppvaxtasögur. Bradbury sagðist vera ævintýrahöfundur sem varaði samfélagið við mögulegum framtíðum.

Ray Bradbury fæddist í Illionois 1920. Faðir hans var Bandaríkjamaður en móðir hans var sænskur innflytjandi. Á unglingsárunum fluttist fjölskyldan til Los Angeles, sem hafði mikil áhrif á rithöfundinn. Hann elskaði bíómyndir og ævintýri. Hann sótti því í félagsskap þeirra sem deildu áhugamálum hans og kynntist þar Ray Harryhausen og Forrest J. Ackerman. Bradbury fór aldrei í háskóla og hélt því fram að höfundar hefði ekkert þangað að sækja. Hægt væri að fá ókeypis menntun á næsta bókasafni. Þar væri líka enga hrokafulla kennara að finna en þeir ættu til að eitra huga ungra nemenda. Sjálfur hætti Bradbury í skóla sautján ára og sótti bókasöfn stíft næstu tíu árin. Honum tókst að vekja eftirtekt með smásögum sem hann seldi til pulp blaða.

 


 

Ray BradburyThe Martian Chronicles

Fyrsta verkið sem Bradbury seldi til útgefanda var The Martian Chronicles, sem kom út árið 1950. Á þeim tíma var hann fátækur rithöfundur, sem skrifaði einungis stuttar sögur. Ritstjóri spurði höfundinn hvort ekki væri hægt að búa til bók úr öllum smásögum hans sem gerðust á Mars. Bradbury ákvað að láta á það reyna og úr varð The Martian Chronicles. Í henni eru 28 smásögur en frægust þeirra er heimsendasagan There Will Come Soft Rains.  Þetta er eitt af þekktari verkum Bradbury. Til að mynda var gerð framhaldsmynd eftir bókinni árið 1979 , sem höfundurinn var lítið hrifinn af. The Martian Chronicles gekk nægilega vel þannig að Bradbury fékk annað tækifæri.

 

The Illustrated Man

Ray Bradbury

Eftir velgengi smásagnasafnsins um Mars spurði ritstjóri hvort að Bradbury ætti ekki fleiri sögur sem hægt væri að hnýta saman í bók. Bradbury sagði að svo væri. Hann hafði skrifað sögu um húðflúraðan mann en myndirnar virtust vakna til lífsins á meðan maðurinn svaf. Úr þessu varð The Illustrated Man sem kom út árið 1951. Í henni eru 19 smásögur, frægust þeirra er sú fyrsta The Veldt um barnaherbergi framtíðarinnar. Önnur sagan Kaleidoscope er nánast orðrétt notuð í enda kvikmyndarinnar Dark Star eftir John Carpenter. Sjálfur er ég hrifnastur af The Long Rain en hún ein af þremur sögum sem var notuð í kvikmyndútgáfu bókarinnar frá 1969. Bradbury vildi meina að smásagnaformið hentaði verðandi rithöfundum best. Þar gæfist þeim tækifæri til að prófa sig áfram á marga vegu. Hann sagðist sjálfur hafa lengi ekki verið tilbúinn að skrifa hefðbundna bók.

 

Fahrenheit 451

Ray BradburyFyrsta skáldsaga Ray Bradbury kom út árið 1953 og er hún jafnframt hans allra frægasta. Hann skrifaði hana á vélritunarvél, sem hann leigði í kjallara háskólabókasafnsins í UCLA fyrir 10 sent á klukkutíma, og kláraði verkið á níu dögum. Bókin gerist í framtíð þar sem eldur er ekki lengur hættulegur heimilum. Slökkviliðsmenn vinna því ekki við að slökkva elda heldur kveikja þá. Söguhetjan, Guy Montag, vinnur sem slíkur en starf hans felst í að hafa upp á bókum og brenna þær. Bradbury hefur sjálfur viðurkennt að hugmyndina sótti hann meðal annars til McCarthyisma og Nasisma. Sagan er ekki löng rétt um 40 þúsund orð. Hún var þýdd árið 1968 af Magnúsi Jónssyni og kvikmynduð árið 1966 af Francois Truffaut. Fahrenheit 451 var einnig gefin út í fyrstu þremur tímaritum Playboy árið 1954. Áhrif bókarinnar gætir enn í dag en heimildarmynd Michael Moore Fahrenheit 9/11 vísar til dæmis í titil hennar. Kaldhæðið er að segja frá því að bókin hefur verið bönnuð í nokkrum skólum í BNA. Síðast árið 2006 í Montgomery County, Texas. Fahrenheit 451 var vel tekið og Bradbury var ekki lengur fátækur smásagnahöfundur.

 

Ray BradburyDandelion Wine

Næsta skáldsaga sem Bradbury gaf út var Dandelion Wine árið 1957. Hún er mjög frábrugðin öðrum verkum höfundar og segir frá 12 dreng sem býr í smábæ í Bandaríkjunum. Söguhetjan er Douglas Spaulding sem Bradbury byggði lauslega á sjálfum sér. Ég hef ekki lesið þessa bók en stefni að því. Hún er vinsæl á meðal aðdáenda höfundar þrátt fyrir að vera ekki furðusaga. Í henni lítur Bradbury um öxl og horfið til fortíðar með söknuði.

 

Ray BradburySomething Wicked The Way Comes

Árið 1962 var gefin út Something Wicked This Way Comes en titilinn fékk Bradbury úr Macbeth eftir Shakespeare. Bókin er unnin upp úr kvikmyndahandriti sem hann skrifaði fyrir vin sinn Gene Kelly. Ekkert varð þó af kvikmyndinni og því þróaði höfundurinn hugmyndina í bók. Hér er á ferðinni drungaleg barnasaga um tvo fjórtán ára drengi sem búa í smábæ. Líf þeirra breytist skyndilega þegar fjölleikahús kemur sér fyrir í útjarði bæjarins. Sirkusstjórinn, G.M. Dark, er óhuggulegur maður sem virðist varla mennskur. Skemmtilegt er bera þessa sögu við sum verk Stephen King, eins og Needful Things. Neil Gaiman hefur einnig viðurkennt að hafa sótt innblástur í þessa bók. Sagan var kvikmynduð árið 1983 af Disney kvikmyndaverinu.

 


 

Ray Bradbury skrifaði margar aðrar merkilegar sögur. A Sound of Thunder var eftirminnilega tekin fyrir í Simspon þætti þar sem Hómer ferðast aftur í tíman með aðstoð ristavélar. Hann skrifaði handritið af Moby Dick (1956) í leikstjórn John Houston. It Came from Outer Space og The Beast from 20,000 Fathoms eru byggð á verkum hans. Sjónvarpsþátturinn The Ray Bradbury Theater var sýndur frá 1985 til 1992 en þar voru 65 sögur eftir hann kvikmyndaðar. Bradbury lést í fyrra, 2012, 91 árs að aldri. Hann hefur skilið eftir sig mikið af verkum og var afar forvitnilegur höfundur. Stíll hans er mjög aðgengilegur og hann prófaði margt í gegnum ævina. Ég hvet alla til að skoða bækur hans og smásögur.

 

Höfundur er Einar Leif Nielsen,
rithöfundur.

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑