Bíó og TV

Birt þann 11. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Mama (2013)

Varúð: Inniheldur mögulega spilla!

Guillermo del Toro er löngu orðið stórt og áhrifamikið nafn innan kvikmyndageirans og því þykir ákveðinn gæðastimpill fylgja þeirri framleiðslu sem hann kemur nálægt. Gott dæmi um þetta er The Orphanage (2007) sem er án efa með betri hryllingsmyndum síðari ára. Hann framleiddi líka Don‘t Be Afraid of the Dark (2010), sem mér þótti ekki jafn frábær, en myndirnar sem hann kemur nálægt hafa þó yfirleitt einhvern sjarma.

Nýjasta dæmið er hryllingsmyndin Mama (2013) sem var að detta í kvikmyndahús hérlendis. Hún er spænsk-kanadísk en dreifð af Universal Pictures og er frumburður leikstjórans Andrés Muschietti. Hann gerði reyndar samnefnda stuttmynd árið 2008 en þessi mynd er byggð á henni. Hún býður að sjálfsögðu upp á nýjan vinkil á draugahúsahefðinni, sem er del Toro nokkuð hugleikin ef marka má fyrri verkefni sem hann hefur tekið þátt í. En að þessu sinni er það ekki húsið sem er vandamálið, heldur það sem fylgdi stelpunum sem fluttu þangað.

Myndin fjallar sumsé um tvær stelpur, Victoriu og Lilly, sem skildar voru eftir í bústað úti í skógi þegar þær voru mjög ungar.

Myndin fjallar sumsé um tvær stelpur, Victoriu og Lilly, sem skildar voru eftir í bústað úti í skógi þegar þær voru mjög ungar. Faðir þeirra, Jeffrey, hafði lent illa í verðbréfahruni á Wall Street og tók nokkrar slæmar ákvarðanir sem leiddu til flótta hans frá lögreglunni. Á afskektum stað fann hann bústað og þar sýndist honum lítið annað vera í boði en dauði þeirra allra. Sem betur fer, fyrir stelpurnar, kom annað afl til sögunnar og bjargaði lífi þeirra með því að drepa Jeffrey. Fimm árum síðar sjáum við tvíburabróður hans, Lucas, sem leitar ennþá stelpnanna. Þegar uppgjöf er á næsta leyti finnast þær loksins en hafa þó breyst töluvert. Þær skríða, geta ekki talað og hafa vafasamar matarvenjur. Eldri stelpan nær fyrri þroska tiltölulega fljótt, en sú yngri á erfiðara með breytingarnar. Þar sem að Lucas frændi líkist föður þeirra flýtir það ferlinu og hann finnur sig fljótt í föðurhlutverkinu. Hann fær leyfi til þess að sjá um stelpurnar í nýju húsi, en Annabel, kærasta hans, á erfiðara með að finna sig í nýja hlutverkinu. Hún neyðist hins vegar til þess þegar að Lucas lendir í smá „óhappi“. Það gerist vegna þess að eitthvað fylgdi stelpunum úr bústaðnum. Eitthvað sem að þær kölluðu móður sína og það ætlar sér ekki að sleppa þeim.

Mama

Fyrstu mínútur myndarinnar eru virkilega vel gerðar og skapa góða blöndu af spennu, hrolli og dramatík. Í fyrsta skipti sem Mama kemur fyrir virkar hún allt annað en jarðnesk og gefur manni tilfinningu fyrir einhverju virkilega ógnvægilegu sem þó hefur samúð með stelpunum. Þegar byrjunartitlarnir koma svo á skjáinn er sögð saga stelpnanna yfir þau fimm ár sem þær búa í bústaðinum með teikningum og það er einnig mjög vel gert. Titlarnir eru reyndar ekki svo ólíkir þeim í Don‘t Be Afraid of the Dark og það birtist einmitt þessi ævintýralegi bragur sem að del Toro er þekktur fyrir.

Fyrstu mínútur myndarinnar eru virkilega vel gerðar og skapa góða blöndu af spennu, hrolli og dramatík.

Það sem vekur athygli mína frekar snemma í myndinni er að hún skartar tveimur leikurum sem hafa gert mjög svo góða hluti upp á síðkastið. Tvíburabræðurnir Jeffrey og Lucas eru leiknir af Nikolaj Coster-Waldau sem flestir þekkja eflaust sem Jaime Lannister úr Game of Thrones, einum vinsælasta sjónvarpsþætti síðustu ára. Jessica Chastain fer með hlutverk Annabel, en hún hefur verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndunum Zero Dark Thirty (2012) og The Help (2011). Bæði standa sig vel, en þó verður að segjast að Chastain virkar pínu gervileg sem meðlimur í pönkrokkhljómsveit í byrjun myndarinnar. Henni tekst þó að sýna breytinguna yfir í móðurhlutverkið á sannfærandi máta svo það kemur ekki mikið að sök. Megan Charpentier og Isabelle Nélisse eru einnig nokkuð sannfærandi í sínum hlutverkum sem stelpurnar. Charpentier sýnir okkur stelpu sem aðlagast aðstæðum og verndar systur sína á meðan hlutverk Nélisse er að sleppa aldrei villimennskunni sem hún lærði af verunni í bústaðnum. Það hefði kannski mátt leggja meiri áherslu á þá togstreitu sem fylgir nýjum lifnaðarháttum og aðlögunarferli stelpanna. Í grunninn virðist yngri systirin, Lilly, aldrei samþykkja hið nýja líf, enda hefur Mama verið móðir hennar meirihluta lífsins. Þess vegna fagnar hún því þegar Mama birtist í nýja húsinu og leikur við hana.

Mama

Í einu skemmtilegasta skoti myndarinnar sést Lilly leika við Mama inn í herbergi á meðan Victoria og Annabel spjalla saman í ganginum, hinum megin við vegginn. Kvikmyndatakan hjálpar mikið við uppsetningu hrolls og spennu í myndinni og er undir sterkum áhrifum frá japönskum og suður-kóreskum hryllingsmyndum. Stökkklipping er mikið notuð til þess að færa ógnina nær með því að sleppa nokkrum römmum og koma áhorfandanum í opna skjöldu. Aðferð sem var fullkomnuð í suður-kóresku myndinni A Tale of Two Sisters (2003), sem ég mæli eindregið með fyrir hrollvekjufíkla. Hún var reyndar endurgerð fyrir bandarískan markað árið 2009 sem The Uninvited, en átti ekki séns í þá upprunalegu. En aftur að Mama. Margar einkennandi aðferðir við uppbyggingu hryllingsins birtast í myndinni. Rotnandi veggir fylgja náveru Mama og minna nokkuð á Repulsion (1965). Skríðandi hreyfing ungra stelpna hefur sést áður í The Exorcist (1973) og Ringu (1998) og notkun myndavélaflass til að birta upp hin dimmustu skúmaskot sem hefur verið notað í myndum á borð við Saw (2004), Shutter (2004), Don‘t be Afraid of the Dark og kannski fyrst í Hitchcock myndinni Rear Window (1954). Þessar aðferðir eru allar góðar og gildar og geta verið notaðar á mjög skilvirkan hátt. Mama fer þó heldur frjálslega með þær og það gerir myndina stundum of fyrirsjáanlega.

Framsetningin á persónunni Mama er einnig undir sterkum japönskum áhrifum þar sem síða og dökka hárið hennar spilar mikið inn í hryllinginn. Í fyrstu sér maður lítið nema skuggann af henni og þá virkar hún best. Fátt er jafn ógnvekjandi og það sem þú sérð ekki alveg. Þegar líður á myndina sjáum við hins vegar meira og meira af henni og þá hættir návera hennar að virka eins óþægileg og maður missir áhugann. Þar sem að hún er algjörlega tölvugerð virkar hún mjög vel sem myrk vera, en þegar hún sést í fullri lýsingu hverfur hrollurinn sem hún vakti í byrjun myndar. Baksaga hennar, sem minnir óþarflega mikið á Ringu, er svo kynnt og þá fer sá litli frumleiki sem fylgdi myndinni út um gluggann.

Mama

Myndin þróast í lokin í einhvers konar ævintýramynd frekar en hrollvekju og ég meina það á neikvæðan hátt (þó ég elski góðar ævintýramyndir). Hugsanlega eru áhrif del Toro of sterk til þess að myndin fái að njóta sín eða kannski vantar meiri reynslu hjá handritshöfundum myndarinnar, en hún verður hreinlega bara óspennandi í lokin og Mama minnir á spaugilega fígúru úr Tim Burton mynd (aftur, þá meina ég þetta ekki sem hrós). Það er vel hægt að blanda saman hrollvekju og ævintýrum og del Toro veit allt um það, en hér kemur það út sem redding frekar en ætlun. Muschietti þarf kannski að öðlast meiri reynslu til að halda mynd áhugaverðri í 100 mínútur því að stuttmyndin samnefnda virkaði nokkuð vel og byrjunaratriðið var frábært. En um leið og sagan þróast og við kynnumst ógnvægilegu verunni betur komumst við að því hversu lítið kjöt er á beinunum og sama hversu miklu poppi maður treður í sig fer maður ekki saddur út af myndinni.

Ég get mælt með fyrri hluta myndarinnar því hann er skrambi fínn en seinni hlutinn sveik þær litlu væntingar sem ég hafði og sóaði þeim möguleikum sem myndin hafði í byrjun.

 

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑