Bíó og TV

Birt þann 24. febrúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Topp 10 kvikmyndir ársins 2012

Nú er liðið á febrúarmánuð og maður er loksins búinn að sjá flestar þær myndir frá síðasta ári sem maður hafði hug á að sjá. Árið var gjöfult af gæðamyndum og úr mörgum að velja þegar maður íhugar hverjar hafi staðið upp úr. Þar sem kvikmyndir koma misjafnlega fljótt til landsins í sýningu getur orðið ruglandi að skilgreina hvenær þær hafi komið út. Ég hef því ákveðið að skorða listann minn við sýningu myndanna í kvikmyndahúsum hérlendis. Aðeins ein eða tvær þeirra mynda sem ég valdi voru frumsýndar árinu áður erlendis, en það voru eins konar forsýningar á kvikmyndahátíðum.

 

10. The Dark Knight Rises

TDKR

Ofurhetjumyndir hafa ekki endilega verið þekktar í gegnum tíðina fyrir að sýna fram á það besta í kvikmyndagerð og ekki fengið mikið lof þangað til Christopher Nolan tók að sér Batman varninginn. Tim Burton tókst ágætlega að birta myrku hliðar persónunnar u.þ.b. 15 árum áður, en nokkru síðar tókst Joel Schumacher að gjörsamlega eyðileggja ofurhetjuna vinsælu fyrir mörgum aðdáendum um heim allan með steypunni sem var Batman og Robin (1997). Batman Begins (2005) í leikstjórn Nolans kom öllum á óvart og The Dark Knight (2008) gerði allt vitlaust. Því voru auðvitað gífurlegar væntingar gerðar til þriðju og síðustu myndarinnar um Leðurblökumanninn, svo miklar að hún var dæmd til að valda vonbrigðum. Ég reyndi að halda ró minni og búast við engu og því var ég sæmilega sáttur við útkomuna. Hún var ekki þessi fullkomna blanda af kröftugri ránmynd með svörtum húmor og einum flottasta óþokka sem birst hefur á hvíta tjaldinu síðustu ár, en hún hafði engu að síður margt upp á að bjóða.

The Dark Knight Rises býður okkur upp á kröftugan óþokka og aldrei hefur leðurblökumaðurinn verið jafn yfirbugaður og gegn styrkleika Bane, sem leikinn er af Tom Hardy. Christian Bale sýnir okkur leðurblökumanninn í sínu versta ásigkomulagi, hataður af almenningi og fangaður af óvini sínum. En við sjáum hann rísa til fyrra forms og yfirstíga innri baráttu til þess að mæta Bane. Flottustu atriði myndarinnar gerast í fangelsi sem grafið er ofan í jörðina og þar er Bruce Wayne fastur á meðan Gotham er á mörkum útrýmingar. Tónlistin er sem áður mjög vel gerð en kannski ekki eins áberandi flott og í TDK og það sama má segja um myndatökuna. Anne Hathaway stendur sig vel sem Kattarkonan og sýnir persónan nýjar hliðar, en ég myndi þó ekki segja að hún hafi toppað Michelle Pfeiffer í Batman Returns (1992). Þó að endir myndarinnar sé kannski fyrirsjáanlegur þá fannst mér hann vel heppnaður og bindur ágætis endahnút á framlagi Nolans til Batman myndanna. Myndin var nokkuð spennandi og bauð upp á skemmtilegar persónur, en það vantaði eitthvað meira, einhvern kraft sem að hinar tvær myndirnar bjuggu yfir. Kannski var Nolan bara búinn að kveðja Batman áður en hann byrjaði.

 

9. The Hobbit: An Unexptected Journey

The Hobbit

Ég er búinn að birta rýni á þessari mynd hér, en til að stikla á stóru þá bjóst ég við meiru, eða kannski öðru. Ég efaðist um getu Jacksons til að gera þrjár myndir úr einni stuttri bók áhugaverðar. Vissulega fékk hann lánað smá aukaefni en það virðist ekki hafa nægt, a.m.k. ekki í fyrstu myndinni. Ég vona að hinar verði innihaldsríkari og þéttari, en ég myndi þó alls ekki segja að An Unexpected Journey hafi verið slæm. Myndin var góð, skemmtileg og virkilega falleg. En þegar fólk sýnir fram á ótrúlega getu í kvikmyndagerð þá byrjar maður að búast við ákveðnum hlutum, eins og t.d. vit til þess að dæma um hversu langt sé hægt að draga eina sögu. Tónlistin var ágæt, ég er reyndar lítið fyrir söngva í kvikmyndum en þeir höfðu flestir tilgang. Leikarar stóðu sig með prýði og Martin Freeman smellpassar í hlutverk Bilbo. Helstu óþokkar myndarinnar eru óspennandi en Gollum fær svo frábæra meðhöndlun að það jafnast út. Kannski er ég bara að vaxa úr Tolkien æðinu eða kannski var The Hobbit ekkert það frábær miðað við The Lord of the Rings, enda ætluð börnum. En í bæði skiptin sem ég las hana fannst mér hún meira spennandi en það sem ég sá á skjánum. Eflaust er auðveldara að meta þetta allt saman þegar hinar myndirnar eru komnar út til að fá heildarmyndina. En ég hafði þó gaman af myndinni og mig langar að gefa henni annan séns.

 

8. Chicken With Plums

Chicken with Plums

Frá leikstjórum og höfundum Persepolis (2007) kemur önnur jafn flott og hjartnæm mynd sem segir frá fiðluleikara í tilvistarkeppu. Eftir að eiginkona hans brýtur fiðluna hans leitar hann af annarri til að koma í hennar stað en það gengur ekki og hann gefst upp á tónlistinni og lífinu. Hann reynir að fremja sjálfsmorð og tekst það ekki heldur, því ákveður hann að liggja í rúmi sínu þar til dauðinn tekur hann. Á meðan hann bíður dauðans fá áhorfendur að skyggnast inn í fortíð hans og þá týndu ást sem hann hefur aldrei gleymt. Myndin er að hluta til teiknuð og er stíllinn svipaður og í Persepolis. Útlitið er virkilega vel heppnað og gefur sögunni ævintýralegan blæ. Handritið inniheldur svartan húmor, gott drama, dass af krúttleika og gerir áhorfið mjög ánægjulegt. Marjane Satrapi og Vincent Paronnaud hafa gott vald á myndrænni tjáningu og kunna að segja sögu. Fyrri mynd þeirra skildi töluvert meira eftir en þessi finnst mér alls ekki síðri, enda eru þær nokkuð frábrugðnar hvorri annarri. Rætur Satrapi til Íran eru enn mjög áberandi en þessi mynd er nokkuð franskari í heildina litið og er það alls ekki ókostur í minni bók.

 

7. Skyfall

Skyfall

Þessa var ég líka búinn að skrifa um áður, en í stuttu máli fannst mér hún lyfta Bond myndunum á hærra plan. Byrjunartitlarnir voru sérstaklega vel gerðir og söngur Adele fullkomnaði samsetninguna. Thomas Newman sá um tónlistina og stóð sig með prýði, kvikmyndatakan er mjög flott og hasarinn vel framkvæmdur. Myndin heldur dampi í gegn og hefur gott jafnvægi á milli spennu, drama og léttu spaugi inn á milli. Javier Bardem er sérstaklega góður sem hryðjuverkamaðurinn Silva og hressir upp á hinn týpíska óþokka. Ekki er hægt að kvarta undan frammistöðu Daniels Craig sem Bond í misgóðu ástandi og Ralph Fiennes hefur öfluga náveru sem yfirmaður hans í gegnum M, sem að sjálfsögðu er leikin af Judi Dench. Skyfall vísar nokkuð til fyrri myndanna sem er eflaust ánægjulegt fyrir flesta aðdáendur þeirra, en með henni fylgja að vissu leyti breyttar áherslur og þær gerðu myndina töluvert áhugaverðari að mínu mati. Ef að hún setur tóninn fyrir næstu myndir bíð ég spenntur, en hingað til hef ég ekki verið mikill Bond maður.

 

6. Moonrise Kingdom

Moonrise Kingdom

Wes Anderson er búinn að skapa sér nafn fyrir að gera frekar krúttlegar og listrænar kvikmyndir sem að flestir ættu að geta notið, t.d. The Royal Tenenbaums (2001) og Fantastic Mr. Fox (2009). Sú síðarnefnda fannst mér sérstaklega skemmtileg og Moonrise Kingdom tekst jafnvel að toppa hana. Myndin fjallar um óvinsælan og skyndilega munaðarlausan strák í skátabúðum sem flýr til vera með stelpunni sem hann er hrifinn af. Fjölskylda hennar og skátarnir fara á eftir þeim en þau gefast seint upp. Handritið er bráðfyndið og rómantískt þó að um krakka sé að ræða. Ekki sakar svo að leikarvalið er stórkostlegt. Bill Murray á svo gott sem fastasæti í myndum Andersons og leikur hér föður stelpunnar, France McDormand leikur móðurina, Bruce Willis klikkar auðvitað ekki sem löggan, Edward Norton er skátaforinginn, Jason Schwartzman vinnur í öðrum skátabúðum og Tilda Swinton leikur konu frá barnaverndarnefnd. Jared Gilman og Kara Hayward eru einnig mjög sannfærandi sem unga parið. Kvikmyndatakan er lífleg og gerir myndina ennþá ánægjulegri.

 

5. Seven Psychopaths

Seven Psychopaths

Fáar myndir sem ég sá árið 2012 höfðu jafn mikið skemmtanagildi og þessi. Hún minnir nokkuð á fyrri myndir Tarantinos og byggist að miklu leyti á hnittnum samtölum með svörtum húmor sem byggja upp andrúmsloftið fyrir ýmis konar uppákomur. Martin McDonagh, sem þekktastur er fyrir In Bruges (2008), leikstýrði myndinni og valdi Colin Farrell aftur í eitt af aðalhlutverkunum. Farrell leikur írskan handritshöfund með áfengisvandamál. Hann býr í Los Angeles og á erfitt með að semja nýjasta handrit sitt, en hefur þó nefnt það Seven Psychopaths. Sem betur fer er smáglæponinn vinur hans, leikinn af Sam Rockwell, hjálpsamur á sinn hátt og tekst að koma honum inn í atburðarrás sem færir okkur geðsjúklingana sjö. Einn helsti kostur myndarinnar er úrval leikara sem margir hverjir eru þekktir fyrir að leika skrítið fólk og því á maður sjaldan í vandræðum með að trúa því sem fyrir augum ber. Ásamt Farrell og Rockwell má t.d. nefna Christopher Walken, Woody Harrelson og Tom Waits sem svíkja engann.

 

4. Argo

Argo

Mörg kynntumst við Ben Affleck í gegnum myndir Kevins Smith og tókum hann varla alvarlega, enda hefur hann ósjaldan tekið að sér frekar óspennandi hlutverk. Þegar hann leikstýrði svo eigin mynd, The Town (2010), þar sem hann stóð sig einnig vel í aðalhlutverki, snerist hugur flestra um ágæti mannsins. Eftir að hafa séð Argo er ég fullviss um að Affleck viti loksins hvað hann er að gera. Frá byrjun myndarinnar sogast maður inn í söguna og tengist persónum hennar. Fólk í bandaríska sendiráðinu í Íran er tekið í gíslahald í kjölfarið á hörðum mótmælum gegn bandarísku ríkisstjórninni fyrir að hafa verndað fyrrum keisara landsins sem flúið hafði land. Nokkrir aðilar komast undan og fá tækifæri, þó ekki hættulaust, til að ferðast aftur til Bandaríkjanna. Þó að maður geri sér grein fyrir að hér sé aðeins sýnd bandaríska hliðin á ástandi sem hafði áhrif á marga þá eru aðrar hliðar ekki fordæmdar og persónurnar eiga vel skilið þá samúð sem handritið veitir þeim. Leikurinn er góður, sagan er spennuþrungin og manni er annt um persónurnar. Eins og sést hefur nýlega á Golden Globes og BAFTA þá er hér á ferð sannkölluð verðlaunamynd.

 

3. Marina Abramovic: The Artist is Present

Marina Abramovic

Sjaldan hefur kvikmynd komið mér jafn mikið á óvart og þessi heimildarmynd gerði á RIFF hátíðinni síðasta haust. Ég vissi ekki einu sinni hver þessi listamaður væri, en eftir áhorfið fannst mér ég þekkja hana sem manneskju. Marina Abramovic er serbneskur gjörningalistamaður sem hefur starfað frá áttunda áratuginum og sjokkerað ófáan manninn með ótrúlegum gjörningum sínum. Hún ýtir mörkum líkama og sálar stöðugt lengra og hefur lagt mikið á sig til að tjá list sína. Hún hefur t.d. innbyrt lyf til að hamla stjórn á líkama og huga, gefið fólki traust og tækifæri á að gera hvað sem er við hana með vopnum sem hún setur fram og komið fram á listasafni í marga mánuði þar sem hún sat á móti fólki og hélt augnsambandi við það.

Hún framkvæmdi hið síðastnefnda þegar hún hélt yfirlitssýningu á verkum sínum þar sem hún fékk annað fólk til að endurtaka gjörningana. Sú sýning er umfjöllunarefni myndarinnar og það er farið nokkuð ítarlega í undirbúning og framkvæmd hennar. Aldrei hef ég kynnst manneskju eins vel í gegnum kvikmynd og í þessari. Abramovic er ófeimin og gefur sig alla í myndina. Auðvitað gengur á ýmsu þegar svona stórt verkefni er framkvæmt og listamaðurinn sést í misjöfnu ástandi. Þó að góður tími fari í að sýna mismunandi viðbrögð fólks þegar það situr á móti henni þá leiðist manni aldrei og efnið er það áhugavert að maður dettur alveg inn í atburðarrásina. Matthew Akers leikstýrir myndinni fantavel og nýtist reynsla hans við sjónvarpsheimildarþætti vel. Hann hefur þó ekki leikstýrt mikið af eigin efni og verður fróðlegt að sjá hvort hann geri ekki meira af því í framtíðinni.

 

2. Prometheus

Prometheus

Ég hafði vægast sagt miklar vonir bundnar við þessa mynd, enda er ég mikill aðdáandi Alien seríunnar og þá sérstaklega fyrstu myndarinnar sem að Ridley Scott leikstýrði árið 1979. Með Prometheus snýr Scott aftur til Alien heimsins án þess að gera myndina að eiginlegri „Alien-mynd“ og fylgir vísindamönnum í rannsóknum sínum á meintum forfeðrum frá annarri plánetu. Með hjálp frá Weyland Corporation fara þau á slóðir forfeðranna, og þó ekki alveg, enda finna þau ekki heimaplánetu þeirra, heldur eins konar ræktunaraðstöðu fyrir verur (gettu hvernig!) sem ætlað er að senda til jarðarinnar í þeim tilgangi að eyða því lífi sem þeir sköpuðu þar fyrir löngu síðan.

Byrjunaratriði myndarinnar byggir mikið traust fyrir restinni, en þar er hugsanlega um að ræða flottustu notkun á íslenskri náttúru sem ég man eftir í kvikmynd. Að sjá það á stærsta kvikmyndatjaldi landsins var svo sannarlega mögnuð reynsla og á þeim tímapunkti var ég svo gott sem búinn að ákveða að þessi mynd yrði frábær. Sagan er mjög áhugaverð og nýjar áherslur blandast ágætega við Alien hefðina, en þó hinn magnaði listamaður H.R. Giger hafi ekki séð um hönnun á geimverum og sviðsmyndum í þetta skiptið tókst það að mestuu leyti prýðilega. Tónlistin er sérstaklega flott þegar geimveruegginn birtast og skapar nokkuð drungalegt andrúmsloft. Michael Fassbender stendur sig virkilega vel sem vélmenni og mennskir eiginleikar hans minna nokkuð á Cylon vélmennin úr Battlestar Galactica seríunni. Þó að flestir liðir hafi verið jákvæðir hefði ég viljað sjá ítarlegri framþróun og mér fannst endirinn hálf ómerkilegur. Hins vegar er framhald á leiðinni og aldrei að vita nema að það slökkvi þorstann.

 

1. Cloud Atlas

Cloud Atlas

Á hverju ári er yfirleitt ein kvikmynd sem hefur svo mikla yfirburði að það er fáránlegt. Slíkt mæli ég hvorki í Óskarstilnefningum né aðsóknartölum, heldur geri ég það með tilfinningunni sem býr innra með mér á meðan og eftir að ég horfi á myndina. Þegar ég sá fyrst stiklu myndarinnar sýndist mér hún frekar áhugaverð og ég var spenntur fyrir því að sjá hvernig samstarf Wachowski systkinanna (þekkt sem bræðurnir bak við Matrix þríleikinn áður en Laurence fór í kynskiptiaðgerð) við Tom Tykwer (Run Lola Run og Perfume: The Story of a Murderer) kæmi út. Ég hafði hins vegar áhyggjur af stóru hlutverki Tom Hanks í myndinni en áhyggjur mínar voru óþarfar, enda stendur hann sig með prýði líkt og oft áður.

Þessi stórbrotna vísindaskáldsögu-dramamynd á ekkert nema hrós skilið. Hún tvinnar saman sögur frá mismunandi tímum og stöðum og nýtir hvern leikara í fjölmörg hlutverk. Þetta getur vissulega orðið ruglandi fyrir suma áhorfendur, en persónulega finnst mér bara jákvætt ef að kvikmynd krefst fullrar athygli áhorfanda. Leikaravalið er gífurlega ríkt og frammistaða allra til fyrirmyndar. Þar má t.d. nefna Tom Hanks, Halle Berry, Hugo Weaving, Jim Broadbent, Jim Sturgess, Ben Whishaw, Doona Bae, Keith David, James D’Arcy, Susan Sarandon og Hugh Grant. Tónlistin er mjög vel heppnuð og tekur Tom Tykwer þátt í gerð hennar. Kvikmyndatakan er virkilega falleg og framtíðarsýnin sem birtist minnir nokkuð á Blade Runner (1982). Fyrir aðdáendur vísindaskáldskapar set ég þessa mynd í skylduáhorf síðustu ára og þó hún hafi ekki vakið ýkja mikla athygli þá tel ég að hún muni með tímanum öðlast mikla aðdáun.

 

Þá hef deilt með ykkur topplistanum mínum yfir kvikmyndir síðasta árs. Endilega rífið hann í ykkur og birtið ykkar eiginn.

 

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑