Íslenskt

Birt þann 7. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Gagnagnótt á Haustráðstefnu Advania 2013

Nokkuð stór nöfn voru á dagskránni í ár og eftir setningu forstjórans Gests G. Gestssonar þá tók borgarstjórinn okkar við með erindi sem mikil leynd hafði hvílt yfir og ekki einu sinni Advania vissi nokkuð um. Jón kom inná hvað tæknin þróast fljótt en fór svo að tala um lífsspeki sína sem byggir að miklu leyti á taóisma. Óhefðbundið fyrir tækniráðstefnu en gaman af.

Þrjár lykilræður voru yfir daginn en aðrir fyrirlestrar skiptust í 4 hluta þ.e.a.s fjögur þema; Skýjalausnir og snjalltæki, Reynslusögur og stjórnun, Viðskiptagreind og gagnavinnsla og Stafræn útgáfa og framtíðin.

Advania_2013_03

Steve Midgley, yfirmaður Amazon Web Services.

Undirritaður kynnti sér „Big Data“ eða Gagnagnótt sem er eitt af nýjustu hugtökunum í dag. Gagnagnótt byggir á upplýsingaflæði en ekki bara einhverjum afmörkuðum upplýsingum heldur hreinlega öllum upplýsingum sem eru til staðar. Nánast allt sem við skynjum í umhverfi okkar er skrásett á einn eða annan hátt og metið er að 1,8 zb (zettabytes, 1,8 trilljón gb) upplýsinga myndist á hverju ári núna og fer vaxandi. Gagnagnótt miðar við að greina þetta „gagnaský“ með algoritma. Tvisvar var myndin „Minority Report“ tekin sem dæmi en þar var spáð fyrir um glæpi með því að nota eitthvað í líkingu við „Big Data“ (einnig datt mér í hug sjónvarpsþættirnir Person of Interest). Páll Ríkharðsson frá HR nefndi að venjulega eyðir fólk of miklum tíma í að greina orsakir; greiningar sýna hvernig hlutirnir eru og það er markaðarins að bregðast við því, punktur. Sem dæmi þá seldust bleyjur og bjór mjög vel á föstudögum, áður fyrr hefði verið reynt að komast að því af hverju og reyna að finna markhópinn en „Big Data“ hugsunin er sú að svona upplýsingar þarf að nýta sér strax markaðslega séð (seinna er hægt að spá í t.d. að feður bjóðist til að fara í búðir á föstudögum og því er salan eins og hún er). Þetta er mjög áhugavert en það er merkilegt að hugsa til þess hve einstaklingurinn leggur mikið til „Big Data“ t.d. í gegnum Facebook þ.e.a.s. notendur veita ógrynni upplýsinga endurgjaldslaust.

Advania_2013_02

Michael Schrage, MIT.

Lokafyrirlesarinn kom einmitt inn á þennan punkt en það var Michael Schrage frá MIT. Michael er frábær fyrirlesari og hann talaði um hversu mikilvægur mannauðurinn þ.e.a.s. viðskiptavinurinn er í markaðsskilningi. Gott dæmi er hvernig fólk breytist sem neytendur við breytingar á markaðinum. Henry Ford er sá sem kom fyrst með fjöldaframleiðslu en ekki bara það, heldur hreinlega bjó hann til bílstjóra. Sama er að gerast í dag með Google; það býr til leitendur, það eru notendurnir sem gera Google sterkara og því meira af fólki sem notar Google því öflugra verður það. Það er þetta samspil fyrirtækja og viðskiptavinar sem er Schrage hugleikið og því gaf hann út bókina „Who do you want your customers to become?“ Viðskiptavinirnir eru klárlega það sem skapar auðinn í tæknigeiranum í dag

Á svona ráðstefnum eru að sjálfsögðu alltaf verið að selja eitthvað leynt og óleynt en allir fyrirlesarar sem undirritaður hlustaði komu með eitthvað fróðlegt og/eða skemmtilegt. Oz er að gera spennandi hluti innan sjónvarpsgeirans og Xerox hefur breytt áherslum; núna vilja þeir hjálpa fólki að fækka pappír! Þeir eru meira að segja að gera leik úr því að vera „grænn“ og notendur þjónustu þeirra munu fá stig sem þeir geta montað sig af á einhverjum félagsmiðli eins og Facebook. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það tekst.

Advania_2013_01

Ingþór Hjálmarsson (t.v.) og Burkni J. Óskarsson (t.h.) tveir af starfsmönnum og stofnendum Lumenox Games.

Rúsínan í pylsuendanum fyrir mitt leyti var svo fyrirlestur íslenska fyrirtækisins Lumenox Games sem kynntu leik sinn Aaru’s Awakening. Þessi leikur er pallaleikur í 2D og hefur fengið mikið hrós fyrir listrænt umhverfi en er einnig með skemmtilega öðruvísi spilun. Nörd Norðursins hefur áður fjallað um þennan leik og núna fékk undirritaður að prófa hann á ráðstefnunni. Spilun var skemmtileg, hann leit vel út og lofar góðu.

Ráðstefnan var til fyrirmyndar í alla staði. Hún var vel sótt enda seldust upp miðarnir nokkrum dögum áður.

Sjáumst að ári!

 

Höfundur er Steinar Logi Sigurðsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑