Bíó og TV

Birt þann 15. janúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: The Hobbit: An Unexpected Journey (48fps 3D)

Það var um jólin árið 2001, fyrir ellefu árum síðan, sem að 13 ára strákur gekk inn í kvikmyndahús og ætlaði að kíkja á myndina sem hafði fengið svo mikla athygli, The Lord of the Rings: The Fellowship of the Ring. Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast. Ég hafði hvorki lesið bækurnar né kynnt mér söguna að neinu leyti. Þremur klukkutímum seinna gekk ég út eftir að hafa kynnst öðrum heimi og ég gat ekki beðið eftir að heimsækja hann aftur. Áður en The Two Towers kom út hafði ég lesið allar bækurnar og hafði auðvitað gagnrýnni skoðun á myndinni en fílaði hana í botn og sömuleiðis The Return of the King. Þetta var líklega í fyrsta sinn sem ég upplifði mig sem virkilegan aðdáanda og lengi vel voru myndirnar í algjöru uppáhaldi. Ég horfi ennþá á þær með reglulegu millibili, t.d. um jólin, enda góður tími til að heimsækja ævintýraheima.

Þegar ég heyrði fyrst að það stæði til að kvikmynda The Hobbit vissi ég að ég myndi aldrei upplifa hana eins og ég gerði með The Lord of the Rings. Hins vegar fagnaði ég því að fá vonandi góða aðlögun á bókinni og varð eiginlega spenntari við að heyra að Guillermo del Toro ætlaði sér að leikstýra henni. Það gekk því miður ekki eftir og Peter Jackson tók við, en auðvitað gat maður ekki annað en treyst meistaranum sem færði okkur fyrri þríleikinn. Svo kom í ljós að The Hobbit ætti líka að verða þríleikur. Þá fór maður að óttast Lucas-heilkennið, enda er bókin það stutt að erfitt var að ímynda sér hvernig hægt væri að teygja hana yfir þrjár myndir, sérstaklega ef myndirnar yrðu á lengd við LOTR. Sama hversu miklu aukaefni úr hinum bókunum væri troðið með fannst mér ólíklegt að þetta gæti gengið hispurslaust. En auðvitað má maður ekki fordæma mynd áður en maður sér hana og ég ákvað að fara í bíósalinn með opnum huga.

The_Hobbit_01

Fyrir þá sem ekki vita fjallar The Hobbit í stuttu máli um ævintýri Bilbo Baggins þegar hann var yngri. Hann er plataður af Gandalf til að slást í för með 13 dvergum til að endurheimta heimili sitt við The Lonely Mountain frá drekanum Smaug. Á leiðinni sér hann fjöldan allan af skrítnum verum á borð við tröll, risaköngulær, risaerni, varga, drísla, orka, álfa og auðvitað sjálfan Gollum. En eftir háskalegan gátuleik gengur hann burt frá honum með gullhring nokkurn sem fólk á að kannst við úr LOTR.

The Hobbit: An Unexptected Journey er sýnd í þrívídd og í 48 römmum á sekúndu, í stað hefðbundinna 24 ramma. Eini staðurinn hérlendis sem sýnir hana þannig er Laugarásbíó, með 4K upplausn í þokkabót. Myndin var reyndar tekin upp í 5K, en flest kvikmyndahús hér á landi geta aðeins sýnt hana í 2K. Því grunar mig að sýningarnar í Laugarásbíói verði uppseldar langt fram í janúar. Persónulega finnst mér þrívídd algjör óþarfi og skemmir yfirleitt frekar en að bæta myndina. Myndin dekkist, verður gervilegri og það sem ekki er í fókus týnist algjörlega. Einstaka myndir virka þó sérstaklega vel með þessari tækni ef hún er rétt notuð, t.d. Avatar (2009) og ætli The Hobbit bætist ekki bara á listann? A.m.k. fær hún að verma annað sætið í bili. Þrívíddin skemmir a.m.k. ekki myndina og færir áhorfendur stundum meira inn í atburðarásina, en hún er langt frá því að vera nauðsynleg. Að horfa á myndina í 48 römmum á sek. er ekki jafn óþægilegt og margan kann að gruna. Stundum nýtur maður virkilega þessarar nýju tækni, t.d. í landslagsskotum. Hins vegar kemur fyrir að sum atriði virka eiginlega gervilegri fyrir vikið. Bæði geta hreyfingar virkað eins og þær séu spólaðar pínulítið áfram og svo er greinilegra þegar módel eru notuð fyrir byggingar og þannig svíkur raunsæið stundum fantasíuna. Ég trúi því að þessi tækni verði notuð í auknu mæli í framtíðinni og eflaust mun hún batna. Það tekur líka ekki langan tíma að venjast henni, en það kemur fyrir að maður dettur út úr sögunni vegna þeirra truflandi eiginleika sem henni fylgja.

The Hobbit

Myndin sjálf er nokkuð vel heppnuð, en er eins og ég óttaðist óþarflega hæg. Það tekur nokkurn tíma að kynna söguna áður en hún byrjar og þegar henni er lokið finnst manni ekki það mikið hafa gerst. Bókin The Hobbit var ekki skrifuð eins og LOTR og reiðir minna á langar lýsingar á náttúru og gönguferðir. Hún var auðvitað barnabók og því að nokkru leyti léttari og full af hasar. Myndin er hins vegar í stíl við The Fellowship of the Ring og tekur sinn tíma í að fara af stað. Ekki misskjilja mig, ég fíla þegar kvikmyndir taka sinn tíma og FOTR gerir það vel. Hins vegar er mun minna að vinna með í The Hobbit og þó að Peter Jackson fái smáatriði lánuð úr öðrum verkum Tolkiens þá fylla þau ekki nægilega í eyðurnar. Engu að síður er myndin klárlega barnavæn og það getur verið jákvætt og neikvætt. Húmorinn virkar yfirleitt mjög vel og ævintýralegur blær myndarinnar fellur líklega í kramið hjá flestum aldurshópum. Hún er svolítið sætari en LOTR og einfaldari, sem kemur ekki að sök, en það er kannski óþarflega mikið um söngva. Tveir eru t.d. sungnir þegar dvergarnir hittast hjá Bilbo og meira að segja leiðtogi dríslanna dettur í söng þegar hann undirbýr pyntingar á dvergunum, enda nokkuð sniðugar andstæður í gangi þar. Það versta er þó að mest áberandi illmenni myndarinnar er hreinlega ekkert ógnvekjandi. Fölur og hávaxinn orki ætti jú að virka meira sannfærandi en fígúra sem virðist gerð með leikfangasölu í huga. Ég leyfi því þó að sleppa þar sem orkar eiga að vera blanda af álfum og dríslum og því gæti þessi einstaklingur sýnt eiginleika frá álfahliðinni sem eru ekki jafn fráhrindandi og hjá hinum venjulega orka.

The Hobbit

Leikararnir standa sig allir með prýði og þá er Martin Freeman sérstaklega góður sem Bilbo, enda augljóst val. Enn fremur var Jackson tilbúinn til að vinna í kringum tökuáætlun Freeman í bresku Sherlock þáttunum, þar sem hann fer með hlutverk Dr. John Watson. Sem Bilbo er hann mjög sannfærandi og sýnir bæði þrjósku og friðsemd hobbita ásamt ævintýragirni hans. Ian McKellen endurtekur stórleik sinn í hlutverki Gandalfs og sama má segja um ýmsa aðra leikara sem endurtaka hlutverk sín stuttlega úr fyrri þríleiknum. Sylvester McCoy, betur þekktur sem sjöundi doktorinn úr Dr. Who þáttunum, fer með hlutverk hins léttklikkaða vitka Radagast the Brown og er klárlega með skemmtilegri persónum myndarinnar. Richard Armitage leikur Thorin, leiðtoga dverganna og má segja að hann sé eins konar staðgengill Aragorns í þessari sögu. Hann er réttborinn konungur án ríkis sem vill endurheimta það sem tilheyrir þjóð hans og fjarlægja illskuna sem þar ríkir. Andy Serkis færir svo Gollum líf á ný og gerir það sérstaklega vel. Samskipti hans og Bilbo eru klárlega eftirminnilegasti hluti The Hobbit og í örvæntingu sinni virðist Gollum mannlegri en nokkru sinni fyrr. Eini leikurinn sem hefði getað farið betur var í tilfelli trölls sem hljómaði óvenju skrækjótt miðað við stærð og einnig fannst mér kjánalegt að sjá risavaxinn drísil tala með hefðarlegum breskum hreim, en það hafði eflaust eitthvað með húmor að gera.

The Hobbit

Margt sem heppnaðist vel í LOTR er endurtekið í The Hobbit: An Unexptected Journey, en þó tónlistin sé að einhverju leyti svipuð þá fannst mér hún ekki jafn kröftug í þetta skipti. Dvergasöngurinn glymur í mismunandi formi og þó hann virki fantavel þá er hann kannski endurtekinn full oft. Howard Shore tókst vel að gefa öllu þematónlist í fyrri þríleiknum og á eflaust eftir að galdra fram epíska tóna við ýmis tilefni í næstu myndum. Það vantaði kannski bara fleiri tækifæri til að krydda upp á tónlistina í þessum hluta og ég vonast til að heyra drungalegri tóna þegar illu öflin fara að birtast í auknum mæli.

Tæknibrellur voru að mestu leyti til fyrirmyndar og fegurð tökustaðanna ollu ekki vonbrigðum. Vargarnir voru tölvuvert betur útfærðir en þegar þeir birtust í The Two Towers og andlitsgervin klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn. Þó fannst mér eldurinn ekkert sérlega raunverulegur, en það var kannski þrívíddin sem truflaði. Í heildina séð var myndin vel heppnuð og skemmtileg, en svolítið langdregin og ekki nógu heilstæð. Sagan rennur eflaust vel þegar maður sér allar myndirnar í röð, en hún þjáist svolítið af því að sýna aðeins einn þriðja sögunnar (og varla það). Í byrjun er reynt of mikið að tengja myndina við fyrri þríleikinn og áhorfendur kannski full mikið mataðir af augljósum staðreyndum. Myndina hefði annað hvort mátt stytta eða einfaldlega skipta sögunni í færri hluta. Hér er þó á ferðinni góð ævintýramynd fyrir alla aldurshópa sem gefur fólki kost á að kynnast verkum Tolkiens enn frekar.

The Hobbit: An Unexptexted Journey var kannski ekki jafn góð og ég vonaðist eftir en hún var heldur ekki jafn slæm og ég óttaðist og skilur eftir nokkuð bjartsýnar vonir til næstu tveggja hluta.

 

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑