Fréttir

Birt þann 28. apríl, 2013 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

EVE Fanfest 2013: Framtíð EVE Online

Þann 6. maí næstkomandi mun EVE Online fagna 10 ára afmæli sínu. Í gegnum öll þessi ár hefur CCP tekist vel til við að halda leiknum ferskum með því að gefa út stórar viðbætur á um hálfs árs fresti. Á EVE Keynote stigu Jon Lander, Kristoffer Touborg og Andie Nordgren á svið og gáfu viðstöddum smá forsmekk af því sem koma skal með nítjándu viðbót EVE Online, sem mun bera nafnið Odyssey og kemur út í næsta mánuði.

Geimskip, stríð og sprengingar

Áður en farið var út í kynningu á því nýja efni sem Odyssey mun hafa í för með sér, útskýrði Jon Lander þá framtíðarstefnu sem hefur verið mótuð fyrir EVE Online og hvernig hún var nálguð í Retribution, síðustu viðbót leiksins. Í grunnatriðum hefur EVE alltaf snúist um þrjá hluti: Geimskip, stríð og sprengingar. Í Retribution var áherslan lögð á þessa þrjá hluti með því að auðvelda nýjum jafnt sem gömlum spilurum að taka þátt í stríðum milli hinna pólitísku fylkinga sem byggja New Eden. Retribution kom þessum hlutum vel til skila með auknum hvötum fyrir spilara til að ferðast til sólkerfa þar sem verndarvængur tölvustýrðu geimlöggunar Concorde nær ekki. Lander benti á að þessi þróun hefði ekki tekist í sama mæli ef ekki hefði verið fyrir aukna aðkomu CSM ráðgjafaþingsins (Council of Stellar Management), sem er myndað af reyndum EVE spilurum. Að mati Landers er Retribution best heppnaða viðbótin við EVE Online til þessa. Viðbótin var hönnuð í mikilli samvinnu við spilara leiksins og varð hún til þess að fjöldi nýrra spilara bættust við, en ennfremur dró hún marga gamla spilara aftur í geimskipin sín. Tilgangur Retribution var að nálgast aftur kjarna EVE Online, sem hefur og mun alltaf vera geimskip, stríð og sprengingar. Tilganginum var náð og nú er tími til að hlúa að öðrum rótum EVE heimsins sem hafa ekki verið vökvaðar í mörg ár.

 

Odyssey

Þegar Kristoffer Touborg og Andie Nordgren stigu á svið tók við kynning á því hvaða nýju breytingar Odyssey mun bera í skauti sér. Touborg byrjaði á því að skrá sig inn í EVE Online og varpa honum á stóra tjaldið, þar sem hann hófst handa við að sýna áhorfendum þær helstu spilunarnýjungar sem spilarar mega eiga von á í Odyssey. Það helsta sem bar fyrir augu var:

  • Frekari notkunarmöguleikar á geimstöðvum sem eru byggðar og stjórnað af spilurum.
  • Breytingar á námuvinnslu á tunglum og í lofsteina- og ísbeltum.
  • Nýjir Navy Battlecruisers verða kynntir til sögunnar og 20 öðrum geimskipum hefur verið breytt til að gæta að spilunarjafnvægi.
  • Nýjar og hraðari leiðir til að bæta öryggisstöðu spilara gagnvart Concorde geimlöggunni.
  • Úthlutun á nýjum og stærri verkefnum hjá tölvustýrðum umboðsmönnum.
  • Skönnunarhluti leiksins hefur bæði verið einfaldaður og dýpkaður til muna, og gefur nú af sér stærri ávinning fyrir spilarann.
  • Stökkhlið milli sólkerfa sem eru smíðuð og stjórnað af spilurum.
  • Grafík leiksins hefur einnig verið bætt töluvert líkt og í fyrri viðbótum.

Þeir sem vilja kynna sér til hlítar þær væntanlegu breytingar sem Odyssey ber með sér, þá er fjallað nánar um þær á Developement bloggi EVE Online.

 

Breyttar áherslur

Að lokum hóf Andie Nordgren að útlista hvaða stefnu EVE Online myndi taka á komandi árum. Nordgren undirstrikaði að EVE væri lifandi og spennandi vísindaskáldskapsheimur sem ætti sér engan líkan, og því væri þema Odyssey EVE heimurinn sjálfur. Í komandi viðbótum mega spilarar EVE Online búast við að vísindaskáldskapshluti New Eden verði undirstrikaður, þar sem margir möguleikar eru til staðar en standa enn ónýttir. Saga og þema leiksins verður dregið meira fram á komandi árum, til þess að fólk sem hafi almennan áhuga á vísindaskáldskap geti haft gaman af leiknum án þess að demba sér beint í djúpu laugina þar sem reyndustu spilararnir synda. Reynt verður að koma til móts við þá spilara sem hafa áhuga á að spila leik eins og EVE Online, en á sama tíma hafa e.t.v. hvorki tíma né getu til þess að spila hann á öllum þeim sviðum sem leikurinn býður upp á. Með þessari nálgun vonast CCP til þess að höfða til spilara sem stunda einspilun að meira marki, ásamt því að auka nýliðun og efla þar með EVE Online samfélagið í heild sinni.

CCP stendur frammi fyrir stórum breytingum á EVE Online heiminum á komandi árum. Í dag eru um 500.000 manns sem spila EVE Online, en umfang heimsins fer sístækkandi með hverju árinu sem líður. Með tilkomu Odyssey og Dust 514 virðist EVE samfélagið enn vera að stækka heilum 10 árum eftir að leikurinn kom fyrst út, og því verður spennandi að sjá hvaða stefnu EVE Online tekur á næstu árum.

 

• Fleiri fréttir frá EVE Fanfest 2013

 

 

Höfundur er Kristinn Ólafur Smárason,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑